„Það er mikið að gera á stóru heimili“ á svo sannarlega vel við um RUmÖ í ár, en þrátt fyrir erfiðar aðstæður í myglusýktu húsnæði hafa rannsóknir hópsins gengið fádæma vel. Þannig birti hópurinn þrjár ritrýndar greinar á árinu, kynnti rannsóknir á fimm ráðstefnum og á Vísindavöku Rannís. Auk þess fóru doktorsnemarnir í rannsóknaheimsóknir til Þýskalands, Frakklands, Ítalíu og einnig voru vettvangsrannsóknir stundaðar á Reykjanesskaga.
Útlit er fyrir áframhaldandi atorku á árinu 2026 og mun hópurinn stýra málstofum á tveimur stórum alþjóðlegum ráðstefnum, annarri í Færeyjum og hinni á Nýja Sjálandi. Auk þess verður unnið að frekari birtingum á ritrýndum vettvangi.
Hópnum stýra Auður Sigurbjörnsdóttir, dósent og deildarforseti, og Oddur Þór Vilhelmsson prófessor, sem bæði eru starfandi kennarar og rannsakendur í Auðlindadeild.

Oddur sýnir handtökin á Vísindavöku
Verkefnin sem hópurinn stýrir eru af margvíslegum toga og sett var saman fréttabréf fyrir árið þar sem nánar er sagt frá verkefnum, styrkjum og framgangi. Hér fyrir neðan er stutt yfirlit verkefna og fréttabréfið í heild má nálgast hér.
Fléttur og þörungar
Í Psyringae verkefninu rannsakaði Natalía Ramírez Carrera áhrif efnaskiptaafurða úr fléttum á ákveðna tegund sýkla í plöntum. Lokagrein verkefnisins birtist á árinu og lauk verkefninu þegar Natalia varði doktorsritgerð sína við háskólann í fyrra. Hún starfar nú sem nýdoktor við Sænska Landbúnaðarháskólann í Malmö.

Ashani útskýrir sína vinnu á Vísindavöku
Tvær greinar voru birtar tengdar verkefninu PFAS. Í fyrri greininni var fjallað um stöðu mengunar vegna perflúoróalkýlefna á Norðurslóðum og í þeirri seinni er greint frá því hvernig sömu efni hafa skaðleg áhrif á kísilþörunga í íslensku sjávarumhverfi. Ashani Arulananthan, doktorsnemi, er aðalhöfundur beggja greina og hefur hún einnig kynnt verkefnið víða þetta árið, meðal annars á SAME18 ráðstefnunni í Barcelona.
Í upphafi árs var Alexandra Georganti Ntaliape ráðin sem doktorsnemi við Auðlindadeild. Vinnur hún að skimun eftir bakteríum sem sýkja þörunga og við að draga DNA úr þörungablóma. Verkefnið er unnið innan evrópska rannsóknarnetsins PHABB og er hluti af samstarfsnetinu ParAqua.
Jarðvegur jarðarinnar og í geimnum
Andrés Tryggvi Jakobsson, forstöðumaður rannsóknarstofu háskólans, stundar meistaranám í líftækni og í hans verkefni greinir hann örverulíf í uppþornuðum stöðuvötnum og árfarvegum. Með því er hægt að draga ályktanir um lífvænleika á reikistjörnunni Mars og ber verkefnið heitið Mars- GH. Andrés hefur farið í vettvangsferðir vegna verkefnisins og kynnt það á BEACON ráðstefnu í Reykjavík.

Andrés í verkefninu Mars - GH
Lokavinnustofa verkefnis um engjaskófir og áhrif loftlagshlýnunar á lífríki örvera þeirra fór fram á árinu. Einnig var skilað inn lokaskýrslu og búið er að útbúa áframhaldandi styrkumsókn til Horizon Europe. Oddur kynnti verkefnið á Líffræðiráðstefnunni í Reykjavík og á ársfundi franska þörungafræðifélagsins í París. Robert Jackson í Birmingham-háskóla stýrði verkefninu ásamt Auði og Oddi.
Þá er byrjuð úrvinnsla á sýnum sem tekin voru í fyrra í Leirársveit til að meta áhrif endurheimtar votlendis. Sú vinna tilheyrir verkefninu ReWet og stefnt er að því að ráða til starfa við verkefnið í upphafi næsta árs, Nicolas Martin, sem er nýdoktor. Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor í Landbúnaðarháskóla Íslands, stýrir verkefninu en Auður stýrir verkefni Nicolasar.
Einnig er farið af stað aftur vinna í verkefni sem felst í því að greina örverur í metangasaugum á Austursandi í Öxarfirði. Oluwafemi Solomon, meistaranemi í líftækni, mun vinna að sínu meistaraverkefni innan þessa verkefnis og mun hann skima eftir niðurbroti olíuefna. Nicolas og Oddur munu stýra verkefninu.
Að lokum unnu BS-nemar í líftækni, sérverkefni um erfðamengi umhverfisbaktería á árinu sem var stýrt af Oddi og Auði.