Fuglelskandi hjúkrunarfræðingur og nýyrðasmiður

Vísindafólkið okkar – Sigríður Sía Jónsdóttir
Fuglelskandi hjúkrunarfræðingur og nýyrðasmiður

Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á rannsakendum. Sigríður Sía Jónsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild, er vísindamanneskja desembermánaðar.

Sía, eins og hún er jafnan kölluð, segist vera Reykvíkingurinn sem þorði að flytja norður. Það var mikil lukka enda gríðarlega reynslumikill kennari og rannsakandi þar á ferð sem sinnir barnabörnum og fuglum í frítíma.

Keyrði daglega í gegnum Manhattan í vinnuna

Sía er fædd og uppalin í Reykjavík, fyrst í Skólavörðuholtinu og síðar í Breiðholtinu. „Í hjarta mínu er ég samt Vestmannaeyingur og vildi hvergi annars staðar vera á mínum yngri árum,“ segir hún og brosir en mamma hennar var þaðan.

Sía á merkilegan feril sem er skreyttur slatta af ævintýrum. Hún útskrifaðist úr Ljósmæðraskólanum og var fjórum dögum síðar komin til Florö í Noregi að starfa sem ljósmóðir þar sem hún var í eitt ár. Eftir heimkomu kláraði hún BS próf í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og hélt aftur erlendis á vit ævintýra í Bandaríkjunum. Þar kláraði hún meistaragráðu sem klínískur sérfræðingur í fjölskylduhjúkrun við Adelphi háskóla á Long Island.

„Þá var ekki hægt að taka meistaragráðu í hjúkrun hér heima sem endaði með því að ég bjó í átta ár í New York fylki og í fjögur ár af þeim starfaði ég sem klínískur sérfræðingur í fæðingarhjúkrun,“ segir Sía frá og bætir við: „Það eru líklega ekki margir Íslendingar sem hafa daglega keyrt í gegnum Manhattan á leið til og frá vinnu, en í tvö ár starfaði ég á Hackensack University Medical Center í New Jersey en bjó alltaf á Long Island. Spítalinn var sá fyrsti til að hljóta Magnet status á meðan ég starfaði þar. Það er æðsta viðurkenning fyrir framúrskarandi hjúkrunarþjónustu. Það var sérstaklega gaman að vinna þarna og fá að vera hluti af hjúkrunarteyminu þar.“

Árið 1996 flutti Sía frá Bandaríkjunum alla leið til Akureyrar þar sem henni bauðst starf við hjúkrunarfræðideild háskólans sem á þeim árum hét heilbrigðisdeild. „Þar hafði ég unnið í þrjú og hálft ár þegar mér bauðst staða yfirljósmóður á Miðstöð mæðraverndar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem ég þáði. Þar var ég í sjö ár og kom þá aftur norður.“

„Nú er ég búin að vera á Akureyri í um 19 ár og frá árinu 2012 hefur háskólinn verið minn aðalvinnustaður,“ segir Sía sátt enda glæsilegur ferill og árið 2019 náði hún enn einni vörðunni þegar hún varði doktorsverkefnið sitt við Linné háskólann í Kalmar/Växjö í Svíþjóð.

Geðheilsa foreldra í kringum barneignir

„Mitt aðalrannsóknarsvið er geðheilsa foreldra í kringum barneignir,“ útskýrir Sía. Hún hefur unnið mikið með andlega líðan verðandi mæðra og undanfarin ár hefur hún einnig beint sjónum sínum að öllum foreldrum í ferlinu.

Doktorsverkefni hennar bar einmitt heitið, Áhrif af sálrænni vanlíðan, ánægju í parsambandi og félagslegum stuðningi á meðgöngu og fæðingu, sem sýnir klárlega hennar áherslusvið hvað varðar rannsóknir.

„Í dag leiði ég rannsóknarhóp sem vinnur úr niðurstöðum rannsókna í verkefni sem kallast Geðheilsuvernd í kringum barnsburð. Við vitum að geðheilsuvandi á meðgöngu hefur áhrif á fóstrið og getur komið fram til dæmis í þroska og heilsufarsvanda seinna meir. Geðheilsuvandi annarra foreldra hefur einnig áhrif, ekkert síður en geðheilsuvandi móður. Við eigum nú þegar tölur hér heima sem sýnir að geðheilsuvandi er algengari á meðgöngu en önnur vandamál sem upp geta komið í kringum barnsburð,“ útskýrir Sía.

