Stefnumótun um jafnt aðgengi að námi og störfum

Stefna háskólans er að byggja upp og tryggja stuðning í náms- og starfsumhverfi í anda jafnréttissjónarmiða.

Markmiðið er að gera háskólaumhverfið aðgengilegt og vinna að því að styrkja jákvæð viðhorf og vinnubrögð til að draga úr aðstöðumun.

Stefnumótun um jafnt aðgengi að námi og störfum við Háskólann á Akureyri


1. Inngangur

Háskólinn á Akureyri leggur áherslu á að tryggja nemendum og starfsfólki jafnan og greiðan aðgang að námi og starfi.

Stefna háskólans er að byggja upp og tryggja styðjandi náms- og starfsumhverfi í anda jafnréttissjónarmiða. Markmiðið er að gera háskólaumhverfið aðgengilegt og vinna að því að styrkja jákvæð viðhorf og vinnubrögð til að draga úr aðstöðumun, sbr. jafnréttisáætlun HA, 1. grein, og draga úr fötlunaráhrifum.

Hér er lýst stefnu skólans í málefnum nemenda með sérþarfir í námi vegna skerðingar, veikinda, eða sértækra örðugleika. Ennfremur er vikið að stefnumálum og úrræðum er varða starfsfólk sem býr við langvarandi veikindi eða skerðingu. Stefnan lýtur að markmiðum, leiðum, þjónustu og starfsháttum. Almennt er fjallað ítarlegar um nemendur en starfsfólk enda eru réttindi síðarnefnda hópsins betur tryggð í löggjöf og með kjarasamningum.

1.1 Forsendur og skilgreiningar

Samkvæmt skilgreiningu 2. greinar laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra telst sá fatlaður sem býr við skerðingu af andlegum eða líkamlegum toga og „þarfnast sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Hér er átt við þroskahömlun, geðfötlun, hreyfihömlun, sjón- og heyrnarskerðingu. Enn fremur getur fötlun verið afleiðing af langvarandi veikindum, svo og slysum eða öðrum orsökum” ( Lög um málefni fatlaðra, 59/1992).

Samkvæmt laganna hljóðan er hugtakið notað sem yfirheiti um skerðingu af margvíslegum toga. Í stefnumótuninni er hins vegar lögð áhersla á þann skilning að fötlun sé aðstæðubundin og felist í misgengi milli einstaklingsins og þeirra krafna sem umhverfið gerir hverju sinni.

Í flokkunarkerfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, International Classification of Functioning, Disability and Health (ICF), er litið á fötlun (disability) sem yfirhugtak yfir skerðingu á byggingu eða starfsemi líkama, takmörkun til athafna, eða hindrun á þátttöku í samfélaginu (WHO, 2001).

Samkvæmt ICF flokkast skerðing sem röskun á byggingu eða starfsemi líkama. Undir það falla meðal annars sértækir námsörðugleikar, hreyfihömlun og ýmis vandamál sem hlotist geta af slysum, áföllum, veikindum eða öðrum orsökum. Í takt við helstu áherslur ICF eru möguleikar og tækifæri nemenda og starfsfólks til athafna og þátttöku í háskólasamfélaginu í brennidepli þessarar stefnumótunar.

Þá ber að nefna samning Sameinuðu þjóðanna (SÞ) frá árinu 2006 um réttindi fatlaðs fólks. Í honum er kveðið skýrt á um réttindi og skyldur þjóða til að tryggja mannréttindi og jafnræði, m.a. með því að stuðla að jöfnu aðgengi. Ísland er aðili að samningnum og sérstökum bókunum hans og verður samningurinn að líkindum innleiddur hér á landi á næstunni.

Með sértækum úrræðum er átt við aðgerðir sem ætlaðar eru til að jafna aðstöðu nemenda til náms og tryggja að í námstilhögun og við námsmat sé tekið sanngjarnt og eðlilegt tillit til sérþarfa nemenda hverju sinni. Úrræðin fela ekki í sér að dregið sé úr kröfum við inntöku nemenda eða námskröfum sem skólinn almennt gerir.

