Farsæld í brennidepli – öll eru velkomin!

Sjónaukinn 2025
Farsæld í brennidepli – öll eru velkomin!

Í heimi þar sem hraði breytinga og flókin samfélagsmál eru daglegt brauð, skiptir máli að staldra við og beina sjónum að því sem skiptir mestu máli: farsæld fólks. Ráðstefnan Sjónaukinn 2025, sem haldin verður við Háskólann á Akureyri dagana 19. og 20. maí, leitast við að varpa ljósi á fjölbreyttar leiðir til að efla samfélagslega velferð og vellíðan. Undirtónn ráðstefnunnar er skýr: Við höfum öll hlutverki að gegna – og með samvinnu getum við skapað samfélag þar sem enginn er skilinn eftir.

Í ár er þemað sérstaklega tímabært: Farsæld í íslensku samfélagi. Erindin eru mjög fjölbreytt og spanna allt frá persónulegri reynslu af þjónustu VIRK yfir í umræðu um inngildingu og fordóma og kynningu á svæðisbundnum farsældarráðum. Jafnframt eru erindi um lítil sem stór verkefni í samfélaginu sem hafa að markmiði að efla farsæld, en hafa ekki fengið þá athygli sem þeim ber, þar má nefna svitahof og Einbúakaffi. Einnig er fjallað um verkefni sem eru nú þegar í gangi sem miða að aukinni vellíðan barna og ungmenna.

„Meiri áhugi á að vinna með einstaklingum en sýnum“


Sigurður Ýmir

Einn af aðalfyrirlesurum Sjónaukans er Sigurður Ýmir Sigurjónsson, hjúkrunarfræðingur, kennari og teymisstjóri í geðheilsuteymi ADHD fullorðinna. Við tókum hann tali til að kynnast honum betur og aðkomu hans að ráðstefnunni.

„Ég kynntist fyrst starfi hjúkrunarfræðinga þegar ég vann við aðhlynningu eftir að hafa byrjað nám í lífeindafræði. Ég áttaði mig á því að mér gekk betur að spegla mig í hjúkrunarfræðingnum en í lífeindafræðingnum, en þá áttaði ég mig á að ég hafði meiri áhuga á að vinna með einstaklingum frekar en að vinna með sýnum og rannsóknum frá viðkomandi. Þegar ég svo hóf námið fann ég að þarna lá hjartað og áhuginn. Ég var spenntur fyrir efninu og gekk vel að tileinka mér fræðin. Eftir námið og allt til dagsins í dag er ég ekki orðinn þreyttur á hjúkrunarfræðinni og er enn töluverður fróðleiksþorsti sem nýtist í að skoða rannsóknir og ígrunda efnið sem ég tek fyrir í mínum fyrirlestrum,“ segir Sigurður aðspurður um hvað kveikti áhuga hans á hjúkrunarfræðinni.

Þessi innsýn varð síðar drifkraftur að áframhaldandi námi og kennslu. Í dag kennir hann við Háskólann á Akureyri og lofar sveigjanleika og frumkvöðlahugsun skólans. „Háskólinn er stofnun sem er óhrædd við nýjungar að mínu mati. Má þar nefna fyrirkomulag fjarnámsins sem er einstakt tækifæri fyrir einstaklinga sem geta ómögulega sagt sig frá vinnu til að sinna námi, og var HA fyrsti skólinn sem tók hinsegin málefni inn í námskrá í hjúkrunarfræði. Í tengslum við kennsluna þá er gott frelsi til að stýra því efni sem ég vil leggja áherslu á og ég upplifi mikinn vilja frá HA til að gera hlutina vel.

ADHD og heildræn nálgun

Sigurður Ýmir gegnir einnig mikilvægu hlutverki sem teymisstjóri ADHD-teymis fyrir fullorðna, sem hann segir hafa orðið að veruleika eftir að hafa tengst fagfólki í gegnum fyrra starf og ráðstefnur. „Það hófst sem tímabundin staða en þróaðist í fasta ráðningu eftir mikla umbótavinnu. Það er mikill kraftur í því þegar tækifæri og áhugi mætast.“

Hann leggur áherslu á mikilvægi þess að nálgast ADHD með dýpt og samhengi. „Við könnumst flest við einhver ADHD-lík einkenni. ADHD er aðeins greint þegar heildin er skoðuð í samhengi við birtingarmynd hömlunar, hvenær hún hófst, hversu íþyngjandi og á hvaða sviðum lífsins. Það á einnig við eftir greiningu og þegar meðferð er hafin þar sem ADHD lyf hafa ólíka virkni á hvern einstakling.“ Þá bendir hann á að ADHD lyf séu ekki „töfralausn“, heldur hluti af stærri meðferðarramma sem þarf að vera einstaklingsmiðaður og gagnreyndur.

