Nemendaráðgjöf háskólans fékk núna í október góða heimsókn. Augustine Berthelsen, sem alla jafna er kölluð Aggu, er nemendaráðgjafi við Ilisimatusarfik háskóla í Nuuk og kom í heimsókn til að kynnast starfsemi háskólans og þá sérstaklega námsráðgjafar.
Fagleg þekkingaryfirfærsla
Heimsóknin var vikulöng og dagskráin var þétt flesta daga þar sem Aggu hitti fyrir starfsfólk og stúdenta háskólans.
Augustine hitti meðal annars Áslaugu Ásgeirsdóttur rektor, Vöku Óttarsdóttur gæða- og mannauðsstjóra, Silju Rún Friðriksdóttur verkefnastjóra námssamfélags og Helenu Sigurðardóttur fulltrúa Kennslu- og tæknimiðstöðvar HA.

Heimsókn í Jólahúsið og að Goðafossi
Þá kynnti Rúnar Gunnarsson, forstöðumaður Miðstöðvar alþjóðasamskipta, Erasmus möguleika og þjónustu við skiptinema og mynduðust góðar umræður þar sem töluverður fjöldi stúdenta frá háskólanum dvelur í Nuuk á hverju misseri sem og stúdentar frá Ilisimatusarfik sem dveljast erlendis yfir misseri. Einnig fengum við góða kynningu frá Söru Stefánsdóttur um nýtt nám stúdenta sem eru með þroskahömlun sem var í fyrsta skipti innritað í núna í haust. Að lokum hitti Aggu þær Astrid Margréti og Piu Susanna á Bókasafninu og fékk góða kynningu á þjónustu við stúdenta, kennara og annað starfsfólk HA.
Tækfæri til að kynnast svæðinu
Við vorum ekki eingöngu á háskólasvæðinu heldur var ekið um bæinn, boðið upp á lambalæri í heimahúsi og áður en flogið var frá Akureyri á laugardag var hægt að skjótast í Jólahúsið og keyra styttri sveitahringinn. Síðasti dagur vikuheimsóknarinnar var einnig nýttur í ánægjulega heimsókn um nærsvæðið til Húsavíkur, með viðkomu á Laugum og framhaldsskólinn þar skoðaður í kjölinn.

Náhvalstönnin sem nemendaráðgjöf fékk að gjöf
Ekki má gleyma því að Augustine kom með gjöf sem er 20 cm löng augntönn úr náhval en Aggu er frá Norður-Grænlandi, Saattut, sem er um það bil 2300 km norður af Nuuk. Faðir hennar og eiginmaður eru einmitt á veiðum þessa dagana en náhvalurinn kemur í ætisleit nærri landi á hennar heimaslóðum. Tönnin er til sýnis á skrifstofunni hjá Örnu Garðarsdóttur hjá Nemendaráðgjöf.
Augustine var einstaklega ánægð með heimsóknina og fékk endalausar hugmyndir og sagði ítrekað „við eigum svo margt ógert heima“. Við ræddum meira en háskóla, til dæmis hvernig hinir og þessir hlutir virka, framgang kvenna gegnum árin, heimilisofbeldi og margt fleira.
Við í Nemendaráðgjöfinni þökkum þeim sem voru tilbúin að veita okkur lið og gera heimsókn kærkomins gests fróðlega og áhugaverða.