Áætlun um jafna stöðu kynjanna

Í stefnu Háskólans á Akureyri fyrir árin 2012 - 17 er lögð áhersla á fjögur megingildi: framsækni, jafnrétti, sjálfstæði og traust.

Í samræmi við það hefur hér verið sett fram framsækin áætlun um jafnrétti kynjanna við HA. Jafnréttisstefna HA tekur gildi árið 2017 og gildir til ársins 2020 og þá verður hún endurskoðuð.

 Leiðarljós og heildarmarkmið

Markmið Háskólans á Akureyri er að tryggja jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla í allri starfsemi skólans. Þetta á við nemendur, starfsfólk, stjórnendur og þau sem koma að starfseminni á annan hátt. Í þessum tilgangi var lögð mikil vinna í að kortleggja stöðu kynjanna árið 2008 og setja fram áætlun með tímasettum markmiðum fyrir árin 2009 til 2012. Þeirri vinnu er hér fylgt eftir með mati á árangri þeirrar áætlunar og nýrri áætlun. Gerðar hafa verið ýmsar rannsóknir og kannanir á stöðu kynjanna á tímabilinu 2009 til 2013, bæði á vegum HA og annarra, og hér er stuðst við niðurstöður þeirra, m.a. í jafnlaunakönnun HA frá mars 2013 (sjá lið 3).

Háskólinn á Akureyri mun áfram vinna að ofangreindu markmiði með því að flétta kynjasjónarhornið í alla stefnumörkun og ákvarðanir, en mun auk þess nýta tímabundnar sértækar aðgerðir til að leiðrétta ójafna stöðu þar sem enn má finna veika hlekki. Áætlun þessi tekur gildi í júní 2017 og gildir til 31. desember 2020. Hún skal endurskoðuð um mitt tímabilið, þ.e. í lok árs 2019, og þá sérstaklega metið hvað hefur áunnist.

 Um jafnréttisáætlunina

Þessi áætlun tekur eingöngu til jafnréttis og jafnrar stöðu kynjanna, en leggur áherslu á að samþætta kynjasjónarmiðið öðrum sjónarmiðum við stefnumörkun, ákvörðunartöku og framkvæmdir. Hún er í samræmi við þær hugmyndir og kröfur sem fram koma í lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla nr.10/2008, sem samþykkt voru á Alþingi 26. febrúar 2008 og tóku gildi 18. mars 2008.

Áætlunin er í samræmi við aðrar stefnur og áætlanir HA sem ætlað er að tryggja jafna stöðu starfsfólks og nemenda, s.s. stefnu um jafnt aðgengi að námi og störfum við HA, starfsmannastefnu HA, málstefnu og Stefnu Háskólans á Akureyri 2012 til 2017. Jafnréttisráð háskólans fer með umsjón og eftirfylgni áætlunarinnar í samráði við yfirstjórn. Lögð er áhersla á sameiginlega ábyrgð allra stjórnenda HA varðandi frumkvæði að því að sinna jafnréttismálum almennt.

Í síðustu áætlun, sem tók gildi 2009, voru sett fram mörg markmið, sum sjálfsögð og önnur mjög framsækin. Hafa sum þeirra náðst, önnur ekki. Þar var m.a. lögð áhersla á að rannsaka frekar ástæður þess mismunar sem þá fannst á stöðu kynjanna. Þessi áætlun byggir á þeim grunni og eins og áður er sett fram aðgerðaáætlun með tímasettum markmiðum þegar það á við. Þar er skýrt tekið fram hver ber ábyrgð á hverjum verkþætti. Í sumum tilvikum er um að ræða að viðhalda jafnvægi og jafnri stöðu þar sem hún hefur náðst, í öðrum tilvikum þarf sérstakar aðgerðir til að ná jafnri stöðu. Auk þeirra grundvallaratriða sem krafa er gerð um í lögum og taka til launa, stöðuveitinga, kynjaskiptingar starfa, kynbundis ofbeldis, kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni og kynjajafnvægis meðal nemenda, er horft lengra og settar fram hugmyndir að leiðum til að Háskólinn á Akureyri verði í fararbroddi meðal þeirra sem vilja hafa áhrif á samfélagið í átt til aukins jafnréttis og jafnrar stöðu kynjanna.

