Veganestið er greinaflokkur í boði Góðvina HA þar sem rætt er við brautskráða HA-inga
Guðmundur Gunnarsson, aðstoðarmaður atvinnuvegaráðherra, er viðmælandi janúarmánaðar
„Ég fæddist á Ísafirði árið 1976 og ólst upp í Bolungarvík og bjó þar fram til tvítugs. Eftir menntaskólaárin fyrir vestan flakkaði ég um heiminn í nokkur ár og bjó meðal annars í Hondúras og á Spáni. Svo flutti ég norður til Akureyrar árið 2001, meðal annars til að hefja nám í Háskólanum á Akureyri.“ Segir Guðmundur um upprunann.
Guðmundur byrjaði í námi við Kennaradeildina: „Ég skipti svo yfir á Félagsvísindadeild og fór þar í fjölmiðlafræðina um leið og námið bauðst árið 2003. Ég brautskráðist svo með BA gráðu í fjölmiðlafræði þremur árum síðar.“
Árið 2005 var Guðmundur ráðinn inn á fréttastofu RÚV á Akureyri þar sem hann var í afleysingum fyrsta árið með námi. „Eftir brautskráningu fór ég í fullt starf og flutti svo suður þegar mér bauðst starf á fréttastofu sjónvarps. Ég vann hjá RÚV í Efstaleitinu til ársins 2011, bæði sem fréttamaður og við dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi. Eftir það kláraði ég meistaranám í alþjóðaviðskiptum í Háskólanum í Reykjavík og hef síðan gert allskonar. Meðal annars hef ég stýrt alþjóðasviði 66°NORÐUR og verið bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Í dag vinn ég í atvinnuvegaráðuneytinu og er aðstoðarmaður Hönnu Katrínar Friðriksson, atvinnuvegaráðherra.
Umhverfið sniðið að þörfum landsbyggðartúttu
Guðmundur segir að hann eigi ekkert nema góðar minningar frá námsárunum fyrir norðan. „Þetta var dásamlegur tími. Námið var óheyrilega skemmtilegt og ég eignaðist marga af mínum bestu vinum í HA. Fyrir landsbyggðatúttu eins og mig var Háskólinn á Akureyri og allt umhverfið eins og sniðið að mínum þörfum. Enda þegar ég hugsa til baka þá koma mér í hug orðin metnaður og hlýja. “
Talandi um metnað segir Guðmundur okkur frá starfsfólki sem er honum minnisstætt. „Birgir Guðmundsson var auðvitað sá sem bar fjölmiðlafræðina á herðum sér fyrstu árin. Hann er ekki aðeins úrvalskennari heldur reyndist hann okkur nemendunum líka góður félagi. Námið var enn í mótun og við sem vorum þarna frá upphafi fengum að taka virkan þátt í þeirri vinnu. Það var mjög dýrmæt reynsla.“
Hann bætir við: „Fyrir utan öll námskeiðin hjá Bigga er mér í fersku minni námskeið sem ég sat hjá Sigurði Kristinssyni. Mig minnir að það hafi heitið vinnulag en það var einna helst rökfræðihlutinn sem höfðaði til mín. Mér fannst þetta allt svo brjálæðislega áhugavert og Siggi hreint einstakur kennari.“
„Svo verð ég að minnast á Sigrúnu Stefánsdóttur. Hún kenndi mér í HA og réði mig svo sem fréttamann á RÚV áður en ég kláraði námið. Frábær manneskja hún Sigrún og eiginlega óskiljanlegt hvað hún hafði mikla trú á mér. Ég á henni margt að þakka,“ bætir Guðmundur við.
Tapsár kennari í spilum gerði kennslustundir skemmtilegri
Við báðum Guðmund um skemmtilega sögu eða fyndið atvik frá HA-árunum og hann var fljótur til svars. „Á þessum fyrstu árum félagsvísindasviðs HA var talsvert um erlenda kennara. Allt alveg úrvals fólk. Einn þeirra, Markus Meckl frá Þýskalandi, varð mikill vinur okkar strákanna og tíður gestur á stúdentagörðunum þegar haldin voru spilakvöld. Markus er með eindæmum skemmtilegur maður og bráðgáfaður, en alveg afspyrnu lélegur í spilum. Ég held hann hafi ekki unnið eina einustu hönd í þrjú ár. Það var stundum svolítið þungt yfir honum í skólanum daginn eftir spilakvöld, sem gerði kennslustundirnar enn skemmtilegri.“
Guðmundur segir að fyrir utan orðin metnað og hlýju, eigi orðið partý við HA. Þessi samtvinnun geri skólann að góðu vali og hans heilræði til þeirra sem eru að skoða nám við HA er: „Bara láta vaða. Þetta nám opnar allskonar möguleika sem ómögulegt er að sjá fyrir.“
Við þökkum Guðmundi fyrir spjallið og óskum honum velfarnaðar í sínum störfum. Fyrir áhugasöm má finna fleiri Veganestisviðtöl á facebook síðu Góðvina.