Málstefna

Málstefna Háskólans á Akureyri var samþykkti í Háskólaráði 22. febrúar 2008.

Málstefna Háskólans á Akureyri og framkvæmdaáætlun í tengslum við hana byggjast á eftirfarandi gögnum:

  • Viðtölum við deildarforseta Háskólans á Akureyri
  • Viðtölum við stjórnendur annarra háskóla á Íslandi
  • Viðhorfskönnun meðal allra kennara og nemenda Háskólans á Akureyri
  • Málstefnu Háskóla Íslands
  • Gögnum um málstefnu nokkurra erlendra háskóla

Málstefna Háskólans á Akureyri


1. gr.

Tvíþætt hlutverk háskóla

a) Háskólanum ber að rækja skyldur sínar við íslenskt samfélag um uppfræðslu, sköpun og miðlun þekkingar. Háskólinn gerir þær kröfur til sín og starfsmanna sinna að vera til fyrirmyndar um notkun, kennslu og þróun íslenskrar tungu, og efla eftir föngum framlag sitt til íslenskrar menningar.

b) Í annan stað skiptir meginmáli að styrkja hlutverk háskólans í alþjóðlegu samhengi, ástunda kennara- og nemendaskipti og samstarf við erlenda háskóla og fræðslustofnanir, og tryggja framlag skólans til fræðimennsku og þekkingarsköpunar á erlendum vettvangi.

Til að Háskólinn á Akureyri geti sem best sinnt starfi sínu við rannsóknir og kennslu ber að leggja á það áherslu að notkun tungumála innan skólans styðji og endurspegli þetta tvíþætta hlutverk skólans.

2. gr.

Skyldur við íslenskt samfélag

Til að uppfylla skyldur sínar við eigið samfélag skal Háskólinn á Akureyri leitast við að efla notkun íslenskrar tungu á sem flestum sviðum innan skólans.

Í þessu samhengi þurfa nemendur að kunna skil á íslenskum fræðiheitum og leggja sérstaka áherslu á að tileinka sér þau þar sem námskeið eru kennd á ensku eða öðru erlendu tungumáli, enda þurfa þeir að geta talað og skrifað um fræðigreinar sínar á móðurmálinu og stutt þannig fræðsluhlutverk háskólans innan eigin samfélags.

Leggja ber sérstaka áherslu á að málfar í lokaverkefnum nemenda sé vandað og hnökralaust.

3. gr.

Íslenska opinbert tungumál

Háskólinn á Akureyri starfar innan íslensks samfélags, á íslensku málsvæði, og íslenska er opinbert tungumál skólans.

Öll skjöl sem skólinn lætur frá sér fara teljast í frumriti á íslensku, en útgáfur á öðrum tungumálum teljast þýðingar og skal íslenska útgáfan gilda ef málfarslegur ágreiningur kemur upp. Fundir innan stjórnsýslunnar skulu að jafnaði fara fram á íslensku, en fari þeir fram á ensku eða öðru erlendu tungumáli skal þess getið sérstaklega í fundarboði.

Ætlast er til að fastráðnir, erlendir kennarar leggi sig fram um að læra íslensku enda veitir Háskólinn þeim aðstoð í þeim efnum.

Fastráðnir kennarar sem ekki hafa íslensku að móðurmáli skulu innan fimm ára hafa öðlast nægilega færni í tungumálinu til að eiga almenn samskipti, geta setið fundi og geta hagnýtt sér upplýsingar frá stjórnsýslu háskólans.

4. gr.

Þróttmikil alþjóðleg starfsemi

Stuðningur við þátttöku í alþjóðlegri starfsemi felst fyrst og fremst í öflugu hlutverki enskunnar svo og annarra erlendra tungumála (t.d. Norðurlandamála) innan háskólans.

Tryggja verður nægt framboð námsleiða (og jafnvel heilla námsbrauta, sér í lagi í framhaldsnámi) á ensku til að sinna þörfum skiptinema. Jafnframt skal starfsmönnum gefinn kostur á að kenna námskeið á ensku, m.a. til að efla eigin færni og sjálfstraust, svo og nemenda, í notkun þess tungumáls.