Markmið og aðgerðir

Aðgerðaáætlun þessi fjallar um jafnrétti kynjanna meðal starfsfólks og nemenda, og kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunartöku skólans og innihaldi námsins. Í þessum kafla eru sett fram ákveðin markmið í átta liðum og aðgerðir sem eru til þess ætlaðar að stuðla að því að markmiðunum verði náð. Sérhvert markmið byggir á upplýsingum um stöðuna á því sviði og er sett í samráði við stjórnendur og starfsfólk þar. Aðgerðir eru tímasettar þar sem við á og ábyrgðaraðili ákveðinn.  

I. Stjórnun jafnréttismála, fræðsla og kynjasamþætting

1. Ábyrgð og stjórnun jafnréttismála

Yfirstjórn Háskólans á Akureyri, rektor, háskólaráð og framkvæmdastjórn, bera meginábyrgð á framgangi þessarar áætlunar en geta falið öðrum s.s. öðrum stjórnendum, jafnréttisráði HA, eða einstökum starfsmönnum umsjón hennar og eftirfylgni.

Áætlun sem þessi er mun líklegri til að bera árangur ef henni er fylgt eftir af jafnréttisráði sem hefur tileinkað sér fagþekkingu á jafnrétti kynjanna og sem hefur ábyrgð og völd til að grípa inn í ef brotið er gegn áætluninni eða jafnréttislögum. Viðkomandi ráð verður að hafa þá stöðu að geta beitt sér gagnvart rektor og háskólaráði ef ákvæðum áætlunarinnar er ekki fylgt eftir, s.s. tímasettum markmiðum.

1.1. Jafnréttisráð

Sérskipað jafnréttisráð fer með umsjón áætlunarinnar og vinnur að því að ákvæði hennar verði samþætt við annað starf að jafnrétti við Háskólann á Akureyri. Ráðið er skipað einum fulltrúa frá hverju fræðasviði, einum frá háskólaskrifstofu og skrifstofu rektors, einum fulltrúa FSHA og einum fulltrúa sem rektor tilnefnir sem jafnframt er formaður ráðsins. Karl og kona skulu tilnefnd í hvert sæti og sitji annað sem aðalfulltrúi en hitt til vara og skal rektor tryggja að kynjahlutföll séu sem jöfnust (þ.e. 40/60%).

Jafnréttisráð skal að öllu jöfnu funda mánaðarlega og ekki sjaldnar en fimm sinnum á ári. Á hverju ári skulu forsetar fræðasviða, forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs og framkvæmdastjóri mæta á fund ráðsins, þar sem farið er yfir stöðu jafnréttismála í skólanum í heild og á hverju fræðasviði. Þá skal meta hvernig verkefnum áætlunar þessarar miðar áfram og grípa til nauðsynlegra ráðstafana eða endurskoðunar ef ekki miðar sem skyldi.

Hlutverk ráðsins snýr fyrst og fremst að jafnrétti kynjanna og eftirfylgni þessarar áætlunar, en ráðið sér einnig um eftirfylgni og framkvæmd Stefnu um jafnt aðgengi að námi og störfum í HA.
Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. jafnréttislaga þá er hlutverk jafnréttisráðs að fylgja eftir að kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð. Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. jafnréttislaga skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál með áherslu á þátttöku í samfélaginu s.s. í fjölskyldu og atvinnulífinu. Jafnréttisráð HA gætir þess að þessari fræðsluskyldu sé framfylgt. Samkvæmt 3. mgr. 23. gr. jafnréttislaga skal Jafnréttisráð gæta þess að kennsla og námsgögn séu þannig að kynjum sé ekki mismunað.
Samkvæmt. 5. mgr. 23. gr. jafnréttislaga sem fjallar um menntun og skólastarf þá hafa skólar ákveðna skyldu til að efla rannsóknir á stöðu kynjanna í íslensku samfélagi og miðla niðurstöðum markvisst innan skólastarfsins og til fjölmiðla. Þessu mun jafnréttisráð fylgja eftir með því að sjá til þess að birt verði og uppfært reglulega yfirlit yfir kynjarannsóknir sem hafa verið stundaðar við HA.

