Ómetanleg tengslamyndun og baráttuandi á kvennanefndarfundi SÞ

Fulltrúar jafnréttisráðs HA sóttu 68. þing Kvennanefndarfundar Sameinuðu þjóðanna sem er stærsta árlega samkoma SÞ um jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna
Ómetanleg tengslamyndun og baráttuandi á kvennanefndarfundi SÞ

„Þörfin á að fjárfesta mun meira og betur í gögnum um konur“ er eitt af því sem stendur upp úr hjá Sæunni Gísladóttur, sérfræðingi RHA og starfskrafti jafnréttisráðs Háskólans á Akureyri. Hún og Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor við félagsvísindadeild og formaður jafnréttisráðs, sóttu þingið nú um miðjan mars sem stóð í tvær vikur. Í ár var lögð áhersla á að flýta fyrir því að jafnrétti kynjanna náist sem og valdefling kvenna og stúlkna með því að taka á fátækt, efla stofnanir og fjárfestingar með kynjasjónarmið að leiðarljósi.


Berglind og Sæunn hressar á leið á fund. Tjaldurinn var með í för og tók þátt í fundum. 

Hvar stendur Ísland í rauninni?

„Mikill áhugi var á Íslandi sem leiðtoga í jafnréttismálum en eins og Drífa Snædal, talskona Stígamóta, benti á á viðburði um kvennaverkfallið er Ísland þó einungis efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir jafnrétti kynjanna vegna þess hve lengi við höfðum kvenforseta eða kvenforsætisráðherra. Við erum aftar en aðrar þjóðir varðandi aðra hluti. Því var mjög gagnlegt að heyra sjónarhorn annarra landa, sér í lagi Norðurlandanna, um hvað við getum bætt og breytt.“ segir Sæunn aðspurð um hvað henni fannst gagnlegast við að sitja fundinn.

„Að fá að sækja ótrúlega fjölbreytta fundi hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem var verið að taka á ólíkum málefnum eins og stöðu kvenna og stúlkna í stríðshrjáðum löndum, ólaunaðri vinnu kvenna, kynbundnu ofbeldi og gagnasöfnun með tilliti til kyns.“ Nefnir Berglind í þessu samhengi „Það sem var kannski sérlega gagnlegt er að almennt voru þeir fundir sem við sátum þannig að áhersla var á að finna lausnir. Fulltrúar frá aðildarríkjunum deildu sinni reynslu og fóru yfir það hvaða aðferðir í jafnréttisbaráttunni eru að virka vel hjá þeim og hvaða aðferðir eru að skila litlum árangri.“

Bæði Sæunn og Berglind segja það hafa verið frábært tækifæri að kynnast öðrum í sendinefndinni, mynda þannig tengsl við lykilaðila sem vinna í fjölbreyttum störfum á grundvelli kynjajafnréttis og kynnast betur mörgu af því fólki sem er helst að berjast fyrir jöfnuði hér heima.


Sendinefndin í New York

Ólaunuð vinna kvenna rót vandans

„Opnunarræða Antonio Gutierres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, setti tóninn fyrir þingið og þar var ekkert dregið undan. Hann var mjög skýr í þeirri afstöðu sinni að þingið ætti að álykta um það bakslag sem hefur orðið í réttindum kvenna víða um heim og mikilvægi þess að ríkisstjórnir fjárfesti í konum og stúlkum.“ segir Berglind aðspurð um hvað hafi verið áhugaverðast þó að erfitt sé að greina það nákvæmlega þar sem um svo marga viðburði var að ræða og erfitt að velja hvað ætti að sækja. „Eitt af því sem mér fannst kannski sérlega áhugavert var að á flestum þeim fundum sem ég sótti fór umræðan í þá átt að ræða ólaunaða vinnu kvenna. Það var sama hvort fundurinn snerist um kynbundið ofbeldi eða stöðu kvenna á vinnumarkaði, en þá er rót vandans svo oft þessi ólaunaða vinna sem konur sinna og vöntun á fjárhagslegu sjálfstæði. Þetta kom fram jafnt í löndum sem eru komin mjög langt á veg þegar kemur að jafnrétti kynjanna sem og í löndum sem eru komin skemur. Í rannsóknum mínum hef ég verið að skoða fjárhagslegt sjálfstæði kvenna og áhrif ólaunaðrar vinnu þar á og þess vegna kannski hjó ég sérstaklega eftir þessu.“

Sæunn tekur í sama streng og Berglind með opnunarræðuna og að það hafi verið magnað að komast á slíkan fund, skilja hvernig hann virkar og hvert markmiðið er.

„Viðburðurinn Breaking Chains: Women’s quest for life in Gaza var hins vegar ógleymanlegur, átökin fyrir botni Miðjarðarhafsins voru á allra vörum á fundinum og að hlusta á ráðherra frá Palestínu fara yfir þessi hrikalegu áhrif átaka á líf kvenna var sláandi. Man lærði eitthvað alla daga á fundunum sem hvatti man áfram að berjast fyrir kynjajafnrétti.“

Þær koma báðar tvær til baka uppfullar af hugmyndum og andagift fyrir jafnréttisráð HA sem vinnur að því þessa dagana að uppfæra jafnréttisáætlun skólans ásamt mörgum öðrum verkefnum sem lúta að málaflokknum.


Tjaldurinn í góðra vina hópi, Sæunn, Berglind og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisráðherra. Hann er einnig listfengur og heimsótti þetta þekkta listaverk - Non- violence