Dr. Luca Aceto tekur við formennsku í doktorsnámsráði Háskólans á Akureyri þann 1. júlí 2025
Luca Aceto lauk doktorsnámi í tölvunarfræði frá University of Sussex árið 1991. Hann starfaði til margra ára sem prófessor við háskólann í Álaborg við fræðilega tölvunarfræði og stærðfræði. Hann gegnir nú stöðu prófessors við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík (HR). Á árunum 2019-2023 gegndi Luca stöðu deildarforseta við deildina. Í dag stýrir hann einnig doktorsnámi við Tölvunarfræðideild HR og í tíð hans hjá HR hefur doktorsnám við deildina vaxið og dafnað.
Luca hefur sinnt fjölbreyttum kennslu-, rannsóknar- og stjórnunarverkefnum innan háskólasamfélagsins. Hann var forseti Evrópusamtaka um fræðilega tölvunarfræði (EATCS) á árunum 2012–2016 og var nýverið útnefndur heiðursmeðlimur samtakanna fyrir framlag sitt til rannsókna á samtímakenningum og fyrir að efla samráðsvettvang fræðafólks á sviðinu. Slík útnefning er veitt vísindafólki sem hefur skarað fram úr á alþjóðavettvangi. Luca hefur jafnframt ritstýrt tímaritum ásamt því að hafa hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir fræðistörf.
Mikilvægt hlutverk í íslensku vísindasamfélagi
„Háskólinn á Akureyri hefur byggt upp öfluga umgjörð um doktorsnám en Stefán B. Sigurðsson, fyrrum rektor skólans, hefur leitt þá vinnu af mikilli alúð. Það er mikill akkur fyrir háskólann að Luca hafi samþykkt að leiða doktorsnámsráð skólans. Hann er virtur fræðimaður, þekkir íslenskt háskólaumhverfi vel og hefur mikla reynslu af uppbyggingu doktorsnáms hjá HR.“ segir Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor HA.
Síðan Luca hóf störf á Íslandi árið 2004 hefur hann tekið virkan þátt í að byggja upp sterka rannsóknarmenningu í fræðilegri tölvunarfræði, meðal annars sem stofnmeðlimur og síðar forstöðumaður Þekkingarseturs í fræðilegri tölvunarfræði (ICE-TCS) við Háskólann í Reykjavík. Hann hefur leiðbeint fjölda meistara- og doktorsnema og hlaut rannsóknarverðlaun Háskólans í Reykjavík árið 2012.
Hlutverk doktorsnámsráðs
Doktorsnámsráð Háskólans á Akureyri hefur yfirumsjón með doktorsnáminu við skólann. Ráðið ber ábyrgð á að tryggja gæði námsins, fylgjast með framkvæmd þess og sjá til þess að viðmið og gæðakröfur séu uppfylltar. Þá þjónar ráðið sem vettvangur fyrir samráð og stefnumótun í málefnum doktorsnámsins.
Með skipan Luca Aceto sem formanns doktorsnámsráðs er ljóst að doktorsnámið við Háskólann á Akureyri mun njóta leiðsagnar einstaklega reynds fræðimanns sem hefur bæði alþjóðlega sýn og góða þekkingu á íslensku háskólasamfélagi.
Stefán B. Sigurðsson, prófessor emeritus við Háskólann á Akureyri og fyrrum rektor, hefur leitt doktorsnámsráðið til margra ára og gegnt mikilvægu hlutverki í því allt frá stofnun þess. Við þökkum Stefáni fyrir hans framlag við uppbyggingu doktorsnámsins og styrka formennsku í doktorsnámsráði.