Jafnréttisráð birtir samantekt á starfsemi ráðsins í ársskýrslu HA.

Tími: Jafnréttisráð er nú þegar skipað á ofangreindan hátt og er skipað til tveggja ára í senn í samræmi við reglur.
Ábyrgð: Rektor ber ábyrgð á skipan jafnréttisráðs og störfum ráðsins.

1.2. Jafnréttisfulltrúar

Fulltrúar í jafnréttisráði gegna hlutverki jafnréttisfulltrúa, hver gagnvart sínum umbjóðanda (fræðasviðum, háskólaskrifstofu og FSHA). Þeir skulu, sér að kostnaðarlausu, sækja námskeið um jafnrétti kynjanna og samþættingu kynjasjónarmiða (sjá lið 2.1. hér á eftir). Þá skulu þeir hafa yfirsýn yfir stöðu starfsfólks og nemenda á sínu sviði. Einnig skulu þessir fulltrúar vera í virkum tengslum við Jafnréttisstofu og jafnréttisráðgjafa menntamálaráðuneytis, sbr. 23. gr. jafnréttislaga. Hlutverk jafnréttisfulltrúa er að hvetja til þess að áætlun þessi verði virk og að vera tengiliður milli starfsfólks og nemenda annars vegar og jafnréttisráðs og yfirstjórnar hins vegar. Til að svo megi verða skulu þau sem gegna hlutverkinu hverju sinni vera undanþegin einhverjum öðrum þeim verkefnum sem að jafnaði tilheyra þeirra störfum, til að svo megi verða skal leitað til viðkomandi sviðsforseta.

Tími: Jafnréttisfulltrúar skulu vera búnir að sækja námskeið og vera virkir í starfi sínu innan þriggja mánaða frá skipan nýs ráðs.
Ábyrgð: Rektor, sviðsforsetar og jafnréttisráð.

2. Kynjasamþætting í stjórnsýslunni

Kynja- og jafnréttissjónarmið skulu samþætt allri starfsemi háskólans, s.s. við stjórnun, kennslu og rannsóknir, og jafnrétti kynja haft að leiðarljósi við stefnumótun, ákvarðanatöku og áætlanagerð, sbr. 17. gr. jafnréttislaga. Kynjasjónarmið verða fléttuð inn í allar námsgreinar sem kenndar eru eftir því sem við á og unnt er (sjá lið 8.2). Fræðsla um jafnréttismál til handa stjórnendum er grunnforsenda þess að samþætting verði árangursrík.

Aðgerðir

2.1. Kynning og fræðsla

Eftir samþykkt áætlunarinnar skal hún kynnt öllum stjórnendum skólans á sérstöku námskeiði eða fundi. Það skal tryggt á hverjum tíma að stjórnendur skólans og fulltrúar í jafnréttisráði (sbr. 1.2) hafi grundvallarþekkingu á aðferðarfræði kynjasamþættingar, á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og öðrum opinberum skuldbindingum sem lúta að jafnrétti kynjanna. Til að tryggja það skal reglulega halda námskeið fyrir fulltrúa í ráðinu, auk annarra stjórnenda. Þá skal tryggt að jafnréttisstefna skólans og áhersluþættir úr áætluninni séu sýnileg á vefsíðu skólans og í öllu kynningarefni.

Tími: Innan þriggja mánaða frá samþykkt háskólaráðs og Jafnréttisstofu.
Ábyrgð: Rektor, jafnréttisráð og framkvæmdastjórn, forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs.

2.2. Kynjasamþætting - gátlisti

Öll fræðasvið, stofnanir og stjórnsýsla háskólans skulu samþætta jafnréttis- og kynjasjónarmið inn í starfsemi sína. Þegar unnið er að stefnumótun eða mikilvægar ákvarðanir teknar skal ávallt huga að því taka mið af þörfum og viðhorfum beggja kynja og greina afleiðingar stefnu og aðgerða með tilliti til jafnréttis.
Útbúa skal sérstakan gátlista sem einfaldar og auðveldar þetta ferli og fá til verksins sérfræðing á sviði jafnréttismála.

