Ársfundur HA fyrir starfsárið 2024 fór fram 14. maí
Ársfundur Háskólans á Akureyri fyrir starfsárið 2024 fór fram 14. maí síðastliðinn. Þar fór fram hefðbundin dagskrá þar sem farið var yfir ársreikning háskólans og rýnt í starfsárið.
Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra ávarpaði gesti. Hann ræddi talsvert stöðu háskóla á landsbyggðunum og hér er gripið niður í hans ræðu, „við vitum auðvitað öll að öflugir háskólar eru burðarstoð samfélagsins en sérstaklega á landsbyggðinni þar sem þeir gegna líka margvíslegu hlutverki. Háskólinn á Akureyri er ekki einungis menntastofnun, hann er atvinnuskapandi, hann dregur fjölskyldur að sér, hann skapar líf og nýsköpun og hann tengir sérþekkingu við daglegt líf fólks á svæðinu. Hann gerir líka landsbyggðina að raunverulegum valkosti fyrir fólk og fyrirtæki“.
Háskólinn dregur að fólk
Þá fór Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor, yfir nokkrar staðreyndir um stöðu skólans og ræddi meðal annars hvort það skipti máli hvar skóli er staðsettur ef aðallega er í boði fjarnám,
HA veitir fasta vinnu fyrir um 280 einstaklinga, sem langflestir búa á Akureyri og nágrenni þess. Einnig eru fjöldi fólks í hlutastörfum og háskólinn þannig einn stærsti vinnustaður á landsbyggðinni. Staðreyndin er sú Akureyringar sem útskrifast frá skólanum eru fimm sinnum líklegri til að búa áfram á staðnum en önnur sem útskrifast frá öðrum háskólanum. Þá sýna rannsóknir að um helmingur stúdenta sem flytja til Akureyrar til að stunda nám við HA búa þar enn fimm árum eftir útskrift.
Örkynningar frá rannsakendum hafa einnig fest sig í sessi á ársfundi og í ár kynnti Finnur Friðriksson, dósent við Kennaradeild, rannsókn sína á svæðisbundnum framburði, viðhorfi og málbreytingum í rauntíma. Þar kom fram að harðmælgin lifir betra lífi en raddaður framburður.
Starfsfólk heiðrað
Í lok ársfundar heiðraði rektor starfsfólk við starfslok með gullmerki háskólans. Eftirfarandi voru heiðruð á staðnum og meðfylgjandi er umfjöllun um þeirra störf:

Anna Ólafsdóttir
Anna Ólafsdóttir hefur átt farsælan feril við Háskólann á Akureyri og verið mikilvæg í teymi skólans. Hún hóf störf 1. ágúst árið 2000 sem verkefnastjóri fjarkennslu og færðist síðar í sama hlutverki til nýstofnaðrar Gagnasmiðju HA sem er forveri núverandi Kennslu- og upplýsingatæknimiðstöðvar. Frá árinu 2004 hefur hún kennt við Kennaradeild og gegnt þar fjölbreyttum störfum sem aðjúnkt, lektor og dósent.
Anna er menntaður kennari frá Kennaraháskóla Íslands, með meistarapróf í menntavísindum frá sama skóla og hún lauk doktorsnámi í menntavísindum við Háskóla Íslands árið 2014. Hún hefur lagt ríka áherslu á fagmennsku og þróun innan háskólastarfsins, bæði í kennslu og rannsóknum.
Kennsla hennar hefur einkum snúist um nám og kennslu og upplýsingatækni í skólastarfi. Rannsóknir hennar hafa meðal annars beinst að námi og kennslu á háskólastigi, stöðu og hlutverki háskóla í samfélaginu og gæðamálum háskóla.
Anna hefur verið í leiðandi hlutverki innan Kennaradeildar. Hún stýrði m.a. þróun nýs áherslusviðs í meistaranámi með áherslu á upplýsingatækni í skólastarfi og leitaði þar m.a. til samstarfsfólks og stúdenta sem hún virkjaði af miklum krafti. Sem formaður námsnefndar leiddi hún gagngera endurskoðun á námskrám deildarinnar árið 2015, bæði í grunn- og framhaldsnámi. Hún var einnig formaður Kennaradeildar árin 2017–2018 og tók þá við sem forseti Hug- og félagsvísindasviðs fram á sumar 2019.
