Málefni norðurslóða á Íslandi með áherslu á aðlögun að loftlagsbreytingum var efniviður vinnustofu sem fór fram í lok maí síðastliðnum. Markmið vinnustofunnar var að efla samráð og samtal í umhverfi rannsókna hvað þetta varðar.
Á vinnustofunni komu saman á sjöunda tug fulltrúa frá öllum háskólum landsins og lykilstofnunum á borð við Veðurstofu Íslands, Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Þar var rætt hvernig rannsóknarsamfélagið getur brugðist við þeim áskorunum og tækifærum sem loftslagsbreytingar skapa og hvernig hægt sé að styrkja þekkingu og rannsóknir á þessu sviði.
Markmið og framtíðarsýn

Vinnustofan er sú fyrsta af fjórum sem verða haldnar og er samstarf Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Norðurslóðanets Íslands, Rannís og Loftlagsráðs. Vinnustofan markar upphaf nýs samstarfsverkefnis: Norðurslóðarannsóknir á Íslandi sem styrkt er af samstarfssjóði háskóla á vegum Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins.
Verkefninu er ætlað að skapa opinn vettvang fyrir samtal um helstu þekkingargöt, rannsóknargetu og möguleika til framtíðar. Með því er lagður grunnur að öflugu samstarfi milli fræðasamfélagsins og stofnana sem gegna lykilhlutverki í umhverfis- og loftslagsmálum.
Næsta vinnustofa verður haldin á Akureyri í haust og verður þema hennar og dagskrá kynnt á næstunni. Vefsíða verkefnisins verður einnig uppfærð reglulega með upplýsingum um næstu skref. Hana má finna hér.