Sértæk úrræði gagnvart starfsfólki fela í sér aðgerðir sem auðvelda viðkomandi að sinna starfi sínu. Þetta er í takt við skilgreiningu Samnings SÞ á viðeigandi aðlögun en hún felur í sér nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem ekki eru umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og mannfrelsi.

2. Markmið

2.1. Nemendur

Háskólinn á Akureyri býður nemendum sínum hagstætt námsumhverfi, gott aðgengi að námi og markviss tengsl kennara og nemenda (sbr. stefna Háskólans á Akureyri 2007-2011). Í anda jafnréttissjónarmiða býður háskólinn velkomna nemendur sem búa við fötlun af ýmsu tagi og leitast við að mæta þörfum þeirra sem best með eftirfarandi markmið að leiðarljósi:

 • Að tryggja að jafnrétti nemenda Háskólans á Akureyri til náms sé virt.
 • Að tryggja aðgengilegt, öruggt og eflandi námsumhverfi fyrir alla nemendur skólans og stuðla þar með að þátttöku þeirra og virkni í námi.
 • Að koma í veg fyrir mismunun vegna skerðingar eða sérþarfa nemenda.
 • Að nemendur sem búa við skerðingu eða sérþarfir í námi hafi greiðan aðgang að þeim almennu úrræðum og stuðningi sem nauðsynlegur er og við verður komið til að tryggja þátttöku þeirra í námi.
 • Að koma til móts við einstaklingsbundnar þarfir nemenda í námi með sértækum úrræðum eftir því sem við verður komið, lög og reglur gera ráð fyrir og fjárhagsstaða skólans leyfir.
 • Að þjónusta við nemendur með sértækar námsþarfir sé þarfagreind og lýsing á úrræðum, leiðum og ferlum unnin með hverjum og einum sem eftir henni sækist.
 • Að stuðla að því að starfsfólk skólans sé vel upplýst um tiltæk úrræði og í stakk búið til að mæta nemendum með sérþarfir í námi.

Auk þess að tryggja jafnan aðgang að kennslu vill Háskólinn á Akureyri tryggja jafnan aðgang að annarri þjónustu stofnunarinnar. Þar er meðal annars átt við:

 • Þjónustu kennslusviðs, en því tilheyrir nemendaskrá og þjónustuborð, prófstjórn, náms- og starfsráðgjöf, alþjóðafulltrúi ásamt umsýslu og þróun skráningarkerfis nemenda og heimasíðu HA.
 • Þjónustu upplýsingasviðs en undir það fellur bókasafn.
 • Þjónustu gæðastjóra/-ráðs.
 • Þjónustu fjármála-, starfsmanna- og rekstrarsviðs, sem hefur m.a. umsjón með gagnasmiðju, tölvu- og tæknimálum og húsumsjón.
 • Þjónustu stjórnenda og skrifstofu fræðasviða.
 • Þjónustu kennara.

2.2. Starfsfólk

Háskólinn leitast við að tryggja vinnuumhverfi sem byggir á jafnrétti, góðum aðbúnaði og öruggu starfsumhverfi (sbr. lög um aðbúnað og hollustuhætti nr. 46/1980).

Markvisst skal unnið gegn mismunun vegna skerðingar starfsfólks eða langvarandi veikinda. Jafnræðis skal gætt við ráðningar (sbr. lög um málefni fatlaðra nr. 59/1992) og boðið upp á nýliðafræðslu þar sem stefna háskólans gagnvart starfsfólki sem býr við veikindi eða skerðingu er kynnt.

Starfsmenn eru hvattir til þess að sækja námskeið og/eða fræðslufundi sem lúta að því að auka skilning á málefnum fatlaðs fólks og nemenda með sértæka námsörðugleika.

Einnig er lögð áhersla á að kennarar séu meðvitaðir um kennsluhætti sem falla vel að þörfum leshamlaðra og um hvers konar sérúrræði í námi og próftöku geti verið að ræða.

Æskilegt er að Háskólinn á Akureyri hafi frumkvæði að fræðslu um þessi málefni.