Anna sat í fjölda nefnda, starfshópa og ráða meðan hún var við störf hjá skólanum. Stiklað á stóru voru það til dæmis hópar varðandi fjarkennslu á byrjunarárum 2001-2002, starfshóp um gæði kennslu árið 2007, starfshóp gæðaráðs um innleiðingu viðmiða um æðri menntun og prófgráður 2012 og starfshóp háskólaráðs um stöðu og framtíð Miðstöðvar skólaþróunar.
Í rannsóknum sínum hefur Anna nýtt fjölbreyttar aðferðir og lagt sitt af mörkum til fræðasamfélagsins með greinaskrifum og djúpri sýn á mikilvæga þætti menntunar. Hún hefur verið gagnrýninn fræðimaður, sem kafað hefur af dýpt ofan í sín viðfangsefni, hvort sem þau snúa að kennslu, rannsóknum eða stjórnun, og hefur reynst samstarfsfólki einstaklega góður samstarfsfélagi þegar kemur að þeim sviðum. Hún hefur verið Kennaradeild og Háskólanum á Akureyri sérlega góð fyrirmynd í starfi sínu.
Stefán Jóhannsson
Stefán hóf störf við Háskólann árið 1997, þar sem hann kom inn sem skrifstofustjóri í viðskiptadeild. Frá þeim tíma hefur hann verið órjúfanlegur hluti af stoðkerfi skólans. Hann er menntaður kennari með B.Ed próf frá Kennaraháskóla Íslands frá árinu 1980 og hefur leyfisbréf til kennslu frá 1987.
Eitt merkasta framlag Stefáns til Háskólans var hönnun, forritun og þróun nemendakerfisins Stefaníu, sem var í notkun frá um 1998 til 2012, þar til Uglan tók við. Hann gegndi lykilhlutverki í innleiðingu Uglunnar sem gerði yfirfærsluna í allan stað betri.
Stefán var skrifstofustjóri Viðskiptadeildar frá 1. maí 2000, síðar forstöðumaður kennslusviðs, og svo forstöðumaður nemendaskrár frá árinu 2012. Árið 2018 færðist hann í starf við Háskólaskrifstofu við gagnagreiningu og lykiltölur. Það hélt hann áfram að miðla af dýrmætri þekkingu sinni og reynslu. Hann hefur verið ómissandi hlekkur í verkefnum tengdum áætlunargerð, skipulagi og gæðamálum — allt unnið af yfirvegun, nákvæmni og með eindæma yfirvegun.
Auk þess að sinna fjölmörgum trúnaðarstörfum í nefndum og starfshópum innan háskólans — þar á meðal vefstjórn, gæðaráði, vinnumatsnefndum og samstarfsnefndum — hefur Stefán verið tengiliður við menntamálaráðuneytið í ýmsum mikilvægum málum. Hann tók meðal annars þátt í undirbúningi lykiltalna, rafrænni skjalastjórn, skipulagi námsmatsreglna og mörgum fleiri þáttum sem hafa styrkt innviði skólans.
En Stefán er ekki bara sterkur samstarfsfélagi, hann hefur alltaf tekið virkan þátt í félagslífi HA alltaf með bros á vör og til í flest allt. Hann var einn af stofnendum HA-bandsins, sem spilaði á nánast öllum helstu viðburðum skólans og skóp ógleymanlegar minningar. Hann samdi texta fyrir skemmtiatriði starfsfólks, spilaði á gítar við ófáar samverur og var alltaf tilbúinn að leggja sitt af mörkum — hvort sem það var í fyrirpartíi, eftirpartíi eða á sviðinu með bros á vör.
Við kveðjum Stefán með mikilli virðingu og þakklæti fyrir ómetanlegt framlag hans til Háskólans á Akureyri. Við óskum honum innilega velfarnaðar á nýjum kafla í lífinu — með von um að gítarinn haldi áfram að hljóma og brosið fylgi honum hvert sem hann fer.
Guðrún Arndís Jónsdóttir
Guðrún Arndís er menntuð frá Háskólanum á Bifröst, þar sem hún lauk BS gráðu árið 2002 og síðar MBA gráðu árið 2007. Hún hefur sýnt mikla fagmennsku og elju í gegnum allan sinn starfsferil, bæði innan háskólans og utan.
