Stefna um jafnt aðgengi að námi og störfum

Háskólinn á Akureyri (HA) leggur áherslu á að tryggja nemendum og starfsfólki jafnan og greiðan aðgang að námi og starfi.

Jafnrétti er eitt af gildum Háskólans á Akureyri og leggur háskólinn áherslu á að nemendur og starfsfólk nái árangri í námi og starfi óháð fötlun, kynhneigð, kyni, kynþætti, lífsskoðun, trúarbrögðum og uppruna.

Stefna þessi er tvískipt, annars vegar tekur hún til nemenda og hins vegar til starfsfólks. Stefnan lýtur að markmiðum, leiðum, þjónustu og starfsháttum HA. Almennt er fjallað ítarlegar um nemendur en starfsfólk enda eru réttindi síðarnefnda hópsins betur tryggð í löggjöf og með kjarasamningum.

1. Forsendur og skilgreiningar

Samkvæmt skilgreiningu í 1.-lið 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er fötlun afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.

Í þessari stefnu er hins vegar lögð áhersla á þann skilning að fötlun sé aðstæðubundin og felist í misgengi milli einstaklingsins og þeirra krafna sem umhverfið gerir hverju sinni.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) frá árinu 2006 um réttindi fatlaðs fólks er kveðið skýrt á um réttindi og skyldur þjóða til að tryggja mannréttindi og jafnræði, meðal annars með því að stuðla að jöfnu aðgengi. Ísland fullgilti samninginn þann 23. september 2016.

1.1 Stjórn og skipulag

Jafnréttisráð hefur það hlutverk að sjá til þess að þessari stefnu sé framfylgt. Ráðið skal jafnframt sjá til þess að stefnan sé starfsfólki og nemendum sýnileg á vefsíðu skólans og fylgja því eftir að aðgengi á háskólasvæðinu sé í samræmi við stefnu þessa. Um dagleg störf sem tilheyra stefnunni sjá annars vegar miðstöð náms- og starfsráðgjafar, þegar um nemendur er að ræða, og hins vegar gæða- og mannauðsstjóri þegar um starfsfólk er að ræða.

Jafnréttisráð, náms- og starfsráðgjafar og gæða- og mannauðsstjóri skulu funda í upphafi hvers skólaárs og fara yfir stöðu mála hvað varðar sértæk úrræði fyrir starfsfólk og nemendur. Með sértækum úrræðum er átt við aðgerðir sem ætlaðar eru til að jafna aðstöðu nemenda til náms og tryggja að í námstilhögun og við námsmat sé tekið sanngjarnt og eðlilegt tillit til sérþarfa nemenda hverju sinni. Úrræðin fela ekki í sér að dregið sé úr kröfum við innritun nemenda eða námskröfum sem skólinn almennt gerir.

Sértæk úrræði gagnvart starfsfólki fela í sér aðgerðir sem auðvelda viðkomandi að sinna starfi sínu. Þetta er í takt við skilgreiningu samnings SÞ á viðeigandi aðlögun. Með viðeigandi aðlögun er átt við að gerðar eru nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem ekki eru umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og mannfrelsi.
Jafnframt skulu þessir aðilar endurskoða stefnuna á fjögurra ára fresti eða oftar ef þörf krefur í tengslum við jafnréttisáætlun háskólans og nýja þekkingu á sviði jafnréttismála. Æskilegt er að nemendur og starfsfólk með fötlun eða sértækar þarfir komi að endurskoðuninni. Heimilt er að leita til starfsfólks háskólans og utanaðkomandi sérfræðinga um ráðgjöf og álit ef þörf krefur.

Jafnréttisráð skal fjalla að minnsta kosti einu sinni á ári um stefnuna en einnig skal halda fund innan tveggja vikna eftir að erindi hafa borist ráðinu eða ef aðrar ástæður krefjast álits þess. Ráðinu er heimilt að stofna starfshóp um stefnuna og endurskoðun hennar ef þurfa þykir.