Tími: Gátlistinn skal tilbúinn og kynntur fyrir starfsfólki haustið 2017 og kominn
reglulega notkun í nefndum og ráðum og á öllum sviðum skólaárið 2017 - 2018.
Ábyrgð: Framkvæmdastjórn

2.3. Áætlanir einstakra sviða og stofnana

Fræðasviðin, öll svið háskólaskrifstofu, skrifstofa rektors og undirstofnanir HA skulu setja fram áætlun um það hvernig þau hyggjast vinna að því að ná auknu jafnvægi kynja á sínu sviði. Áætlunin skal taka til málefna starfsfólks og nemenda, auk uppbyggingar námsins. Aðgerðir og markmið skulu tímasett.

Tími: Nýjar áætlanir til fjögurra ára skulu lagðar fyrir jafnréttisráð HA til umsagnar
á vormisseri 2018.
Ábyrgð: Rektor, forsetar fræðasviða og forstöðumenn.

2.4. Kyngreindar upplýsingar

Framkvæmdastjórn og gæðaráð skulu, í samráði við skrifstofustjóra fræðasviða, forstöðumenn stofnana og sviða háskólaskrifstofu tryggja að tölulegar upplýsingar séu kyngreindar þegar við á og að þær liggi fyrir á heimasíðum deilda, stofnana og stjórnsýslusviða. RHA og aðrar rannsóknastofnanir á vegum HA skulu leggja áherslu á að kyngreina niðurstöður í sínum rannsóknum.

Tími: Í lok árs 2018 skulu allar upplýsingar sem liggja til grundvallar í þessari
ætlun vera kyngreindar og auðfundnar.
Ábyrgð: Framkvæmdastjórn og gæðaráð.

2.5. Almenn fræðsla og ráðgjöf um jafnréttismál

Allt starfsfólk og nemendur háskólans skulu eiga kost á og vera hvött til að sækja fræðslu og ráðgjöf um jafnrétti kynja og kynjasamþættingu ár hvert. Þar skal einnig kynna meðferð mála sem varða kynbundna og/eða kynferðislega áreitni og kynbundið ofbeldi. Á námskeiðum fyrir nýtt starfsfólk og í velgengnisviku nemenda í upphafi hvers skólaárs skal kynna þessa áætlun ítarlega.

Tími: Vormisseri 2018 og síðan í byrjun hvers skólaárs.
Ábyrgð: Jafnréttisráð, markaðs- og kynningarsvið.

2.6. Jafnrétti kynja í minnihlutahópum

Sérstök áhersla skal lögð á að tryggja að kynjamisrétti viðgangist ekki í þeim hópum sem kunna að búa við annars konar misrétti, s.s. vegna fötlunar, litarháttar eða þjóðernis, kynhneigðar, trúar eða annarra þátta.
Í tengslum við eftirfylgni stefnu um jafnt aðgengi að námi og starfi í HA, málstefnu o.fl. skal ávallt hafa í huga að staða kvenna og karla í minnihlutahópum kann að vera ólík og gæta þess að huga sérstaklega að því kyni sem á hallar hverju sinni.

Tími: Stefnt er að ljúka fyrstu úttekt á jöfnu aðgengi fyrir árslok 2018.
Ábyrgð: Gæðaráð og jafnréttisráð.

II. Aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna meðal starfsfólks og stjórnenda

3. Laun starfsfólks

 

Staða

Könnun sem RHA framkvæmdi 2013 leiddi í ljós að lítill munur er á launastöðu kynjanna að teknu tillit til þeirra þátta sem vitað er að hafa áhrif á launamun, s.s. aldurs, starfsaldurs, menntunar, starfs, stöðu, skipulagseiningar, tegundar ráðningar og vinnutíma. Eftir slíka "leiðréttingu" eru konur með 1,4% lægri heildarlaun en karlar og 0,4% lægri grunnlaun. Þessi niðurstaða er sérlega ánægjuleg m.t.t. þess að kannanir BHM og BSRB frá svipuðum tíma sýna mun meiri óútskýrðan launamun . Hins vegar er mikill munur á raunlaunum kvenna og karla og sá munur er meiri á sumum sviðum, einnig þegar horft er til lóðréttrar skiptinga starfa. Mikilvægt er að skilja til hlýtar hvað veldur og vinna áfram að því að auka jöfnuð í launastöðu kynjanna.

