Nýsköpun, samvinna og norðlenskur kraftur

Háskólinn á Akureyri á Iceland Innovation Week
Svava í hlutverki sínu á hugmyndahraðhlaupi Krubbs á Húsavík
Svava í hlutverki sínu á hugmyndahraðhlaupi Krubbs á Húsavík

Nýsköpunarvikan fer fram dagana 12.–16. maí og leiðir saman frumkvöðla, hugvitsfólk og nýsköpunarsamfélagið allt til að deila hugmyndum, hvetja til samvinnu og varpa ljósi á það kraftmikla vistkerfi sem er til á Íslandi. Meðal þátttakenda er Háskólinn á Akureyri sem sameinar krafta sína með Drift EA og mætir suður sem sendinefnd að norðan, með norðlenska frumkvöðla í farteskinu.

„Nýsköpunarvikan er vettvangur þar sem fólk úr ólíkum greinum, frá tækni og hönnun til menntunar og samfélagslegra verkefna, kemur saman og deilir hugmyndum, reynslu og framtíðarsýn,“ segir Svava Björk Ólafsdóttir, verkefnastjóri nýsköpunar og frumkvöðla við Háskólann á Akureyri.

„Fyrir mér er þetta tími sem við fáum til að staldra við, fagna þeirri frábæru braut sem við erum á í nýsköpunarmálum á Íslandi og ekki síst fá innblástur frá innlendum og erlendum brautryðjendum um vegferðina fram á við.“

Samstarf milli háskóla og atvinnulífs lykillinn að árangri

Þátttaka Háskólans á Akureyri í hátíðinni er liður í markvissri vinnu við að efla tengsl háskóla, nemenda og atvinnulífsins í nýsköpunarmálum. Í samstarfi við Drift EA mun hópurinn sækja fjölbreytta viðburði og taka virkan þátt í dagskrá vikunnar.

„Við munum meðal annars vera með frumkvöðla úr Hlunninum í Drift EA með okkur og styðja við að þeir fái sviðsljós til að kynna sín verkefni,“ segir Svava. Sjálf mun hún sitja í pallborði fyrir hönd HA á viðburðinum The Scipreneur Sessions, vera dómari í Fermented Shark Tank pitch-keppninni og sækja 25 ára afmælishátíð KLAK. Drift EA mun einnig halda utan um viðburðinn Darts & Deals í samstarfi við m.a. IceBAN og Kríu.

„..það þarf heilt samfélag til.“

Svava hóf störf við HA í janúar og hefur þegar fundið fyrir miklum meðbyr og áhuga. „Það er ótrúlegt hvað tíminn flýgur – mér finnst ég hafa byrjað í gær,“ segir hún og bætir við:

„Það sem hefur staðið upp úr eru viðtökurnar hér fyrir norðan. Starfsfólk og stúdentar HA hafa tekið mér opnum örmum og stutt mig á þessari nýju vegferð háskólans í nýsköpunarmálum. Sömuleiðis hefur teymið og frumkvöðlarnir í Drift EA tekið ótrúlega vel á móti mér og þar fæ ég svo sannarlega innblástur til góðra verka fyrir allan peninginn. Ég held að samstarfið við Drift EA spili stóran þátt í að ná að byggja brú milli háskólans og atvinnulífsins,” segir Svava. „Það stendur engin ein manneskja í nýsköpun, það þarf heilt samfélag til.“

Hvetjandi vistkerfi nýsköpunar á heimaslóðum

Í því samhengi og samfélagi er margt framundan, segir Svava. Háskólinn mun bjóða upp á Nýsköpunarkaffi í maí og júní og tekur þátt í Leitinni að Norðansprotanum, nýsköpunarkeppni sem verður núna seinna í maí. Þá er Lausnamót í heilbrigðismálum í lok maí, Slipptakan í Drift EA verður í júní og í haust verður Snjallræði haldið sem er háskólahraðall. Háskólinn er í samvinnu við margt af þessu og hægt er að finna allar upplýsingar á Facebook síðu skólans.

Svava leggur áherslu á mikilvægi þess að skapa öflugt og hvetjandi vistkerfi nýsköpunar hér á heimaslóðum sem styður við nýjar hugmyndir og lausnir sem bæta lífsgæði og auka verðmætasköpun og atvinnutækifæri. „Ég minni svo á að heyra í mér ef einhver vill ræða hugmyndir eða nýsköpunarverkefni – við erum alltaf opin fyrir samtali,“ segir Svava að lokum.