Guðrún hóf störf hjá Háskólanum á Akureyri þann 1. mars 2018 sem verkefnastjóri fagháskólanáms við viðskipta- og raunvísindasvið. Síðar sama ár, þann 1. september, tók hún við sem forstöðumaður Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri (SHA), og gegndi því hlutverki af einlægni og metnaði.
Á tímabilinu janúar til mars 2019 sinnti hún einnig mikilvægu hlutverki sem skrifstofustjóri Heilbrigðisvísindasviðs í hlutastarfi. Guðrún lauk störfum sem forstöðumaður SHA formlega þann 31. mars 2025. Hún kom þó aftur tímabundið í það hlutverk fram til 31. júlí sama ár, sem sýnir vel það traust sem var borið til hennar.
Guðrún hefur einnig lagt sitt af mörkum utan hefðbundins starfs, með þátttöku í fjölbreyttum verkefnum og nefndum. Árið 2019 fékk hún styrk úr Akureyrarsjóði til að stofna fyrirtæki sem hýsir einstakar neðansjávarmyndir og myndbönd eftir kafarann Erlend Bogason. Sama ár tók hún einnig þátt í vinnu á vegum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við endurskoðun á aflareglu fyrir þorskstofninn.
Eitt af hennar kærustu verkefnum er Sjávarútvegsskóli unga fólksins, sem hún stýrði af miklum dugnaði á árunum 2019 til 2024. Þar nýtti hún tengsl sín úr atvinnulífinu til að tryggja árlega fjármögnun og skapa dýrmætt tækifæri fyrir ungt fólk til að kynnast sjávarútvegi og tækifærum þar.
Við þökkum Guðrúnu Arndísi fyrir hennar óeigingjarna starf, hlýju nærveru og ómetanlegt framlag. Háskólinn á Akureyri og samstarfsfólk hennar eru ríkari fyrir að hafa fengið að njóta krafta hennar.
Aðalheiður Magnúsdóttir
Aðalheiður hefur gegnt lykilhlutverki í starfi Háskólans á Akureyri undanfarin ár — með fagmennsku, nákvæmni og ábyrgð að leiðarljósi.
Aðalheiður hóf störf við Háskólann þann í september 2018 og hefur síðan þá starfað sem aðallaunafulltrúi. Í því hlutverki hefur hún borið mikla ábyrgð á viðkvæmum og flóknum verkefnum tengdum launamálum starfsfólks — sem hún hefur sinnt af einurð, afburðasamviskusemi og yfirburða nákvæmni.
Hún er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og lauk námi árið 2007. Þá bætti hún við sig diplóma í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands árið 2011, sem styrkti enn frekar stoðir hennar sem sérfræðingur á sviði fjármála og opinberrar stjórnsýslu. Aðalheiður hefur verið ötul í að sækja sér frekari menntun á sínu sviði og einbeitt sér að þekkingu er varðar launagreiningu, flokkun starfa og hvernig það fléttast almennt við mál starfsfólks.
Fagmennska hennar var ekki aðeins bundin skrifborðinu — hún tók einnig þátt í stefnumótandi nefndarstörfum, meðal annars sem fulltrúi í samstarfsnefnd háskólans árið 2019.
Við þökkum Aðalheiði fyrir hennar mikilvæga framlag til Háskólans á Akureyri, fagmennsku og samviskusemi í öllum störfum. Háskólinn á Akureyri og samstarfsfólk hennar hafa notið góðs af framlagi hennar og góðrar aðstoðar í öllu er lýtur að launamálum og starfsfólki.
Háskólinn á Akureyri þakkar Önnu, Stefáni, Guðrún Arndísi og Aðalheiði fyrir ánægjulegt samstarf og þeirra mikilvæga þátt í uppbyggingu og eflingu háskólans. Með von um að nýr kafli reynist þeim ánægjulegur.
Þá var einnig heiðruð Sigríður Vilhjálmsdóttir því í ár fagnar hún 30 ára starfsafmæli við skólann.
Áfram heldur vinnan
Að ársfundi loknum var fagnað auknum heimildum til doktorsnáms í menntavísindum og sálfræði, sem skólinn hlaut fyrr á árinu.
Við þökkum öllum er mættu á ársfundinn í persónu og streymi og hlökkum til áframhaldandi samstarfs og samneytis á árinu sem er að líða og næstu árum.