Fundur var haldinn fimmtudaginn 18. desember 2025 á Sólborg, Norðurborg, og í gegnum fjarfundarbúnað á Teams.
Áslaug Ásgeirsdóttir rektor setti fund kl. 13:32.
Mætt voru auk hennar:
Unnar Jónsson fulltrúi ráðherra
Guðmundur Kristján Óskarsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Sigríður Sía Jónsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Rakel Rún Sigurðardóttir fulltrúi stúdenta
Ottó Elíasson fulltrúi háskólaráðs
Bryndís Fiona Ford fulltrúi háskólaráðs
Einnig mætt:
Sindri S. Kristjánsson skrifstofustjóri rektorsskrifstofu, sem ritaði fundargerð
Gestir:
Hólmar Erlu Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu
Helga María Pétursdóttir forstöðumaður fjármála og greininga
Hildur Friðriksdóttir formaður jafnréttisráðs Háskólans á Akureyri
Lilja Filippusdóttir landslagsarkitekt
Rektor kynnti dagskrá.
1. Fjármál og rekstur
2502081
Hólmar Erlu Svansson og Helga María Pétursdóttir sátu fund háskólaráðs undir þessum lið.
Helga María gerði grein fyrir rekstrarstöðu háskólans á tímabilinu janúar til nóvember 2025. Skýrslan var tekin út fyrr en vanalega, sökum þess að fundur háskólaráðs i desember fer fram fyrr í mánuðinum en alla jafna tíðkast. Af þeim sökum gefur hún ekki jafn góða mynd og venjulega af síðasta mánuðinum sem hún nær til. Athygli vekur að rekstur heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs hefur verið þyngri en rekstur hug- og félagsvísindasviðs þó svo að fjárhagsáætlun sviðanna og aðferðafræði við útdeilingu fjármagns sé byggð upp með sama hætti. Rektor hefur óskað eftir sérstökum skýringum á þessu frá sviðsforseta heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs og á von á þeim í byrjun næsta árs. Rætt var um þessa stöðu. Þá var rætt um stöðu sértekjueininga háskólans og sérstaklega þeirra sem rekin eru samkvæmt fjárframlögum stofnaðila.
Þá gerði Helga María háskólaráði grein fyrir útgönguspá ársins 2025 og hvernig hún stenst samanburð við fjárhagsáætlun. Ef framheldur sem horfir verður rekstrarafgangur af rekstri háskólans á árinu í kring um 12 mkr.
2. Fjárhagsáætlun 2026
2512048
Hólmar Erlu Svansson og Helga María Pétursdóttir sátu fund háskólaráðs undir þessum lið.
Helga María gerði grein fyrir fjárhagsáætlun háskólans fyrir næsta árs. Eins og greint var frá á síðasta fundi háskólaráðs hefur vinna við gerð fjárhagsáætlunar 2026 verið þung í vöfum. Við gerð fjárhagsáætlunarinnar var ákveðið að gera ráð fyrir hækkun innritunargjalda. En sú áætlun sem kynnt var gerir ráð fyrir u.þ.b. 2 mkr. afgangi. Í þessu ljósi má gera ráð fyrir að rekstrarárið verði talsverð áskorun. Til að ná fram viðunnandi niðurstöðu hefur þurft að sníða ýmislegt af áætluninni frá fyrri árum. Háskólaráð ræddi stöðuna og áhrif fjármögnunarlíkansins til lengri tíma, sérstaklega áranna 2027 og 2028. Við blasir að endurskipuleggja þarf starfsemi háskólans ef ekki verða gerðar breytingar á fjármögnunarlíkani ráðuneytis háskólamála. Fyrir liggur að orðið hefur u.þ.b. 5,5% aukning í nemendafjölda háskólastigins í heild á landinu en framlög til málaflokksins hafa ekki aukist sem því nemur. Ræddi háskólaráð stöðu íslenskra háskóla heilt yfir og til framtíðar í tengslum við þetta.
Háskólaráð samþykkir framlagaða fjárhagsáætlun Háskólans á Akureyri fyrir árið 2026.
