Í næstu viku koma saman á Sikiley leiðandi einstaklingar úr fræðasamfélaginu, sálgreiningunni, réttarkerfinu og stjórnmálunum og ræða um mannlega hamingju í samtímanum.
Samkoman sem ber yfirskriftina „Atlante del Futoro“, eða Kort framtíðarinnar, verður á Bourbon safninu í Salita Teatro í Palazzo Adriano á Ítalíu þann 16. og 17. ágúst báða dagana milli 16:00 og 20:30.
Þrennt fræðafólk frá háskólanum tekur þátt en það eru Giorgio Baruchello, prófessor við Félagsvísindadeild, Rachael Lorna Johnstone, prófessor við Lagadeild, og Magnús Smári Smárason, verkefnastjóri gervigreindar.
Magnús Smári varpar fram sjónarhorni sem hefur mótast á tveimur áratugum í starfi viðbragðsaðilans og siðferðisdrifinni notkun gervigreindar. Í erindinu fjallar hann um hvernig áskorunin felst ekki í því að keppa við vélarnar, heldur í því að dýpka mennsku okkar og finna okkar raunverulegu verðmæti við hlið þeirra.
Giorgio mun fjalla um hvernig húmor stuðlar að og jafnframt hindrar hamingju mannsins ásamt því að vera með erindi um bókina „Burloni animati in libera uscita“ með samrithöfundinum Roberto Buccola. Rachael talar um stöðu Grænlands samkvæmt alþjóðalögum og mikilvægi lýðræðislegrar sjálfsreglu fyrir hamingju manna.
Þá er gaman að segja frá því að á viðburðinum er stefnt að stofnun nýs menningarfélags. Bæjarstjórinn af Palermó, Leoluca Orlando, verður heiðursgestur og húsnæðið var aðalsviðið fyrir frægu kvikmyndina Cinema Paradiso eftir Giuseppe Tornatore.
Það er menningarfélagið Immaginazione Attiva sem skipuleggur viðburðinn og er hann styrktur af Nordicum-Mediterraneum sem er íslenskt veflægt tímarit og er að hluta til ritstýrt af starfsfólki háskólans.