Vinnulag sem styrkir skólastarf og samvinnu

Ný vinnustofa um CR-lausnaleit
Vinnulag sem styrkir skólastarf og samvinnu

Háskólinn á Akureyri mun þann 30. júní nk. standa fyrir vinnustofu með Lornu og Kurtis Hewson frá Jigsaw Learning í Kanada, höfundum CR-lausnaleitarinnar (e. Collaborative Response). Vinnustofan fer fram í Háskólanum á Akureyri og hefst klukkan 9:00. Vinnustofan er ætluð skólastjórnendum leik- og grunnskóla sem vilja sjá hvernig vinnulagið nýtist við aðlögun námsumhverfis nemenda og á hvaða hátt það styrkir fagafl skólanna og þá menningu sem styður nemendur í námi og kennara í daglegu starfi.

Hvernig kom vinnustofan til?

Ingileif Ástvaldsdóttir, aðjúnkt við Kennaradeild Háskólans á Akureyri, skipuleggur vinnustofuna. „Ég kynntist CR vinnulaginu þegar ég var skipti-skólastjóri í Kanada haustið 2019. Þetta var í gegnum verkefnið Exchanging Minds á vegum Skólastjórafélags Íslands og Kennarasambandsins í Alberta.“
Á tímum heimsfaraldursins COVID-19 tók hópur íslenskra skólastjórnenda þátt í netnámskeiði hjá Kurtis og Lornu. Þetta leiddi síðar til komu þeirra til Íslands árið 2022 og haldnar voru vinnustofur fyrir skólastjórnendur á höfuðborgarsvæðinu. Í kjölfarið hafa grunnskólar í Breiðholti innleitt vinnulagið með góðum árangri.
„Lorna og Kurtis höfðu samband við mig í kringum páskana síðastliðna og sögðu mér að þau væru að koma í sumarfrí til Íslands og væru til í að halda aðra vinnustofu. Þá stökk ég á hugmyndina,“ segir Ingileif. „Ég leitaði til Guðmundar Engilbertssonar, deildarforseta Kennaradeildar, sem þáði boðið fyrir hönd deildarinnar.“

Hvað er CR-lausnaleit?

CR-lausnaleitin snýst um að skapa skýrt og stigskipt verklag til að styðja við nemendur, kennara og annað starfsfólk í námsumhverfi barna.
„Í mati á innleiðingu vinnulagsins í Breiðholti kom fram að kennurum fannst verklagið styrkja teymisvinnu og auka sameiginlega ábyrgð á nemendum,“ segir Ingileif. „Stjórnendur lýstu því einnig hvernig verklagið hvatti til lærdómssamtals og hafi ýtt undir samstarf þvert á umsjónarhópa kennaranna og fagþekkingu starfsfólks.“
Ingileif hefur fylgst með innleiðingunni og hún segir að vinnulagið hafi þróast á frjóan hátt og aðlagað sig íslensku skólaumhverfi á áhrifaríkan hátt. „Einn af kostum þess er að hver skóli getur tekið það upp og aðlagað að sínum þörfum og aðstæðum.“

Verða fleiri námskeið í framtíðinni?

Aðspurð hvort fleiri námskeið séu í bígerð segir Ingileif að ekkert sé ákveðið en...
„Það er aldrei að vita hvort fleiri vinnustofur eða námskeið verði í boði í framtíðinni, annaðhvort með þeim hjónum eða öðru fagfólki.“
Vinnulagið hefur nú þegar verið kynnt innan námskeiða Kennaradeildarinnar, sérstaklega í kjörsviðinu Stjórnun og forysta í lærdómssamfélagi, sem hagnýt aðferð til að efla skólastarf. „Eftir þessa vinnustofu reikna ég með að við verðum enn betur í stakk búin að nýta verklagið í námi kennarastúdenta og samstarfi við vettvangsskóla,“ segir Ingileif um möguleikana á að flétta kennslu á vinnulaginu inn í kennaranámið.

Skráning og upplýsingar

Vinnustofan fer fram á ensku og kostar 12.000 kr.

Innifalið í gjaldinu er:
• Bókin Collaborative Response: Three Foundational Components That Transform How We Respond to the Needs of Learners
• Léttur hádegisverður og hressing

Skráningu lýkur 22. júní og hægt er að finna frekari upplýsingar um vinnustofuna og skráningu hér.
Nánari upplýsingar veitir Ingileif Ástvaldsdóttir, ingileif@unak.is.