Hvað stýrir bólusetningarhegðun?

Skýrt misræmi í bólusetningarhegðun innflytjenda og Íslendinga á tímum COVID-19
Hvað stýrir bólusetningarhegðun?

Í nýrri grein í Læknablaðinu má lesa greiningu á hluta niðurstaðna rannsóknarinnar „Heilsa og líðan á Íslandi.“ Markus Meckl og Birgir Guðmundsson, prófessorar við Félagsvísindadeild háskólans, ásamt Kjartani Ólafssyni sérfræðingi og Stephanie Barillé verkefnastjóra stóðu að greiningunni. Rannsóknin sem greiningin byggir á var framkvæmd árið 2022 af Embætti landslæknis.

Greiningin leiðir í ljós að verulegur munur var á þátttöku í COVID-19 bólusetningum eftir uppruna — sérstaklega meðal innflytjenda frá Mið- og Austur-Evrópu. Til innflytjenda teljast þau sem fædd eru utan Íslands og eiga jafnframt foreldra sem fædd eru erlendis.

Fram til þessa hefur lítið verið vitað um hvernig bólusetningarhegðun innflytjenda hér á landi samanborið við hegðun innfæddra. Með þessari greiningu er verið að kortleggja þá mynd með greiningu á gögnum úr fimmtu lotu ofangreindrar rannsóknar.

Mikið lægri þátttaka ákveðinna hópa

Þegar þátttakandi var spurður um hvort viðkomandi hefði fengið þrjá skammta af bóluefni, í samræmi við ráðleggingar sóttvarnayfirvalda, kom í ljós að einungis 32% pólskra innflytjenda og 43% annarra frá Mið- og Austur-Evrópu höfðu þegið alla skammtana. Til samanburðar höfðu 73% innfæddra Íslendinga gert slíkt hið sama.

Mikilvægt er að skilja af hverju það er og leiddi greiningin margt í ljós. Til dæmis eru einstaklingar af erlendum uppruna í öllum tilvikum ólíklegri en þeir sem eru af íslenskum uppruna til að hafa þegið þrjá skammta af bóluefni ef undan eru skildir þátttakendur frá Norðurlöndunum.

Þá er hægt að sjá að líkur aukast á að aðili þiggi bólusetningu samhliða trausti á Embætti landlæknis. Skoðað var hvort almennt traust til mikilvægra stofnana samfélagsins hefði áhrif, svo sem fjölmiðla og heilbrigðiskerfisins í heild, en ofangreint embætti var það eina sem hafði áhrif í þessum flokki.

Einnig var hægt að sjá að efnahagur viðkomandi hafði áhrif, þau sem eiga erfitt með að ná endum saman eru ólíklegri til að þiggja bólusetningu. Samfélagsvirkni virðist einnig hafa áhrif, þannig mátti sjá að þau sem kusu síðast í þingkosningum voru líklegri til að láta bólusetja sig.

Rannsóknin dregur þannig fram mikilvægi menningarlegs samhengis. Innflytjendur koma gjarnan frá ríkjum þar sem traust til heilbrigðisyfirvalda og bólusetninga er lítið. Þetta hefur áhrif á upplifun þeirra hér og viðhorf til opinberrar heilbrigðisþjónustu.

Frekari rannsókna þörf

Ýmislegt mætti rannsaka betur, til dæmis var ekki spurt beint út í bólusetningarhegðun né hvort mismunandi tegundir bóluefnis hefðu áhrif, sem vert væri að skoða frekar. Þá er úrtakið samsett sem getur boðið upp á ákveðna skekkju.

Að því öllu sögðu er skýrt að munur er á þátttöku fólks eftir uppruna þegar kemur að því að þiggja bólusetningu. Þörf er á að rannsaka þetta frekar þar sem talsvert var lagt í að tryggja aðgengi allra að bólusetningum. Upplýsingar voru þýddar gagngert til að ná til innflytjenda og ætla má að upplýsingastreymi, til dæmis til pólskra innflytjenda, hafi þó að einhverju leyti heppnast. Gögnin sýna að 19% þeirra létu aldrei bólusetja sig en eldri gögn benda til þess að þetta hlutfall sé talsvert hærra í upprunalandi.

Sértækar og markvissar aðgerðir eru nauðsynlegar til að efla traust og bæta samskipti við tiltekna innflytjendahópa, sérstaklega þá sem hafa sögulega vantreyst yfirvöldum. Því verður ekki aðeins náð fram með betra upplýsingaflæði, heldur einnig með aukinni samfélagslegri þátttöku og tengslamyndun. Partur af því að ná því fram er að kortleggja og skilja bólusetningarhegðun sem er ekki bara lykillinn að farsælli sóttvörnum heldur líka að sterkara og heilsusamlegra samfélagi.