3. Stjórn og skipulag

3.1. Jafnréttisráð

Málaflokkurinn heyrir undir jafnréttisráð á hverjum tíma. Jafnréttisráð er skipað af háskólaráði til tveggja ára í senn og vinnur í umboði rektors og háskólaráðs, sbr. jafnréttisáætlun HA, grein 1.1.

Eitt af hlutverkum ráðsins er að framfylgja þeirri stefnumótun sem hér er sett fram og að móta nánari útfærslu á framkvæmdaleiðum og -ferlum. Jafnréttisráð skal jafnframt sjá til þess að stefnumótunin sé starfsmönnum og nemendum sýnileg á heimasíðu skólans og tryggja þeim aðgengi að úrræðum.

Ráðið skal endurskoða stefnumótun um jafnt aðgengi að námi og störfum með 4 ára millibili eða oftar ef þörf krefur í tengslum við jafnréttisáætlun HA og nýja þekkingu á sviðinu.

Æskilegt er að nemendur/starfsmenn með fötlun eða samtök fatlaðs fólks komi að endurskoðuninni. Jafnréttisráð hefur heimild til að leita til starfsfólks háskólans og utanaðkomandi sérfræðinga um ráðgjöf og álit ef ástæða þykir til.

Ráðið skal fjalla að minnsta kosti einu sinni á ári um stefnuna en einnig skal halda fund innan tveggja vikna eftir að erindi hafa borist ráðinu eða ef aðrar ástæður krefjast álits þess. Ráðinu er heimilt að stofna starfshóp um stefnuna og endurskoðun hennar ef þurfa þykir.

Hlutverk jafnréttisráðs í þessu tilliti er meðal annars:

 • Að hafa yfirlit yfir málefni nemenda og starfsfólks við HA með sérþarfir vegna skerðingar, veikinda, eða sértækra örðugleika.
 • Hafa greinargóða sýn yfir störf þeirra sem koma að þessum málaflokki og styðja við störf þeirra.
 • Að undirbúa og fylgja eftir framkvæmd á stefnu háskólans um jafnt aðgengi að námi og störfum.
 • Að vinna að lausn ágreinings sem upp kann að koma og til ráðsins er vísað, sbr. kvartanir nemenda til gæðastjóra VLR-005.
 • Að gangast fyrir reglubundinni endurskoðun á þessari stefnu háskólans og afla tölulegra upplýsinga.
 • Að hvetja til fræðslu um jafnt aðgengi að námi og störfum til að draga úr aðstöðumun vegna skerðingar eða sértækra örðugleika.
 • Að fylgja því eftir að aðgengi á háskólasvæðinu sé í samræmi við stefnu þessa og gera tillögur um úrbætur sé þess þörf.
 • Að fylgjast með nýmælum sem varða málaflokkinn og hvernig umsýslu um hann er háttað við aðra háskóla.

Nemanda sem telur sig hafa orðið fyrir misrétti eða sættir sig ekki við þau úrræði sem náms- og starfsráðgjöf eða yfirmaður viðkomandi starfseiningar hafa boðið er bent á VLR-005 sbr. hér að ofan.

Starfsmanni sem telur sig hafa orðið fyrir misrétti eða sættir sig ekki við þau úrræði sem yfirmaður hefur boðið er heimilt að leita álits hjá ráðinu. Jafnréttisráð fjallar um mál hans og leitar upplýsinga um það hjá viðeigandi aðilum ef með þarf. Sé mál starfsmannsins þá þegar til meðferðar hjá öðrum einingum innan háskólans skal álit ráðsins sent þeim sem hefur með málið að gera.

Jafnréttisráð endurskoðar ekki ákvarðanir sem teknar eru innan deilda eða annarrar stjórnsýslu. Sé starfsmaður ekki sáttur við niðurstöðu getur viðkomandi vísað málinu til háskólaráðs. Háskólaráð, rektor, kennsludeildir og stjórnsýslusvið geta óskað eftir áliti jafnréttisráðs í einstökum tilvikum og skal þá fyllsta trúnaðar gætt og farið með slíkar upplýsingar í samræmi við lög um persónuvernd. Um málsmeðferð af þessu tagi gilda ákvæði stjórnsýslulaga.