3. Úthlutun rannsóknamissera 2026-2027
2508168
Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Sigríður Sía Jónsdóttir athygli á því að hún teldi sig vanhæfa til að fjalla um þennan lið. Meint vanhæfi var lagt upp til atkvæða fyrir háskólaráð og þar það samþykkt samhljóða. Sigríður Sía vék af fundi háskólaráðs undir þessum lið af þessum sökum.
Tillaga rannsóknamisserisnefndar að úthlutun rannsóknamissera fyrir 2026-2027, sem kynnt var á 478. fundar háskólaráðs, var tekin fyrir á ný. Tillagan felur í sér að allt starfsfólk sem uppfyllir skilyrði reglna um rannsóknamisseri fái úthlutað þeim misserum sem það sótti um.
Háskólaráð samþykkir framlagða tillögu rannsóknamisserisnefndar um úthlutun rannsóknamissera fyrir 2026-2027.
4. Jafnréttisáætlun Háskólans á Akureyri
2408049
Hildur Friðriksdóttir sat fund háskólaráðs undir þessum lið.
Hildur gerði grein fyrir hvernig framkvæmd jafnréttisáætlunar háskólans 2025-2028 vindur fram. Hjartað í jafnréttisáætluninni er aðgerðaáætlun sem byggir á fimm markmiðum jafnréttisáætlunar, alls 34 aðgerðir. Hildur ræddi samstarf rásins við RHA, en ráðið kaupir þjónustu þaðan til að fylgja eftir jafnréttisáætluninni. Þá greindi rektor háskólaráð frá áformum um að ráða sérstakan starfsmann í verkefnið í ljósi sem hverfa þurfti frá vegna þeirrar stöðu sem blasir við í fjárhag háskólans á næsta ári.
Háskólaráð ræddi verkefni jafnréttisráðs m.a. stöðu stúdenta af erlendum uppruna gagnvart kröfum einstaka deilda háskólans um notkun íslensku í námi.
Háskólaráð þakkar Hildi fyrir kynninguna.
5. Valkostagreining á Végeirsstöðum
2509111
Lilja Filippusdóttir sat fund háskólaráðs undir þessum lið.
Kynnt var fyrir háskólaráði niðurstaða verkefnis sem stjórn Végeirsstaðasjóðs fékk Lilju Filippusdóttur, landslagsarkitekt, til að vinna fyrir sjóðinn. Unnin hefur verið greining á stöðu og mögulegri framtíðarnotkun landsins að Végeirsstöðum sem Végeirsstaðasjóður hefur umsjón með. Í samantekt Lilju er farið yfir sögu Végeirsstaða aftur til ársins 1931 og fram til dagsins í dag, ásamt því að staðan gerð er grein fyrir stöðunni í dag. Þá eru lagðar til nokkrar hugmyndir að nýtingu landsins til framtíðar. Háskólaráð ræddi þessar hugmyndir og möguleikana sem eru í stöðunni.
Háskólaráð þakkar Lilju fyrir kynninguna á valkostagreiningunni.
6. Erindi frá starfsfólki til háskólaráðs
2509047
Umræðu frá 476. fundi háskólaráðs, um erindi hóps starfsfólks við háskólann þar sem hvatt er til akademískrar sniðgöngu á háskólum og rannsóknarstofnunum í Ísrael, var haldið áfram.
Rektor kynnti niðurstöður athugunar sem háskólaráð óskaði eftir að gerð yrði á 476. fundi ráðsins, þ.e. hvort Háskólinn á Akureyri eigi í einhverju akademísku samstarfi við ísraelska háskóla eða aðrar menntastofnanir þar í landi. Niðurstöður athugunar hafa leitt í ljós að ekkert slíkt samstarf er í gangi.
Háskólaráð áréttar að Háskólinn á Akureyri á ekki í neinu formlegu samstarfi við ísraelska háskóla eða menntastofnanir þar í landi. Vegna þessa tekur háskólaráð ekki afstöðu til málsins.
7. Bókfærð mál til samþykktar
- Skipan í stjórn Góðvina Háskólans á Akureyri 2510087
Samþykkt.
8. Til fróðleiks
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:12.