Kvartanir/málskot

Nemanda, sem telur sig hafa orðið fyrir misrétti eða sættir sig ekki við þau úrræði sem náms- og starfsráðgjöf eða yfirmaður viðkomandi starfseiningar hefur boðið, getur sent kvörtun til gæða- og mannauðsstjóra. Verklagsreglu varðandi kvartanir nemenda (VLR-005) má finna á Uglu, innri vef háskólans og er þar einnig rafrænt eyðublað (EYD-002). Viðkomandi nemandi getur einnig leitað til jafnréttisráðs sem veitir áheyrn og leiðsögn.

Starfsmanni, sem telur sig hafa orðið fyrir misrétti eða sættir sig ekki við þau úrræði sem yfirmaður hefur boðið, getur leitað til jafnréttisráðs eða gæða- og mannauðsstjóra til að fá áheyrn og leiðsögn.

Háskólaráð, rektor, fræðasvið og stjórnsýsla skólans geta óskað eftir áliti jafnréttisráðs í einstökum tilvikum og skal þá fyllsta trúnaðar gætt og unnið í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Um málsmeðferð af þessu tagi gilda ákvæði stjórnsýslulaga.

1.2. Ábyrgð og framkvæmd

Jafnréttisráð og rektor bera endanlega ábyrgð á framkvæmd þessarar stefnu.

Miðstöð náms- og starfsráðgjafar hefur umsjón með daglegu starfi gagnvart nemendum. Miðstöðin gerir tillögur um úrræði sem byggð eru á faglegu áliti sérfræðings í hverju tilviki í nánu samráði við nemanda. Einnig fylgja ráðgjafar eftir úrræðum í samvinnu við þá sem að málinu koma. Gæða- og mannauðsstjóri hefur umsjón með daglegu starfi gagnvart starfsfólki.
Framkvæmdastjórn og forstöðumaður fasteigna bera ábyrgð á að aðgengi að húsnæði uppfylli settar kröfur og að ráðist sé í nauðsynlegar umbætur, bæði á húsnæði og á háskólasvæðinu í heild. Þessir aðilar sjá einnig um að forgangsraða verkefnum og gera áætlanir um frekari úrbætur á aðgengismálum. Þeim ber að tryggja að hugað sé sérstaklega að jöfnu aðgengi við hönnun nýbygginga, í samráði við sérfræðinga og notendur.

2. Nemendur

2.1. Gildissvið er tekur til nemenda

Forsenda þess að nemandi fái sérúrræði er að hann leggi fram málsgögn, meðal annars greiningu sérfræðings, og undirriti samning í samráði við náms- og starfsráðgjafa. Skilyrði fyrir veitingu sértækra úrræða er að nemandi hafi verið skráður til náms en það er þó ekki skilyrði fyrir málsmeðferð að hlutaðeigandi hafi fengið slíka skráningu. Því geta væntanlegir nemendur við háskólann fengið upplýsingar um þau úrræði sem tiltæk eru eða hugsanlega er hægt að bjóða.

2.2. Markmið

Í anda jafnréttissjónarmiða býður háskólinn velkomna nemendur sem búa við fötlun, raskanir eða veikindi af ýmsu tagi og leitast við að mæta þörfum þeirra sem best með eftirfarandi markmið að leiðarljósi:

 • Að tryggja að jafnrétti nemenda Háskólans á Akureyri til náms sé virt.
 • Að tryggja aðgengilegt, öruggt og eflandi námsumhverfi fyrir alla nemendur skólans og stuðla þar með að þátttöku þeirra og virkni í námi.
 • Að koma í veg fyrir mismunun vegna skerðinga eða sérþarfa nemenda.
 • Að nemendur sem búa við skerðingar eða sérþarfir í námi hafi greiðan aðgang að þeim almennu úrræðum og stuðningi sem nauðsynlegur er og við verður komið til að tryggja þátttöku þeirra í námi.
 • Að koma til móts við einstaklingsbundnar þarfir nemenda í námi með sértækum úrræðum eftir því sem við verður komið, lög og reglur gera ráð fyrir og fjárhagsstaða skólans leyfir.
 • Að þjónusta við nemendur með sértækar námsþarfir sé þarfagreind og lýsing á úrræðum, leiðum og ferlum unnin með hverjum og einum sem eftir henni sækist.
 • Að stuðla að því að starfsfólk skólans sé vel upplýst um tiltæk úrræði vegna sérþarfa nemanda.
 • Auk þess að tryggja jafnan aðgang að námi vill Háskólinn á Akureyri tryggja jafnan aðgang að annarri þjónustu stofnunarinnar. Þar er meðal annars átt við:
  • Þjónustu miðstöðvar náms- og starfsráðgjafar, en þar fer fram umsjón með málefnum þeim sem undir þessa stefnu heyra og taka til nemenda.
  • Þjónustu nemendaskrár og þjónustuborðs.
  • Þjónustu bókasafns og upplýsingasviðs, en undir það fellur meðal annars ritver HA.
  • Þjónustu gæða- og mannauðsstjóra og gæðaráðs.
  • Þjónustu kennslumiðstöðvar sem hefur meðal annars umsjón með tölvu- og tæknimálum, auk prófstjórnar, umsýslu og þróun Uglu, skráningarkerfis nemenda.
  • Þjónustu húsumsjónar.
  • Þjónustu stjórnenda og skrifstofu fræðasviða.
  • Þjónustu kennara.
  • Þjónustu alþjóðaskrifstofu.

2.3. Skrásetning

Umsóknir um skólavist við Háskólann á Akureyri eru metnar á grundvelli innritunarskilyrða þeirra námsleiða sem sótt er um. Ákvarðanataka um veitingu sértækra úrræða fer fram óháð umfjöllun um innritun í háskólann.

Væntanlegir nemendur geta óskað eftir og fengið greinargóðar upplýsingar um aðgengi að byggingum og háskólasvæðinu sem og þeim stuðningsúrræðum sem fyrir hendi eru og hugsanlega er unnt að veita. Háskólanum ber skylda til að upplýsa nemendur með sérþarfir í námi um rétt þeirra. Háskólinn hefur jafnframt frumkvæði að kynningu á þessum atriðum innan stofnunarinnar með því að birta upplýsingar á heimasíðu sinni.

Staðfest greining á sérþörfum

Nemandi sem óskar eftir sértækum úrræðum skal snúa sér til miðstöðvar náms- og starfsráðgjafar sem hefur umsjón með þjónustu við nemendur með sérþarfir í námi. Forsenda þess að úrræði séu veitt er að fyrir liggi faglegt mat sérfræðings um námsþarfir nemandans á grundvelli skerðinga eða sérþarfa. Einnig er hægt að fara fram á að nemendur sem verða fyrir áföllum á námstíma leggi fram vottorð frá viðeigandi sérfræðingi þar sem breyttar forsendur til þess náms er þeir eru skráðir í eru metnar.

Bjargir

Á vef náms- og starfsráðgjafar má finna aðgengisgátt sem nefnd er bjargir. Þar eru ýmsar gagnlegar upplýsingar um úrræði og aðstoð sem nemendur geta nýtt sér.

Mat á þörf fyrir úrræði

Háskólinn veitir nemendum úrræði á grundvelli fyrirliggjandi mats. Í sérstökum undantekningartilvikum áskilur HA sér rétt til að synja nemanda um úrræði enda liggi fyrir að innihald, uppbygging eða framsetning þess náms sem nemandinn hefur valið sé þess eðlis að honum sé fyrirsjáanlega ókleift að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í náminu.

HA getur einnig synjað nemanda um úrræði ef skólinn telur ógerlegt að veita þau úrræði sem talin eru nauðsynleg til að nemandinn geti stundað námið, svo sem að útvega aðstöðu eða aðstoðarfólk. Að undanskildu skrásetningargjaldi HA er þjónusta skólans og þau sérúrræði sem hann býður uppá nemendum að kostnaðarlausu. Háskólinn styrkir þó nemendur ekki til tækja- eða bókakaupa og greiðir ekki fyrir þau vottorð sem kann að verða óskað eftir.