3.2. Ábyrgð og framkvæmd

Forsetar fræðasviða og forstöðumenn stjórnsýslusviða bera daglega ábyrgð á framkvæmd stefnunnar en háskólaráð og rektor bera endanlega ábyrgð á framkvæmdinni. Yfirmenn deilda sjá um að úrræðum sé framfylgt.

Náms- og starfsráðgjöf HA hefur umsjón með daglegu starfi gagnvart nemendum. Náms- og starfsráðgjöf gerir tillögur um úrræði sem byggð eru á faglegu áliti sérfræðings í hverju tilviki, í nánu samráði við nemanda. Einnig fylgir náms- og starfsráðgjöf eftir úrræðum í samvinnu við þá sem að málinu koma.

Forsetar fræðasviða og forstöðumenn stjórnsýslusviða bera ábyrgð á málefnum starfsfólks.

Framkvæmdastjórn og fasteignasvið bera ábyrgð á að aðgengi að húsnæði uppfylli settar kröfur og að ráðist sé í nauðsynlegar umbætur, bæði á húsnæði og á háskólasvæðinu í heild. Þessir aðilar sjá einnig um að forgangsraða verkefnum og gera áætlanir um frekari úrbætur á aðgengismálum. Sviðinu ber að tryggja að hugað sé sérstaklega að jöfnu aðgengi við hönnun nýbygginga, í samráði við sérfræðinga og notendur.

Gagnasmiðja og bókasafn bera ábyrgð á að viðeigandi úrræði séu í boði á hverjum tíma, í samráði við náms- og starfsráðgjöf og aðra sérfræðinga.

Gildissvið

Forsenda þess að nemandi fái sérúrræði er að hann leggi fram málsgögn (greiningu sérfræðings) og undirriti samning, í samráði við náms- og starfsráðgjöf. Skilyrði fyrir veitingu sértækra úrræða er að nemandi hafi verið skráður til náms en það er þó ekki skilyrði fyrir málsmeðferð að hlutaðeigandi hafi fengið slíka skráningu. Því geta væntanlegir nemendur við háskólann fengið upplýsingar um þau úrræði sem tiltæk eru eða hugsanlega er hægt að bjóða.

Stefnan tekur einnig til þeirra sem óska eftir skrásetningu skv. 30. gr. í reglugerð fyrir Háskólann á Akureyri. Að auki tekur hún til starfsmanna sem búa við skerðingu eða veikindi til lengri tíma.

4. Þjónusta og starfshættir

Hér á eftir fer lýsing á þjónustu og starfsháttum sem lúta að nemendum annars vegar og starfsfólki hins vegar. Standi val á milli ólíkra úrræða sem veita nemendum eða starfsfólki sambærilegan stuðning áskilur HA sér rétt til að velja á milli þeirra, enda sé tekið mið af greindum þörfum viðkomandi.

4.1. Nemendur

Skrásetning
Umsóknir um skrásetningu eru metnar á grundvelli inntökuskilyrða þeirra námsleiða sem valdar eru. Ákvarðanataka um veitingu sértækra úrræða fer fram óháð umfjöllun um skráningu umsækjenda.

Væntanlegir nemendur geta óskað eftir og fengið greinargóðar upplýsingar um aðgengi að byggingum og háskólasvæðinu sem og þeim stuðningsúrræðum sem fyrir hendi eru og hugsanlega er unnt að veita. Háskólanum ber skylda til að upplýsa nemendur með sérþarfir í námi um rétt þeirra á öllum stigum námsins. Háskólinn hefur jafnframt frumkvæði að kynningu á þessum atriðum innan stofnunarinnar með því að birta upplýsingar á heimasíðu sinni.

Ábyrgðaraðilar innan háskólans skulu grípa til eðlilegra ráðstafana til að tryggja að nemendum með sérþarfir sé kleift að taka í þátt í náminu. Dæmi um slíkar ráðstafanir eru gerð stundaskrár, staðsetning fyrirlestra og prófa og aðrar sértækar lausnir.

