Fyrsti sameiginlegi háskólahraðall Íslands fer af stað!

Snjallræði verður fyrsti sameiginlegi háskólahraðall Íslands
Svava Björk Ólafsdóttir, verkefnastjóri frumkvöðla og nýsköpunar við HA, í hlutverki sínu á hugmynda…
Svava Björk Ólafsdóttir, verkefnastjóri frumkvöðla og nýsköpunar við HA, í hlutverki sínu á hugmyndahraðhlaupi Krubbs á Húsavík

Í Snjallræði er lögð áhersla á sprotahönnun háskólanna sem felur í sér þróun hugmynda sem eiga rætur í vísindasamfélagi háskólanna. Innan Snjallræðis þróast hugmyndirnar áfram en þau verkefni sem eru valin til leiks eru þau sem talin eru geta haft víðtæk, samfélagsleg áhrif.

Samstarf við MIT DesignX

Sem fyrr er hraðallinn rekinn í samstarfi við MIT DesignX og byggir á þeirra aðferðafræði. Í ár munu þjálfarar frá MIT háskólanum í Boston sjá um að þjálfa íslensku þjálfarana samkvæmt svokölluðu “Train the trainers” fyrirkomulagi. Það er mikill heiður en þetta er í fyrsta skipti sem þau sinna slíkri þjálfun utan MIT háskólans.

Tíu teymi valin til þátttöku

Snjallræði hófst í síðustu viku í Grósku hugmyndahúsi með tíu glæsilegum teymum og þjálfurum frá Háskólanum á Akureyri, Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands. HA-ingurinn Sigrún Emilía Karlsdóttir tekur þátt með teyminu Charbo en Sigrún er nemandi í líftæki.

Alls bárust 45 umsóknir í Snjallræði að þessu sinni og voru 10 teymin valin til að taka þátt. Þau eru:

  • Charbo: Teymið skipa þau Sigrún Emelía Karlsdóttir og Liam O'Malley. Með Charbo er ætlun þeirra að umbreyta lífrænum úrgangi í öruggan og næringarríkan áburð til þess að bæta íslenskan jarðveg, örva vöxt plantna og draga úr þörf fyrir innfluttan áburð.
  • Araxni: Teymið er skipað þeim Mikael Norðquist og Heiðrúnu Ingu Guðmundsdóttur. Verkefni þeirra snýr að framleiðslu á sterku og umhverfisvænu köngulóarsilki til notkunar í heilbrigðis- og tæknigeiranum.
  • Vera: Teymið er skipað þeim Sigríði Kristínu Hrafnkelsdóttur, Hildi Harðardóttur og Birnu Björnsdóttur. Verkefnið snýr að því þróa lausnir sem brúa bilið í þjónustu og samskiptum, styrkja stöðu einstaklingra í viðkvæmri stöðu og gera heilbrigðis- og velferðakerfið skilvirkara og mannúðlegra.
  • Gleipnir Lífsmiðja: Teymið er skipað þeim Guðjóni Ólafssyni og Henný Adolfsdóttur. Um er að ræða líftæknifyrirtæki þar sem virkjaður er erfðamáttur gersveppa og hönnunarlíffræði nýtt til að skapa byltingarkenndar lausnir í lyfjaþróun.
  • CO2 conversion: Teymið er skipað þeim Younes Abghoui, Mohammad Awais og Mohammad Reza Khaniha. Verkefnið snýst um skynsamlega hönnun og uppgötvun efna til að fanga CO₂ og umbreyta því í vistvænt eldsneyti við umhverfisaðstæður með rafhvötun.
  • Tón-tyngi: Teymið er skipað Helgu Rut Guðmundsdóttur, Aleksandra Kozimala, Adam J. Switala og Natalia Duarte Jeremías. Hugmyndin snýr að því að hanna umgjörð um rafrænan söngvabanka, með textum, nótum, hljóðskrám og kennsluefni, sem yrði aðgengilegur fyrir breiðan hóp notenda fagfólks, foreldra og kennara.
  • Lengi býr að fyrstu gerð: Teymið er skipað þeim Kristínu Petrínu Pétursdóttur og Fannýju Kristínu H. Maríudóttur. Hugmynd þeirra byggir á því að hanna skólamatseðla með næringarríkum mat, elduðum frá grunni, sem ætlaðir eru til að kynna börn fyrir ólíku hráefni og draga úr matarsóun.
  • EcoDecom: Teymið er skipað þeim Jónasi Inga Ragnarssyni, Óla Sævari Ólafssyni og Partha Sarkar. Innan EcoDecom er hugmyndin að þróa búnað sem gerir niðurrif mannvirkja á rúmsjó hagkvæmara og umhverfisvænna.
  • Immigrant Inclusion: Að hugmyndinni stendur Magnea Marinósdóttir og snýr verkefnið að inngildingu fólks af erlendum uppruna með áherslu á borgaralega og lýðræðislega þátttöku.
  • GeoMerge: Teymið er skipað þeim Agata Rostran Largaespada, Ximena Guardia Muguruza og Guðjóni Helga Eggertssyni. Hugmyndin snýr að þróun nýstárlegra lausna fyrir stjórnun jarðhitageyma og tækni til að bæta afköst og sjálfbærni á jarðhitasvæðum.