Gerðar eru ríkar kröfur um vandað málfar í kennslu á ensku, rétt eins og á íslensku. Háskólinn á Akureyri leggur áherslu á að háskólakennarar séu færir um að fjalla um fræðasvið sín á fleiri en einu tungumáli. Slík umfjöllun veitir betri innsýn í fræðin og skerpir skilning á þeim hugtökum sem koma þarf á framfæri.

Sú meginregla gildir um samspil íslensku og ensku innan háskólans að starfsmenn noti ensku ásamt með íslensku, en ekki í stað hennar.

Háskólinn hefur hag af fjölbreyttri tungumálakunnáttu starfsfólks, t.d. þeirra sem hlotið hafa menntun erlendis, utan hins enskumælandi heims, svo og erlendra starfsmanna er færa skólanum mismunandi móðurmál sín. Slík kunnátta er Háskólanum á Akureyri afar dýrmæt og hvetur til fjölbreyttari starfsemi á alþjóðavettvangi en enskan ein getur leitt af sér.

5. gr.

Málfarslegur stuðningur háskólans

Mikilvægt framlag háskólans til eflingar málnotkunar, fyrst og fremst á íslensku og ensku, felst í víðtækum málfarslegum stuðningi við kennara í nánast öllum störfum þeirra. Háskólinn býður upp á námskeið í íslensku og íslenskri menningu fyrir fastráðna kennara erlendis frá.

6. gr.

Ábyrgð, umsjón og framkvæmd

Rektor ber ábyrgð á málstefnu Háskólans á Akureyri, en deildir hafa umsjón með framkvæmd hennar.

 

Framkvæmd


1. Háskólinn á Akureyri leitar leiða til að bjóða upp á málfarslegan stuðning fyrir starfsfólk sitt, t.a.m. prófarkalestur, þýðingar og námskeið. Markmiðið er að kennarar við háskólann verði til fyrirmyndar um málnotkun, hvort sem um er að ræða íslensku, ensku eða önnur mál.

2. Háskólinn á Akureyri býður erlendum starfsmönnum upp á námskeið í íslenskri tungu og menningu. Kannaðir verða möguleikar á samstarfi við Háskóla Íslands um námsefni og námskeið í íslensku og íslenskri menningu fyrir erlenda kennara.

Kannað verður sérstaklega hvort námskeiðið IcelandicOnline getur nýst Háskólanum á Akureyri með sama hætti og Háskóla Íslands, þ.e. sem einstaklingsmiðað vefefni með leiðbeinanda á staðnum. Mikilvægt er að slíkt námskeið sé kennurum að kostnaðarlausu og að þeir geti stundað námið á dagvinnutíma – eða þegar þeim sjálfum best hentar.

3. Háskólinn á Akureyri hvetur til aukinna kennara- og nemendaskipta. Sérstaklega eru nemendur hvattir til að nýta sér þau tækifæri sem bjóðast til að stunda tímabundið nám erlendis, í tengslum við samninga háskólans þar að lútandi.

4. Háskólinn á Akureyri býður upp á námskeið í íslenskri tungu og menningu fyrir erlenda skiptinema.

5. Háskólinn á Akureyri stuðlar að aukinni þekkingu á fjölmenningu og mismun menningarheima. Í því markmiði beitir háskólinn sér fyrir aukningu og nýsköpun í námi og kennslu á þessu sviði svo og vaxandi þátttöku kennara og nemenda í alþjóðlegu samstarfi.

6. Háskólinn á Akureyri hvetur starfsmenn til að birta rannsóknir á íslensku jafnt sem ensku eða öðrum erlendum málum. Með því er komið til móts við tvíþætt hlutverk háskólans gagnvart íslensku og alþjóðlegu samfélagi.

7. Deildir kynna nýjum starfsmönnum málstefnu Háskólans á Akureyri og þá möguleika sem þeir hafa á málfarslegum stuðningi. Erlendum, fastráðnum starfsmönnum skal sérstaklega bent á námskeið í íslensku og íslenskri menningu.

8. Deildir háskólans sjá til þess að íslenskir nemendur fái fræðilegan orðaforða á íslensku í námi, hvort sem námið fer fram á íslensku eða ensku.

9. Deildir háskólans gera nemendum grein fyrir því að allar lokaritgerðir verða að vera á vönduðu og hnökralausu máli, hvaða tungumál sem notað er.