Yfirlit yfir skipulag og ferli sértækra úrræða er að finna í kafla 4.2.

Staðfest greining á sérþörfum
Nemandi sem óskar eftir sértækum úrræðum skal snúa sér til náms- og starfsráðgjafar HA sem hefur umsjón með þjónustu við nemendur með sérþarfir í námi. Forsenda þess að úrræði séu veitt er að fyrir liggi faglegt mat sérfræðings um námsþarfir nemandans á grundvelli skerðingar eða veikinda. Einnig er hægt að fara fram á að nemendur sem verða fyrir áföllum á námstíma leggi fram vottorð frá viðeigandi sérfræðingi þar sem breyttar forsendur til þess náms er þeir eru skráðir í eru metnar.

Mat á þörf fyrir úrræði
Háskólinn veitir nemendum úrræði á grundvelli fyrirliggjandi mats. Í sérstökum undantekningartilvikum áskilur HA sér rétt til að synja nemanda um úrræði enda liggi fyrir að innihald, uppbygging eða framsetning þess náms sem nemandinn hefur valið sé þess eðlis að honum sé fyrirsjáanlega ókleift að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í náminu.

HA getur einnig synjað nemanda um úrræði ef skólinn telur ógerlegt að veita þau úrræði sem talin eru nauðsynleg til að nemandinn geti stundað námið, svo sem að útvega aðstöðu eða aðstoðarfólk.

Að undanskildu skrásetningargjaldi HA er þjónusta skólans og þau sérúrræði sem hann býður uppá nemendum að jafnaði að kostnaðarlausu. Háskólinn styrkir þó nemendur ekki til tækja- eða bókakaupa og greiðir ekki fyrir þau vottorð sem kann að verða óskað eftir.

Samkomulag um sértæk úrræði
Náms- og starfsráðgjöf gerir fyrir hönd HA skriflegan samning um þjónustuna þar sem tilgreindar eru þær skuldbindingar sem nemandinn og háskólinn gangast undir.

Náms- og starfsráðgjöf sér einnig um skráningar einstakra mála í rafrænt skráningarkerfi. Þessum gagnagrunni er aðgangsstýrt. Skráningin inniheldur meðal annars skýringar á ástæðum fyrir veitingu úrræða og lýsingu á þeirri þjónustu sem veitt er. Einnig getur skráningin innihaldið dagbók yfir viðtöl við nemandann og yfirlit yfir ákvarðanir sem teknar hafa verið. Gögn sem varða sérúrræði og undanþágur eru geymd í vörslu námsráðgjafar.

Þegar tilefni er til, annað hvort að ósk nemanda eða háskólans, er rúm fyrir endurskoðun á samningnum. Hirði nemandi ekki um að uppfylla sinn þátt í samningnum áskilur háskólinn sér rétt til að synja honum um úrræði.

Verði misbrestur á því að háskólinn uppfylli sinn hluta samningsins getur nemandinn kvartað eftir þeim leiðum sem tilgreindar eru í kvörtunarferli fyrir nemendur í gæðahandbók HA. Meðferð upplýsinga Náms- og starfsráðgjöf HA varðveitir trúnaðarupplýsingar um nemendur með sérþarfir í námi.

Náms- og starfsráðgjöf sér um að miðla nauðsynlegum trúnaðarupplýsingum til þess starfsfólks sem kemur að framkvæmd úrræða. Trúnaðarupplýsingar eru einungis veittar þegar framkvæmd úrræða krefst þess og þá aðeins að nemandi hafi skrifað undir áðurnefndan samning um þjónustu.

4.2 Yfirlit um skipulag og ferli sértækra úrræða

 

4.3. Málefni leshamlaðra

Leshömlun segir ekki til um námshæfileika og ber að líta á hana sem sértæka námsörðugleika. Því leggur HA áherslu á að byggja upp styðjandi námsumhverfi fyrir þessa nemendur sem og aðra.

Þjónusta við leshamlaða
Háskólinn kynnir þjónustu við leshamlaða á heimasíðu sinni. Henni eru einnig gerð skil á kynningum háskólans um námsframboð og almenna stoðþjónustu. Náms- og starfsráðgjafi sér um þjónustuna og leiðbeinir nemendum með leshömlun.