Næsta vinnustofa fer svo fram á Norðurlandi og fer þá hópurinn á Hönnunarþing á Húsavík.

Nýsköpun eflir sjálfbærni og sjálfstraust

Að taka þátt í nýsköpunarverkefnum á borð við Snjallræði er ekki aðeins til þess fallið að þróa nýjar hugmyndir og skapa verðmæti – það er einnig leið til að byggja upp sjálfstraust, efla þekkingu og styrkja einstaklinga sem og samfélagið allt. Í slíku umhverfi skapast tækifæri til að læra, þróast og leggja sitt af mörkum til sjálfbærrar framtíðar.

Í því samhengi má rifja upp orð Sigrúnar Emilíu þegar hún var tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands í janúar síðastliðnum. Þar kemur Sigrún inn á það hvernig nýsköpun getur eflt sjálfbærni og sjálfstraust, með því að leggja sitt af mörkum í slíku umhverfi vinna allir – hvort sem það er í formi persónulegrar reynslu, aukinnar þekkingar eða samfélagslegrar ábyrgðar.

Sigrún Emilía til vinstri við Höllu Tómasdóttur, forseta ÍslandsSigrún Emilía til vinstri við Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands

Alla leið!

Guðrún Heimisdóttir, stúdent í sálfræði við HA, tók þátt í Snjallræði í fyrra með hugmyndina Hvað nú? sem leiddi til þátttöku í Gullegginu, þar sem hún hreppti annað sæti.

Guðrún og Erna á sviði í Gullegginu
Guðrún og Erna á sviði í Gullegginu

„Ég hvet fólk til að láta sig dreyma því það er svo frábært að fá hugmynd, hvaðan sem hún er sprottin, og finna að víðs vegar er stuðningur og fólk sem vill aðstoða við að koma henni áfram. Ég kann að meta fræðilegu aðstoðina úr náminu hér við HA og stuðninginn þar hvað varðar nýsköpun. Þá er hvatningin sem fylgir þátttöku í hröðlum og keppnum í nýsköpunarumhverfinu ómetanleg og möguleikar á styrkjum í nýsköpun á Íslandi eiga sér varla fordæmi annars staðar í heiminum. Við erum frumkvöðlar í eðli okkar á Íslandi og tækifærin eru ótal mörg, við þurfum bara að leyfa huganum að reika og láta vaða,“ segir Guðrún.

Nýr kafli hjá Snjallræði

Sjallræði hefur reynst öflugur vettvangur fyrir stórhuga nýsköpun og sprotahönnun síðan 2018. Nýr kafli hófst hjá Snjallræði í ágúst þegar undirrituð var viljayfirlýsing sem markar nýtt og formlegra samstarf Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík um verkefnastjórn hraðalsins