Samkomulag um sértæk úrræði

Náms- og starfsráðgjafi gerir fyrir hönd HA skriflegan samning um þjónustuna þar sem tilgreindar eru þær skuldbindingar sem nemandinn og háskólinn gangast undir.
Miðstöð náms- og starfsráðgjafar sér einnig um skráningar einstakra mála í rafrænt skráningarkerfi sem er aðgangsstýrt.

Beiðni um þjónustu

Umsækjendum um nám við HA er gefinn kostur á að merkja í sérstakan reit á umsóknareyðublaði háskólans vegna sértækra úrræða. Hafi umsækjandi merkt í viðkomandi reit boðar náms- og starfsráðgjafi hann í viðtal til að ræða um þarfir hans fyrir stuðning og ráðgjöf. Nemendur sem þegar hafa hafið nám geta einnig hvenær sem er óskað eftir ráðgjöf hjá náms- og starfsráðgjafa. Óski nemandi eftir þjónustu vegna kennslu og próftöku þarf að liggja fyrir greining á vandanum.

Persónuleg ráðgjöf

Háskólinn býður upp á persónulega ráðgjöf fyrir nemendur. Miðstöð náms- og starfsráðgjafar skipuleggur og hefur umsjón með slíkri ráðgjöf. Ráðgjöfin getur verið vegna streitu, sjálfsmyndar, þunglyndis, kvíða, frestunar, samskipta við samnemendur og kennara o.fl.

Bókasafn

Bókasafn HA býður nemendum þjónustu sem tekur mið af sértækum þörfum þeirra. Þar má nefna sérstaka ráðgjöf við heimildaleit, lengri útlánatíma bóka og milligöngu um útvegun hljóðbóka.

Próf og próftaka

Háskólinn á Akureyri veitir nemendum sem búa við fötlun, raskanir eða veikindi af ýmsu tagi, aðstoð og sveigjanleika vegna prófa án þess að dregið sé úr kröfum varðandi námsárangur. Miðstöð náms- og starfsráðgjafar skipuleggur þær aðgerðir í samráði við nemandann og prófstjóra, sem og við kennara þar sem það á við.

Skiptinám

Alþjóðaskrifstofa HA veitir nemendum þjónustu varðandi skiptinám. Sérstök úrræði til skiptináms standa nemendum með fötlun, raskanir eða veikindi til boða í gegnum Erasmus+.

Greiningar

Til þess að fá úrræði vegna fötlunar, raskana eða veikinda af ýmsu tagi þurfa nemendur að afhenda miðstöð náms- og starfsráðgjafar afrit af greiningarskýrslum eða vottorðum frá þar til bærum sérfræðingum. Í kjölfarið mun samtal eiga sér stað um þá aðstoð sem nemandi telur að hann þurfi og háskólinn telur sér unnt að veita.

2.4. Málefni leshamlaðra

HA leggur áherslu á að byggja upp styðjandi námsumhverfi fyrir leshamlaða nemendur sem og aðra.

Þjónusta við leshamlaða

Háskólinn kynnir þjónustu við leshamlaða á heimasíðu sinni. Miðstöð náms- og starfsráðgjafar sér um þjónustuna og leiðbeinir nemendum með leshömlun sem skulu eiga kost á þjónustu á námstíma. Sú þjónusta er þarfagreind og unnin með hverjum og einum nemanda sem eftir henni sækist og getur hún verið í formi sérstakra námskeiða, sérúrræða vegna náms og persónulegrar ráðgjafar.

Námskeið

Á hverju hausti býður HA nemendum sínum að taka þátt í námskeiðum í námstækni og kvíðastjórnun sem þarf að greiða sérstaklega fyrir. Haust hvert sér kennslumiðstöð um kynningu fyrir nemendur á þeim tæknibúnaði sem fyrir hendi er varðandi sértæk námsúrræði.