Markmið

Engin kynbundin launamismunun skal finnast innan Háskólans á Akureyri.

Aðgerðir

3.1. Rannsókn

Rannsókn þar sem horft er á orsakir heildarlaunamunar kynjanna er nauðsynleg til að hægt sé að hafa áhrif á þróunina. Rannsóknin skal framkvæmd af aðila sem ekki er tengdur HA.

Tími: Rannsókninni verði lokið eigi síðar en í lok árs 2019.
Ábyrgð: Jafnréttisráð og framkvæmdastjórn.

3.2. Áætlun um að útrýma kynbundnum launamun

Þótt kynbundinn launamunur sé útskýranlegur og feli ekki í sér beina mismunun þarf nú þegar að setja fram áætlun á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um leiðir til að vinna markvisst að því að jafna laun kvenna og karla í heild. Sú áætlun skal endurskoðuð þegar niðurstöður ofangreindrar rannsóknar liggja fyrir.

Tími: Áætlunin skal vera tilbúin í maí 2018 og endurskoðuð fyrir ágústlok 2019
Ábyrgð: Framkvæmdastjórn og forstöðumenn stofnana.

3.3. Jafnlaunastaðall og –vottun

Háskólinn á Akureyri skal taka upp notkun jafnlaunastaðals í samræmi við lög og sækja um vottun hjá viðeigandi aðila þegar það verður hægt.
Tími: Sótt skal um nýtingu staðalsins og gera nauðsynlegar ráðstafanir eins og lög gera ráð fyrir.
Ábyrgð: Framkvæmdastjóri, gæðastjóri og formaður jafnréttisráðs.

4. Kynjaskipting starfa

 

Staða

Töluvert kynjamisvægi er enn í starfshópi HA, bæði lóðrétt (varðandi stjórnunarstöður) og lárétt (á hverju sviði). Kynin raða sér á ólík svið, karlar eru í miklum meirihluta í hópi starfsfólks Viðskipta- og raunvísindasviðs, á meðan konur eru mun fleiri en karlar á Heilbrigðisvísindasviði. Á Hug- og félagsvísindasviði er staðan hins vegar nokkuð jöfn. Þetta endurspeglast svo í nemendahópnum. Karlar eru enn í töluverðum meirihluta meðal stjórnenda en konur þegar horft er á lóðrétta skiptingu starfa. Um 30% þeirra karla sem starfa við HA eru í efstu lögum á meðan um 10% starfskvenna fylla þann hóp. Þó hefur konum á síðustu árum fjölgað verulega meðal stjórnenda þeirra stofnana sem starfa undir eða við hlið HA.

Markmið

Störf við HA skulu ekki flokkast í karla- og kvennastörf. Þetta á við bæði hvað varðar lóðrétta skiptingu og lárétta.

Aðgerðir

4.1. Auglýsingar og ráðningar

Við auglýsingar á störfum og ráðningar skal þess ávallt gætt að stuðla að jafnvægi milli kvenna og karla í viðkomandi starfshópi. Þetta á við bæði lóðrétt og lárétt.

Ábyrgð: Rektor, forsetar fræðasviða, forstöðumenn á háskólaskrifstofu og
forstöðumenn stofnana.

4.2. Stjórnunarstöður

Við ráðningar í stjórnunarstöður, s.s. stöður forseta fræðasviða, forstöðumenn á háskólaskrifstofu og forstöðumanna stofnana skal gæta þess að hafa hlut kynjanna sem jafnastan.

Enn hallar verulega á konur á flestum sviðum og því skal leitað markvisst meðal starfsfólks HA og utan skólans að hæfum konum og þær hvattar til að sækja um lausar stöður. Þegar kosið er í stöður innan skólans, s.s. deildarstjóra og brautarstjóra, skal einnig gæta kynjajafnvægis.

Tími: Við lok gildistíma áætlunarinnar 2019 skal hlutfall kynja í stjórnunar-
stöðum vera sem jafnast (40/60).
Ábyrgð: Framkvæmdastjórn og Háskólaráð.

4.3. Stjórnendur og starfsfólk undirstofnana

Við ráðningar í störf undirstofnana HA, s.s. RHA, Miðstöð skólaþróunar, Rannsóknastofnun ferðamála o.fl., skal þess gætt að hafa hlut kynjanna sem jafnastan.