Nemendur með leshömlun skulu eiga kost á þjónustu á námstíma. Sú þjónusta er þarfagreind og unnin með hverjum og einum nemanda sem eftir henni sækist. Þjónustan getur verið í formi sérstakra námskeiða, sérúrræða vegna náms og persónulegrar ráðgjafar.

Beiðni um þjónustu
Umsækjendum um nám við HA er gefinn kostur á að merkja í sérstakan reit á umsóknareyðublaði háskólans. Hafi umsækjandi merkt í viðkomandi reit boðar námsog starfsráðgjafi hann í viðtal til að ræða um þarfir hans fyrir stuðning og ráðgjöf. Nemendur sem þegar hafa hafið nám geta einnig óskað eftir ráðgjöf hjá náms- og starfsráðgjafa. Óski nemandi eftir þjónustu vegna kennslu og próftöku þarf að liggja fyrir greining á vandanum.

Námskeið
Á hverju hausti býður HA nemendum sínum að taka þátt í námskeiðum í námstækni og kvíðastjórnun. Fyrir þessi námskeið þarf að greiða sérstaklega. Námskeiðin fara fram á Akureyri en fjarnemum gefst kostur á að skrá sig í námskeið um námstækni. Á hverju hausti sér gagnasmiðja um kynningu fyrir nemendur á þeim tæknibúnaði sem fyrir hendi er varðandi sértæk námsúrræði.

Lenging námstíma
Allir nemar háskólans eiga þess kost að lengja námstíma sinn um helming án sérstakra leyfa. Með þessu móti getur þriggja ára nám orðið fjögur og hálft ár. Hægt er að sækja um frekari breytingar á námshraða til deildar en þær breytingar eru háðar reglum deilda um námsframvindu.

Sérúrræði vegna náms
Sérúrræði felur í sér breytingar frá almennu vinnulagi. Má nefna upptökur á fyrirlestrum, glærur og minnispunkta frá kennara, skönnun texta í tölvutækt form, ítarlegri leiðsögn en almennt gerist, breyttar kröfur um réttritun, frávik frá vinnuhraða og verkefnaskilum, notkun ýmissa hjálparforrita, lengri skilafrest á bókum og öðrum gögnum í bókasafni og próf og próftöku.

Persónuleg ráðgjöf
Háskólinn býður upp á persónulega ráðgjöf fyrir leshamlaða nemendur. Náms- og starfsráðgjafi skipuleggur og hefur umsjón með slíkri ráðgjöf. Ráðgjöfin getur verið vegna streitu, sjálfsmyndar, þunglyndis, kvíða, frestunar, samskipta við nemendur og kennara o.fl. Einnig getur náms- og starfsráðgjafi haft forgöngu um myndun sjálfshjálparhópa leshamlaðra nemenda.

Aðgengissetur
Nemendur með leshömlun geta haft aðgang að sérhæfðum hugbúnaði í aðgengissetrinu. Þessi hugbúnaður miðar að því að auðvelda þeim nám og njóta nemendur þar aðstoðar starfsfólks gagnasmiðju. Þjónustan er í stöðugri þróun og tekur mið af nýjungum í þeim hugbúnaði og tækjakosti sem tiltækur er hverju sinni.

Bókasafn
Bókasafn HA býður leshömluðum nemendum þjónustu sem tekur mið af sértækum þörfum þeirra. Þar má nefna sérstaka ráðgjöf við heimildaleit, lengri útlánatíma bóka og milligöngu um útvegun hljóðbóka.

Próf og próftaka
Háskólinn á Akureyri veitir leshömluðum nemendum ívilnanir vegna prófa án þess að dregið sé úr kröfum varðandi námsárangur. Náms- og starfsráðgjafi skipuleggur þær aðgerðir í samráði við nemandann og prófstjóra, sem og við kennara þar sem það á við. Til dæmis getur verið um að ræða lengdan próftíma, próftöku í fámenni, stækkað letur, litaðan grunn, tölvunotkun og upplestur leiðbeininga.

