Innkaupastefna

Innkaupastefna Háskólans á Akureyri var uppfærð og samþykkt af háskólaráði 2. mars 2022

Gildissvið:

Innkaupastefna þessi byggir á gildandi lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup og innkaupastefnu ríkisins, sem gefin var út af fjármála- og efnahagsmálaráðuneytinu í janúar 2021.

Markmið

Meginmarkmið stefnunnar er að tryggja að öll innkaup séu eins hagkvæm, einföld og gagnsæ og kostur er. Ávallt skal leitað eftir bestu mögulegu niðurstöðu að teknu tilliti til skilgreindra þarfa, kostnaðar, gæða, rekstrarkostnaðar, umhverfissjónarmiða og kostnaði við förgun. Taka skal einnig tillit til óbeins kostnaðar vegna innkaupa. Til að ná markmiðinu ætlar Háskólinn á Akureyri meðal annars að gera eftirfarandi:

  • Að leita ávallt hagstæðustu leiða við öll innkaup.
  • Að nýta rammasamninga Ríkiskaupa, þar sem það á við.
  • Að gera ávallt verðsamanburð eða leita tilboða á innkaupum undir 5 mkr.
  • Að gera verðkannanir með örútboði í öll innkaup á vörum og þjónustu yfir 5 mkr.
  • Að bjóða út kaup á vörum og þjónustu yfir 15,5 mkr.
  • Að nýta sem best kosti rafrænna viðskipta.

Vistvæn innkaup

Vistvæn innkaup fela í sér að velja þá vöru eða þjónustu sem er síður skaðleg umhverfinu eða heilsu manna og ber sama eða lægri líftímakostnað samanborið við aðrar vörur og þjónustu sem uppfylla sömu þarfir.

  • Við veljum umhverfismerktan pappír, prentþjónustu, hreinlætisefni, skrifstofuvörur, salernispappír, húsgögn, og efnavörur.
  • Við innkaup á húsgögnum skal velja tímalausa gæðahönnun sem endist vel þrátt fyrir langa og mikla notkun.
  • Við leigjum kolefnishlutlausa bílaleigubíla þegar þess er kostur en rekum einungis hreinorkubíla.
  • Við veljum plastvörur, til dæmis kapla og skrifstofuvörur, sem eru án PVC.
  • Við veljum orkusparandi vörur svo sem kælitæki, kaffivélar, uppþvottavélar og vatnsvélar og umhverfisvottaðar skrifstofu- og tölvuvörur ef mögulegt er. Við val á tölvum er mikilvægt að velja vélar sem auðvelt er að uppfæra til að lengja líftíma þeirra.
  • Gert er við tæki í stað þess að kaupa ný þegar mögulegt er.
  • Við veljum poka úr endurunnu eða lífrænu plasti og íhugum að draga úr notkun á plastpokum.
  • Við veljum lýsingarbúnað eftir orkusparnaði og líftíma.

Ábyrgð og skipulagning innkaupa

Rektor ber ábyrgð á innkaupum Háskólans á Akureyri skv. lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Rektor felur forstöðumanni reksturs fasteigna á hverjum tíma að vera ábyrgðarmaður innkaupa og hafa yfirumsjón með framkvæmd innkaupa í hans umboði.

Eftirlit og eftirfylgni

Samkvæmt lögum um opinber fjármál nr. 123/2015 hafa fagráðuneyti eftirlit með rekstri stofnana viðkomandi ráðuneytis og fylgjast með að rekstur sé innan fjárheimilda hverju sinni og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt og í samræmi við markmið fjárlaga.

Rektor og ábyrgðarmaður innkaupa meta reglulega árangur af þeim markmiðum sem sett hafa verið og setja sér önnur markmið í ljósi reynslunnar.

Forstöðumaður reksturs fasteigna fylgir eftir við starfsmenn Háskólans á Akureyri að farið sé eftir lögum um opinber innkaup og reglum þar að lútandi