Launastefna Háskólans á Akureyri

Markmið Háskólans á Akureyri er að tryggja starfsfólki sínu samkeppnishæf launakjör, starfsskilyrði og starfsaðstöðu svo háskólinn geti laðað að hæft starfsfólk sem vex og dafnar í starfi. Laun skulu ávallt ákvörðuð á grundvelli hlutlægra og gagnsærra mælikvarða þannig að enginn ómálefnalegur launamunur fyrir sömu eða jafnverðmæt störf sé til staðar. Jafnlaunakerfi skal tryggja samræmi í ákvörðun launa og réttláta launaröðun starfsfólks.

Háskólaráð og rektor bera, sem æðstu stjórnendur, endanlega ábyrgð á launastefnunni. Gæða- og mannauðsstjóri, ber ábyrgð á því að launastefnunni sé framfylgt og að starfsfólk og stjórnendur háskólans þekki til stefnunnar.

Til að framfylgja jafnlaunastefnu skuldbindur háskólinn sig til að skjalfesta, innleiða, viðhalda og bæta stöðugt stjórnun jafnlaunakerfisins í samræmi við kröfur staðalsins og ákvarða hvernig kröfur hans verða uppfylltar. Með jafnlaunakerfinu á það að vera tryggt að launaákvarðanir séu byggðar á málefnalegum sjónarmiðum en feli ekki í sér beina eða óbeina kynjamismunun.


Til þess að framfylgja markmiðum jafnlaunastefnunnar mun háskólinn:

  • Innleiða og viðhalda vottuðu jafnlaunakerfi byggðu á jafnlaunastaðlinum ÍST 85 í samræmi við lög.
  • Staðla verklag við launaákvarðanir með viðeigandi verklagsreglum og leiðbeiningum sem komi í veg fyrir beina eða óbeina kynjamismunun.
  • Framkvæma launagreiningu a.m.k. einu sinni á ári þar sem borin eru saman jafnverðmæt störf og athugað hvort mælist munur á launum eftir kyni og kynna helstu niðurstöður fyrir starfsfólki.
  • Hafa eftirlit með og bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum.
  • Gera innri úttekt og rýna kerfið og árangur þess með stjórnendum árlega.
  • Fylgja viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma.
  • Kynna stefnuna fyrir starfsmönnum háskólans og birta hana á ytri vef.


Jafnlaunastefnan er og mun alltaf verða órjúfanlegur hluti af launastefnu Háskólans á Akureyri.

Samþykkt á fundi háskólaráðs þann 24. október 2019.