Greiningar
Stuðningur við leshamlaða nemendur er háður því að þeir leggi fram skýrslu um greiningu frá sérkennara eða sálfræðingi til náms- og starfsráðgjafa HA. Þessi skýrsla má mest vera fimm ára gömul. Að öðrum kosti þarf endurmat að fara fram.

Í slíkum skýrslum þarf að tiltaka hvaða greiningartæki var stuðst við, leggja mat á eðli lestrarvandans og gera góða grein fyrir styrkleika og veikleika viðkomandi nemanda varðandi lestur og lestrarerfiðleika.

Skýrslan á að geta um helstu úrræði fyrir viðkomandi í námi og annan stuðning sem greiningaraðili telur nauðsynlegt að skólinn grípi til svo námið megi nýtast honum/henni sem best.

Nemandi afhendir náms- og starfsráðgjöf HA afrit af greiningarskýrslu. Í kjölfarið mun samtal eiga sér stað um þá aðstoð sem háskólinn telur sér unnt að veita viðkomandi nemanda.

4.4. Starfsfólk

Umboð til athafna og ákvarðana
Starfsfólk sem býr við skerðingu eða veikindi til lengri tíma skal óska skriflega eftir aðstoð vegna ástands síns eða breyttra forsenda til að hljóta þá þjónustu sem í boði er.

Beiðnina skal senda til forseta fræðasviða eða forstöðumanna stjórnsýslusviða og skal rökstuðningur fylgja. Þessir aðilar bera jafnframt ábyrgð á því leiðbeina starfsfólki um úrræði og leiðir og sjá til þess að þörfum þeirra sé mætt með viðeigandi hætti. Starfsþróunarviðtöl skulu meðal annars nýtt í þessu skyni.

Forsetar fræðasviða og/eða forstöðumenn stjórnsýslusviða eru bundnir trúnaði varðandi efni og innihald beiðna starfsfólks.

Mat á þörf og úrræðum
Háskólinn veitir starfsfólki sem þarf sértæk úrræði vegna skerðingar eða veikinda aðstoð í samræmi við mat á þörf fyrir slík úrræði. Forsenda þess að úrræði séu veitt er að fyrir liggi faglegt mat sérfræðings. Reynsla starfsfólks og mat þess á þörf fyrir úrræði er þó í vissum tilvikum tekið fullgilt og þá ekki krafist utanaðkomandi staðfestingar.

Úrræði til að jafna aðstöðu starfsfólks
Háskólinn veitir starfsfólki að kostnaðarlausu aðstoð og úrræði sem auðveldar því eða gerir því kleift að sinna starfi sínu. Kalla má til öryggisnefnd/öryggistrúnaðarmann starfsmanna til samráðs og ráðgjafar (sbr. lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum 1980 nr. 46).

Úrræði fyrir starfsmenn sem búa við skerðingu geta til dæmis tekið til eftirfarandi þátta:

 • Aðgengi að háskólabyggingum og svæðum (samanber reglur um húsnæði vinnustaða)
 • Vals á hentugu skrifstofuhúsnæði
 • Sérbúnaðar á skrifstofu
 • Tölvu- og tæknitengdra hluta
 • Yfirlesturs skjala
 • Stuðningsviðtala
 • Sveigjanleika í vinnutíma
 • Aðstoðar við framkvæmd ýmissa viðfangsefna

5. Lokaorð

Með jafnræði að leiðarljósi er brýnt að huga að leiðum til að auðvelda aðgengi og þátttöku nemenda og starfsfólks sem búa við fötlun eða skerðingu í námi og starfi.

Hér hefur verið leitast við að setja fram skýr viðmið og tilgreina boðleiðir og verklag sem til hagsbóta geta talist.

Í flestum tilvikum er að auki brýnt að gera einstaklingsbundna aðgerðaráætlun þar sem lýst er ítarlega leiðum sem stuðla að hentugum lausnum hverju sinni.

Allir ferlar þurfa að vera nemendum og kennurum ljósir. Þannig skal skapa aðstæður við Háskólann á Akureyri sem gera nám og störf án aðgreiningar að veruleika.