Lenging námstíma

Allir nemendur háskólans eiga þess kost að lengja námstíma sinn um helming án sérstakra leyfa. Með þessu móti getur þriggja ára nám orðið fjögur og hálft ár. Hægt er að sækja um frekari breytingar á námshraða til deildar en þær breytingar eru háðar reglum deilda um námsframvindu.

Sérúrræði vegna náms

Sérúrræði fela í sér breytingar frá almennu vinnulagi m.a. frávik frá vinnuhraða og verkefnaskilum, notkun ýmissa hjálpargagna, lengri skilafrest á bókum og öðrum gögnum frá bókasafni auk lengri próftíma.

Stuðningur við leshamlaða nemendur er háður því að þeir leggi fram greiningu á leshömlun (dyslexiu). Þessi greining þarf að hafa farið fram í viðurkenndu greiningartæki s.s. LOGOS. Ekki er nægjanlegt að leggja fram skýrslu um skimun á vandanum. Við mat á þörf fyrir sérúrræði er tekið tillit til aldurs viðkomandi þegar greiningin fór fram og einnig er tekið tillit til tillagna um þjónustu við viðkomandi frá greiningaraðila.

3. Starfsfólk

Stefna þessi tekur til starfsmanna sem búa við skerðingu eða veikindi til lengri tíma. Háskólinn leitast við að tryggja vinnuumhverfi sem byggir á jafnrétti, góðum aðbúnaði og öruggu starfsumhverfi (sbr.lög um aðbúnað og hollustuhætti nr. 46/1980).

Markvisst skal unnið gegn mismunun vegna skerðingar starfsfólks eða langvarandi veikinda. Jafnræðis skal gætt við ráðningar (sbr.lög um málefni fatlaðra nr. 59/1992) og boðið upp á nýliðafræðslu þar sem stefna háskólans gagnvart starfsfólki sem býr við veikindi eða skerðingu er kynnt.

Beiðni um þjónustu

Starfsfólk sem býr við skerðingu eða veikindi til lengri tíma skal óska skriflega eftir aðstoð vegna ástands síns eða breyttra forsenda til að hljóta þá þjónustu sem í boði er. Beiðnina skal senda til forseta fræðasviðs eða forstöðumanns einingar eftir því sem við á með afriti til gæða- og mannauðsstjóra og skal rökstuðningur fylgja. Mannauðsstjóri ásamt jafnréttisráði geta leiðbeint starfsfólki um úrræði og leiðir og sjá til þess að þörfum þeirra sé mætt með viðeigandi hætti. Þeir aðilar sem koma að slíkum beiðnum eru bundnir trúnaði varðandi efni og innihald þeirra.

Mat á þörf og úrræðum

Háskólinn veitir starfsfólki sem þarf sértæk úrræði vegna skerðingar eða veikinda aðstoð í samræmi við mat á þörf. Forsenda þess að úrræði séu veitt í einhverjum tilvikum er að fyrir liggi faglegt mat sérfræðings. Reynsla starfsfólks og mat þess á þörf fyrir úrræði er í vissum tilvikum tekið fullgilt og þá ekki krafist utanaðkomandi staðfestingar.

Úrræði til að jafna aðstöðu starfsfólks

Háskólinn veitir starfsfólki sem býr við skerðingar eða veikindi, aðstoð og úrræði eins og framast er unnt. Kalla má til öryggisnefnd eða öryggistrúnaðarmann starfsfólks til samráðs og ráðgjafar, sbr. lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Úrræði fyrir starfsfólk sem býr við skerðingu geta til dæmis tekið til eftirfarandi þátta:

 • Aðgengi að háskólabyggingum og svæðum
 • Hentugs skrifstofuhúsnæðis
 • Sérbúnaðar á skrifstofu
 • Tölvu- og tæknitengdra hluta
 • Yfirlesturs skjala
 • Stuðningsviðtala
 • Sveigjanleika í vinnutíma

Samþykkt í háskólaráði 24. febrúar 2020