Vertu með á Sjónaukanum – skapaðu samfélag framtíðar

Á fyrri degi ráðstefnunnar, mánudaginn 19. maí, koma aðalfyrirlesarar úr ólíkum áttum og fjalla um eigin verkefni sem miða að aukinni farsæld. Aðalfyrirlesarar Sjónaukans eru sjö og hafa fjölbreyttan bakgrunn í lífi, starfi og námi. Öll eru þau að vinna að verkefnum sem hafa að markmiði að auka farsæld, til dæmis í gegnum umönnun fólks heima, með því að bjóða einbúum í kaffi, bjóða upp á námskeið fyrir fullorðna, draga úr fordómum með aukinni þekkingu á mismunandi menningu og hinsegin samfélaginu og með því að styðja fólk á batabraut í gegnum VIRK og SÁÁ.

Þriðjudaginn 20. maí tekur við Meistaradagurinn – þar sem meistaranemar í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri kynna rannsóknarverkefni sín. Verkefnin fjalla öll um mikilvæg málefni sem varða samfélagið okkar með einum eða öðrum hætti og ættu því að höfða til allra sem láta sig það varða. Umfjöllunarefnin eru fjölbreytt og snerta meðal annars reynslu lögreglufólks af vinnu með fólki sem tekst á við geðrænar áskoranir, dreifbýlishjúkrun, geðheilsu feðra, áhrif ofbeldis, framhaldsskólahjúkrun og handleiðslu innan heilbrigðiskerfisins. Dagurinn veitir innsýn í nýja þekkingu og nálganir sem móta framtíðina.

Meistaranámið sjálft hefur fest sig í sessi sem þverfaglegt og samfélagslegt nám, þar sem áhersla er lögð á endurhæfingu, geðheilbrigði, öldrun, stjórnun í heilbrigðisþjónustu og ýmsa aðra þætti sem stuðla að betra heilbrigðiskerfi og bættum lífsgæðum.

Að vera hluti af breytingunni

„Ég vil koma á framfæri smá hugvekju til stúdenta og þeirra sem starfa í heilbrigðisvísindum. Þegar ég lauk mínu námi og horfði til baka þá upplifði ég ákveðna gremju yfir birtingarmynd hinsegin fólks í heilbrigðisvísindum. Á tímum COVID fór ég að safna saman upplýsingum og efni, meðal annars reynslusögum hinsegin fólks á Íslandi sem ég ígrundaði í erlendum rannsóknum og kynnti ögn á jafnréttisdögum HÍ. Í kjölfarið hafði Háskólinn á Akureyri samband og bauð mér að halda málstofu um málaflokkinn auk þess að kenna eina kennslustund. Sú eina kennslustund er nú orðin að fleirum og fór einnig yfir í Háskóla Íslands í hjúkrunar-, lyfja-, og læknisfræði,“ segir Sigurður frá sem samhliða fékk tækifæri til að vera fyrirlesari á ráðstefnum, hjá félögum og stofnunum, verið þátttakandi í málstofum og pallborðum. „Mér þótti ánægjulegt að sjá á ráðstefnu í Svíþjóð síðastliðið haust að Ísland virðist nú standa framarlega í samanburði við Norðurlönd þegar kemur að menntun heilbrigðisstarfsmanna á heilbrigði hinsegin fólks. Skilaboðin mín eru því þessi til lesenda: Ekki standa auðum höndum þegar skortur er til staðar. Það má vel vera að þú sért tækifærið sem þörf er á til að hefja úrbætur. Það að einfaldlega rúlla upp ermum og taka fyrsta skrefið getur mögulega verið byrjun á ævintýri sem þú áttir aldrei von á.“

Með þessum orðum hvetjum við öll til að skoða dagskrá Sjónaukans á unak.is og í anda þemans og orða Sigurðar minnum við okkur öll á að við getum haft áhrif – hvort sem við vinnum með fólki, kennum, ræðum, rannsökum eða hlustum. Með samstilltu átaki og opnu samtali getum við skapað samfélag þar sem styrkleikar hvers einstaklings fá að blómstra.

Eins og áður sagði fer Sjónaukinn fram í Háskólanum á Akureyri dagana 19. og 20. maí en einnig verður streymt frá ráðstefnunni fyrir þau sem ekki geta mætt á staðinn. Ráðstefnan er öllum opin og má finna dagskrá og nánari upplýsingar hér.

Vertu með og sjáðu framtíðarsýn mótast!