Samfélaginu boðið til samtals við doktorsnema

Málþing doktorsnema fer fram mánudaginn 27. janúar
Samfélaginu boðið til samtals við doktorsnema

Mánudaginn 27. janúar næstkomandi fer fram Málþing doktorsnema við Háskólann á Akureyri. Málþingið, sem er skipulagt af doktorsnemum í samstarfi við Miðstöð doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna, er reglulegur viðburður sem miðar að því að skapa vettvang fyrir samtal um rannsóknir og kynningu á doktorsnámi við HA.

Doktorsnemar háskólans gegna mikilvægu hlutverki í vísindasamfélagi HA. „Doktorsnemarnir okkar skipuleggja málþing einu sinni til tvisvar á ári þar sem þeir kynna rannsóknir sínar og opna fyrir samtal um vísindi. Málþingið er liður í því að gera doktorsnema og rannsóknir þeirra sýnilegar og efla vísindalegt samfélag við HA,“ segir Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna.

Háskólinn á Akureyri hefur á síðustu árum vaxið og þroskast sem fullvaxta háskólastofnun með nám á öllum stigum. Í dag er háskólinn með heimild til að bjóða doktorsnám innan eftirfarandi fræðasviða:

  • Auðlindavísindi: Líftækni, sjávarútvegs- og fiskeldisfræði
  • Félagsvísindi: Félagsfræði, viðskiptafræði og lögfræði
  • Heilbrigðisvísindi: Hjúkrunarfræði

Þá liggur fyrir umsókn um heimild til doktorsnáms á sviði menntavísinda og sálfræði. „Fyrstu doktorsnemarnir voru innritaðir í lok árs 2018 og fyrsta doktorsvörnin við HA fór fram haustið 2022. Nú hafa fimm aðilar lokið doktorsnámi frá HA, tveir í félagsvísindum/félagsfræði, tveir í heilbrigðisvísindum og einn í auðlindavísindum/líftækni. Þá eru tvær doktorsvarnir áætlaðar á þessu ári, ein í auðlindavísindum og ein í heilbrigðisvísindum/hjúkrunarfræði,“ segir Guðrún Rósa.

Gæði og persónuleg nálgun

Allir nýdoktorarnir okkar hafa fengið akademískar stöður strax að námi loknu. Þá segir Guðrún Rósa að Háskólinn á Akureyri hafi tekið þá stefnu að leggja áherslu á gæði ásamt persónulegri nálgun frekar en fjölda. „Við erum afskaplega ánægð með þá ákvörðun okkar að hafa sett gæðin á oddinn og fara rólega af stað. Við leggjum mikið upp úr því að halda vel utan um doktorsnemana okkar og viljum að þeim líði vel í náminu. Við gerum kröfur um að umsækjendur um doktorsnám við HA hafi náð að fjármagna a.m.k. fyrri hluta námsins og séu með raunhæfa fjárhagsáætlun fyrir seinni hlutann þannig að þeir geti einbeitt sér að náminu og lokið því á tilsettum tíma.“

Málþingið er opið öllum

Eins og áður sagði fer Málþing doktorsnema fram 27. janúar og hefst það klukkan 9 í stofu M102 en einnig verður streymt frá því. Áhugasöm eru beðin um að skrá þátttöku sína á málþingið hér. Málþingið er fyrir öll þau sem hafa áhuga á því hvað fer fram í doktorsnámi við HA, stúdenta og starfsfólk, ásamt þeim sem hafa áhuga á rannsóknum og ekki síst fyrir almenning til þess að kynna sér þau fjölbreyttu rannsóknarverkefni sem unnin eru í nærsamfélaginu okkar.