Fjölmiðlastjarna og spriklandi doktor með ástríðu fyrir hjartanu og þjónandi forystu

Vísindafólkið okkar — Sigurður Ragnarsson
Fjölmiðlastjarna og spriklandi doktor með ástríðu fyrir hjartanu og þjónandi forystu

Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á vísindafólkinu okkar. Vísindamanneskjan í mars er Sigurður Ragnarsson, lektor við Viðskiptadeild. Samhliða lektorsstöðunni sinnir hann eigin fyrirtæki, Forysta og samskipti, sem hann stofnaði og rekur í dag.

Fjölmiðlafýr sem fyrir tilviljun fann sig í akademíu

Sigurður eða Siggi eins og hann er kallaður, brennur fyrir umbótum og þróun þegar kemur að forystu, stjórnun og samskiptum sem endurspeglast í námi. Siggi lærði mannauðsfræði og samskipti á vinnustöðum í Bandaríkjunum og lauk þaðan einnig MBA gráðu með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Hann lauk svo doktorsgráðu í viðskiptafræði við Háskóla Íslands þar sem hann rannsakaði sérstaklega iðkun þjónandi forystu í bandarískum fyrirtækjum.

Siggi fæddist og sleit barnsskóm í Reykjavík og bjó líka í mörg ár í Mosfellsbæ. Hann byrjaði sinn feril í fjölmiðlum og þá sérstaklega útvarpi. Hann starfaði m.a. á Bylgjunni, Rás 2, Stjörnunni sálugu og FM957. Hann hefur einmitt ljómandi þýða útvarpsrödd líkt og öll geta heyrt í dag hlusti þau á hlaðvarpsseríuna hans eða eins og hann sjálfur segir. „Ég hef alltaf brunnið fyrir og haft áhuga á forystu, stjórnun og samskiptum. Það má segja að hlaðvarpið Forysta og samskipti sem ég hef umsjón með hér við HA sameini að mörgu leyti vinnu og áhugamál.“

Áður en Siggi hóf sinn akademíska feril gegndi hann ýmsum ábyrgðar- og stjórnunarstörfum, meðal annars sem framkvæmdastjóri hjá vefmiðlinum Vísi.is. „Ég hef starfað við flesta háskóla hér á landi ásamt því að ég sinni stjórnenda- og forystuþjálfun fyrir ótal fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög,“ upplýsir Siggi einnig um en hann hefur verið í föstu starfi við HA síðan í byrjun árs 2021 og hafði þar á undan sinnt stundakennslu. „Fyrir löngu síðan sótti ég um starf markaðsstjóra hjá Bifröst áður en ég hóf minn akademíska feril, síðan var hætt við að ráða í það starf en var boðið að kenna hjá þeim í staðinn. Þannig hófst mín akademíska ganga eiginlega fyrir tilviljun,“ segir Siggi um hvernig það kom til að hann fór að vinna við akademíu.

Hjartað í rannsóknunum

Siggi kennir forystu, samskipti, stjórnun, mannauðsfræði og samningatækni svo eitthvað sé nefnt. „Mér finnst langskemmtilegast að finna ef ég hef jákvæð áhrif í þá veru að hjálpa fólki að láta drauma sína rætast,“ segir Siggi aðspurður um hvað honum finnist skemmtilegast í kennslu. „Áskoranir eru þó margar og misjafnar í kennslu. Ætli helsta áskorunin sé ekki sú að vera alltaf á tánum varðandi nýjungar, bæði hvað varðar kennslu og tækni. Áskoranir í starfi eru þó líka heillandi, áhugaverðar og skemmtilegar ásamt því að ég er sjálfur alltaf að læra og vonandi að bæta mig.“

Siggi segist reyna að sprikla eitthvað til að halda líkama og huga í formi og hann horfir á alls konar boltaíþróttir utan vinnu. Þó virðist líkamshlutinn sem mestan áhuga vekur vera hjartað og telur hann mikilvægast til framtíðar að rannsaka hvernig verið er að nýta þjónandi forystu og Heartstyles aðferðina, en hún snýst um að lifa og leiða með hjartanu.

„Heartstyles er alþjóðlegt fyrirtæki sem ég er í samstarfi við og ég er vottaður Heartstyles ráðgjafi og þjálfari. Það er mikilvægt að rannsaka hvaða aðferðum er verið að beita þar sem frábærir hlutir eru að gerast og jafnframt sjá hvað veldur þar sem má gera betur í tengslum við stjórnun og forystu. Við getum svo vonandi notað rannsóknarniðurstöður til að hjálpa bæði starfsfólki og skipulagsheildum að eflast og dafna, og að sjálfsögðu með samfélagsábyrgð að leiðarljósi. Þetta er í raun það sem þjónandi forysta og Heartstyles ganga út á. Mig langar að flétta Heartstyles saman við rannsóknir mínar í framtíðinni,“ segir Siggi að lokum.

Heilræði: Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig!