Háskólinn á Akureyri samþykkir fyrstur íslenskra háskóla heildstæða stefnu um ábyrga notkun gervigreindar
„Háskólinn á Akureyri er leiðandi stofnun í notkun tækni við kennslu, og gervigreindin er hluti af því markmiði. Við erum stolt af því að vera komin með stefnu sem styður við þessi markmið og vera fyrsti íslenski háskólinn sem gerir slíkt. Í stefnu háskólans til ársins 2030 er skýrt kveðið á um að vilja nýta framfarir í tækni og gervigreind til þess að vera leiðandi í að skapa eftirsóknarvert umhverfi til náms og starfa og er þetta eitt af mörgum skrefum í þá átt.“
Þetta segir Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor háskólans, en nú í lok október samþykkti Háskólaráð leiðbeinandi stefnu um ábyrga notkun gervigreindar við Háskólann á Akureyri.
„Þessi stefna er ekki svar, heldur áttaviti“
Stefnan felur í sér að háskólinn viðurkenni að gervigreind sé og verði órjúfanlegur þáttur í námi, kennslu, rannsóknum og stjórnsýslu til framtíðar. Háskólinn vilji nýta þau tækifæri sem felast í tækninni til að efla gæði í öllum ofangreindum málaflokkum án þess að það gangi gegn grundvallargildum háskólasamfélagsins.
Magnús Smári Smárason, verkefnastjóri gervigreindar hjá háskólanum, hefur leitt vinnuna sem hann segir hafa verið í góðu samstarfi við stúdenta, kennara og annað starfsfólk. „Þessi stefna er ekki svar, heldur áttaviti. Hún er ekki hönnuð til að leysa allar áskoranir, heldur til að skapa öruggan ramma fyrir nýsköpun og tilraunir. Markmið okkar er ekki að stjórna tækninni, heldur að rækta dómgreindina til að nota hana á ábyrgan hátt. Við vitum að besta stefnan verður til í samspili við raunveruleikann og þetta er fyrsta skrefið í vegferð sem krefst bæði hugrekkis og stöðugrar endurskoðunar.“
„Efling á þeim gildum sem við stöndum fyrir“
Háskólinn á Akureyri hefur í mörg ár verið leiðandi hvað varðar fjarnám og lagt þunga í að byggja upp tækniþekkingu samþættaða kennsluráðgjöf. Þetta er áhersla svo að samfélagið innanhúss sé ávallt í stakk búið til að takast á við hraða þróun tækninnar.
„Háskólinn á Akureyri hefur lengi verið í fararbroddi í nýtingu tækni til að auka aðgengi að menntun um allt land. Þessi stefna er rökrétt framhald þeirrar vegferðar. Við erum ekki að elta tæknina, heldur erum við að samþætta hana inn í þá mannúðlegu og persónulegu nálgun sem hefur alltaf verið okkar helsti styrkur. Þetta er ekki tæknibylting, þetta er efling á þeim gildum sem við stöndum fyrir,“ segir Auðbjörg Björnsdóttir, forstöðumaður kennslu- og upplýsingatæknimiðstöðvar.
Að innleiða stefnuna er hluti þeirra verkefna sem í gangi eru hjá háskólanum hvað varðar gervigreind og tækni. Meðal þess sem einnig farið er af stað er tilraunaverkefni um nýtingu gervigreindar innan háskólans þar sem árangur verður metinn á næsta ári og það, ásamt fleiri verkefnum, mun leiða til þess að háskólinn haldi áfram að bjóða nám í takt við nútímann.
Stefnuna má nálgast hér.