Hún segir að Ísland þurfi að styrkja rannsóknir á þessu sviði og bætir við: „Gera þarf meðferðarannsóknir sem styðja við foreldra með geðheilsuvandameð það að markmiði að efla stuðning og meðferðarúrræði fyrir þennan hóp.“

Að nota kennslu til að kveikja í fólki

Sía hefur yfir þriggja áratuga reynslu af kennslu í hjúkrunarfræði, fyrst og fremst innan heilsugæsluhjúkrunar. Hún er í dag með yfirumsjón með nýju klínísku MS-námi í heilsugæsluhjúkrun við háskólann. „Ég byrjaði mína háskólakennslu í ljósmóðurnáminu við HÍ þar sem ég hef sinnt stundakennslu í 30 ár. Ég byrjaði með því að kenna með fyrirlestrafyrirkomulagi“, útskýrir Sía aðspurð um hennar kennslufræði. „Fljótlega upp úr aldamótum fór ég að kenna með lausnarleitarfyrirkomulagi og ég er alltaf hrifin af þeirri kennsluaðferð. Ég segi gjarnan að mitt hlutverk sem háskólakennari sé að kveikja í fólki“.

Kveikja í fólki getur hljómað frekar kyndugt og til útskýringa segir Sía: „Ég vil fá fólk til að spyrja gagnrýninna spurninga og leita nýrra leiða og nýrrar þekkingar. Það skemmtilegasta er að sjá neista kvikna, fá stúdenta til að rökræða, koma með aðra hlið á málefninu og kafa enn dýpra en áður.“

Sía nefnir einnig að í dag sé tilkomin talsverð áskorun í kennslu: „Breytingin á síðustu árum er gífurleg og við horfum fram á gjörbreytta tíma með nýjum „aðila“ í kennslunni hjá okkur, upplýsingaverksmiðjunum sem við verðum að taka með í allt.“ Sía útskýrir að þetta kalli hún gervigreind eftir að hafa hlustað á Magnús Smára sem er verkefnastjóri gervigreindar við háskólann.

Bjó til orðið meðgönguvernd

Sía er frumkvöðull og sporgöngumanneskja þegar vel er að gáð. Hún segir til dæmis frá því hvernig hún eignar sér orðið meðgönguvernd. „Ég hafði samband við íslenska málstöð fyrir nærri 30 árum og spurði hvernig breyta ætti orðinu mæðravernd í meðgönguvernd. Þeim fannst orðið mjög gott og lýsandi og svarið var einfalt, „bara byrja að nota það alltaf og alls staðar“. Enn staglast fólk þó á orðinu mæðravernd sem varð til upp úr aldamótunum 1900 þegar ekkert var skoðað nema móðirin og æðsta markmið konu átti að verða móðir.“

Sía segir að nú sé öldin önnur, að fóstur séu skoðuð í bak og fyrir á meðgöngunni, að makar og eldri systkini eigi líka von á barni. „Í dag ganga líka kvár og karlar með börn og ég vona svo sannarlega að orðið meðgönguvernd verði einn daginn allsráðandi og vil nota tækifærið og þakka þeim sem leggja mér lið í þessum breytingum.“

Sía segir þó að nýyrðasköpun sé ekki hennar aðaláhugamál heldur fuglar. „Fuglar eru einu villtu dýrin sem við sjáum daglega og ég nýt þess að fóðra þá á veturna“. Auk þess elskar hún ræktun hvers konar. „Ég er með gróðurhús og sái fyrir mínu eigin grænmeti og sumarblómum. Ég er meira að segja formaður Garðyrkjufélags Eyjafjarðar!“

Síu finnst líka gaman að ferðast og síðasta sumar keypti hún sér minnsta mögulega tjaldvagn sem til er en náði ekkert að nota hann vegna ökklabrots. „Ég ætla að bæta það upp næsta ár og fara meðal annars með hann vestur á Ísafjörð þar sem sonur minn og tengdadóttir búa. Þar ætla ég að upplifa sólmyrkvann með ömmubörnunum mínum.“

Við kveðjum Síu þar sem hún er líklega á leið að hitta vini enda mikil félagsvera að eigin sögn þar sem hún kannski notar þá sem tilraunadýr við að prófa nýja mataruppskrift.