Síðastliðið haust var sett á laggirnar staða verkefnastjóra námssamfélags hjá skólanum. Staðan er ný og er að fyrirmynd svipaðra starfa hjá erlendum háskólum.
„Eitt af því sem hefur verið svo gaman við starf rektors er hvað skólinn og samfélagið er tilbúið í að taka af skarið. Staða verkefnastjóra námssamfélags er ný af nálinni hér á landi og við sjáum að þörf er á slíkri stöðu. Við erum nú þegar með mikla þjónustu til að styðja við stúdenta víðsvegar í stoðþjónustunni, en við sáum tækifæri til að gera enn betur þegar kom að almennum leiðbeiningum hjá stofnuninni og styðja við nú þegar góð verkefni hjá SHA,“ segir Áslaug Ásgeirsdóttir um nýja stöðu verkefnastjóra.
Vinna með stúdentum lykilatriði
Verkefnastjóra hjá HA er ætlað að vinna þétt með Stúdentafélagi Háskóla Akureyrar (SHA) við að fylgja eftir verkefnum sem koma inn á þeirra borð. Stúdentaráð er alltaf virkt í verkefnum er lúta að hagsmunum og stúdentum og er verkefnastjóra námssamfélags ætlað að styðja þau í öllum verkefnum og þá sérstaklega þeim sem fylgja á milli kjörtímabila ráðsins. Starfsfólk skólans er þekkt fyrir persónulega þjónustu og stuðning sem vilji er til að verði áfram. Í ljósi mikillar fjölgunar stúdenta við skólann er ráðning verkefnastjóra ætluð að viðhalda því góða starfi og styrkja enn frekar.
Þá eru umbótaverkefni innanhúss sem lúta að stúdentum sem munu koma inn á borð þessa verkefnastjóra, svo sem að lista upp þau úrræði sem stúdentar hafa þegar kemur að samskiptum við stofnunina þegar kemur að formlegum erindum. Þá er í dag verkefni í gangi sem lýtur að rafrænu námsumhverfi og einnig uppbyggingu samskiptastefnu hvað varðar stúdenta og starfsfólk. Verkefnastjóri mun einnig vinna með stúdentum á viðburðum þar sem aðkoma þeirra er kjarni viðburðanna, Nýnemadagar, Opinn dagur og Háskóladagurinn svo dæmi sé tekið. Þar kynna stúdentar skólann og aðstoða við allt sem þarf.
Verkefnastjóri námssamfélags verður hluti af Markaðs- og kynningarmálum sem í dag sér um viðburði skólans og mun vinna þétt með því teymi sem fyrir er. Þá er verkefnastjóri lykilmanneskja í að miðla fréttum af stúdentum fyrir skólann í heild og vera tengiliður við öll stúdentafélögin.
Nýráðinn verkefnastjóri ættaður úr Skagafirði
Í byrjun júní var Silja Rún Friðriksdóttir ráðin sem verkefnastjóri námssamfélags. Hún var forseti SHA skólaárið 2024–2025, formaður Kynningarnefndar SHA 2023–2024 og varaforseti SHA 2022–2023. Hún sat í fulltrúaráði Landssamtaka íslenskra stúdenta í þrjú ár, tvö ár sem aðalfulltrúi SHA og eitt ár sem varafulltrúi og meðfram því sinnti hún almennri hagsmunagæslu stúdenta. Silja Rún er með BS-gráðu í sálfræði frá HA og er að klára fyrra árið í framhaldsnámi í menntunarfræðum við skólann. Með náminu vann hún sem stuðningsfulltrúi í Glerárskóla á unglingastigi.
„Ég brenn fyrir námssamfélaginu í HA og skólanum í heild. Ég hef varið síðustu árum í að læra vel á hvernig allt virkar og ég tel bæði menntun mína og reynslu getað skilað sér í þessu mikilvæga starfi. Það sem mér hefur þótt einkennandi á mínum árum í skólanum er hversu mikil samvinna er á milli starfsfólks og stúdenta og þótti mér gaman að leggja mitt af mörkum hvað það varðar. Starfið skarast líka við áhuga minn á andlegri líðan og öllu því tengdu,“ segir Silja Rún um starfið.
Silja hefur þó áhuga á mörgu fleiru og það má ósjaldan sjá hana á áhorfendapöllum þegar spilaður er fótbolti eða körfubolti og þá sérstaklega þegar Tindastóll er að keppa en hún ólst upp í Skagafirðinum. Þar ólst hún upp innan um kindur og hesta, sinnti sauðburði, göngum og öllu tilheyrandi. Á sumrin var hún svo með yfirumsjón yfir flokkstjórum í unglingavinnunni og hún vann einnig eitt ár sem persónulegur ráðgjafi hjá barnavernd.
Silja Rún er vel kunnug námsumhverfinu, með reynslu af verkefnastjórnun úr félagsstörfum og góðan grunn þegar kemur að samskiptum og samvinnu. Við bjóðum Silju Rún hjartanlega velkomna til starfa og hlökkum til að vinna að verkefnum með henni.