Tími: Á hverjum tíma skal leitast við að hlutfall kynja í stjórnunarstöðum þessara stofnana sé jafnt. Einnig skal stefna að því að í öðrum störfum innan hverrar stofnunar sé hlutfall kynjanna sem jafnast (40/60).
Ábyrgð: Rektor

4.4. Rannsóknir

Sérstaklega skal hvetja konur til rannsóknarvirkni og öflunar rannsóknarstiga og til að sækja um styrki í rannsóknarsjóði, þar til jafnvægi er náð.

Tími: Á þetta skal minnt ár hvert í tengslum við kynningar á rannsóknarmisserum og styrkjum úr rannsóknarsjóðum.
Ábyrgð: Forsetar fræðasviða, rannsóknamisseranefnd og stjórnir sjóða.

4.5. Endurmenntun

Gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf sbr. 2.mgr. 20.gr jafnréttislaga.

5. Nefndir og ráð

 

Markmið

Ávallt skulu sitja sem næst jafnmargar konur og karlar í öllum nefndum og ráðum á vegum HA. Einnig skal HA tilnefna bæði konu og karl í hvert sinn sem skólinn tilnefnir í nefndir, stjórnir og ráð utan skólans. Málefnaleg rök skulu liggja fyrir ef vikið er frá þessum markmiðum (sjá 15.gr. laga nr.10/2008).

Aðgerðir

5.1. Kona og karl í hvert sæti

Þegar óskað er tilnefninga í nefndir skal tilnefna bæði karl og konu í hvert sæti og sá eða sú sem skipar nefndina velur svo af handahófi jafnt hlutfall kynjanna úr þeim hópi.

Ábyrgð: Rektor

5.2. Framkvæmdastjórn og gæðaráð

Þar sem í nefndum og ráðum situr það fólk sem gegnir ákveðnum stöðum innan skólans, s.s. í framkvæmdastjórn og gæðaráði, skal á annan hátt tryggja jafnt hlutfall kynja í þeim nefndum, s.s. með því að huga að breyttri samsetningu viðkomandi nefndar.

Ábyrgð: Háskólaráð og rektor.

6. Starfsumhverfi

 

Staða

Erfitt er að meta stöðu kynjanna m.t.t. starfsumhverfis, en ljóst er að enn er full þörf á að hafa skýra stefnu á því sviði og geta gripið til skipulagðra og skýrra viðbragða þegar á reynir. Á innri vef HA má nálgast upplýsingar um ferli fyrir kvartanir, s.s. vegna kynbundinnar áreitni.

Markmið

Leita skal allra leiða til að jafna aðstöðu kvenna og karla sem nema og starfa við Háskólann á Akureyri og skapa umhverfi þar sem bæði kynin njóta sín. Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni eða kynferðisleg áreitni er aldrei liðin.

Aðgerðir

6.1. Fræðsla

Fræðsluefni um eðli, afleiðingar og viðbrögð við kynbundinni/kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi skal vera aðgengilegt í handbók nemenda og á vef HA. Ávallt skal minnt á þetta við bæði nemendur og starfsfólk, þegar rætt er um starfsumhverfi, öryggi og líðan í skólanum, sbr. 5. mgr, 2 gr. laga nr. 10/2008.

Tími: Tryggt skal að slíkar upplýsingar liggi ávallt fyrir og séu aðgengilegar fyrir
bæði nemendur og starfsfólk. Í upphafi hvers skólaárs skal setja umræðu um
kynbundna áreitni og mismunun á dagskrá sviðsfunda og deildarfunda.
Ábyrgð: Námsráðgjafi og yfirmaður starfsmannamála, forstöðumaður markaðs- og
kynningarsviðs, sviðsforsetar og deildarstjórar.

6.2. Skýrt viðbragðsferli

Settar hafa verið skýrar reglur um ferli mála sem varða kynbundna/kynferðislega áreitni og kynbundið ofbeldi. Tryggja skal að reglur þessar séu nýttar þegar við á.

Tími: Í lok hvers skólaárs skal fara yfir reglurnar og þau mál sem upp hafa komið, skoða hvort reglurnar nýtist sem skyldi og endurskoða þær ef þörf er.
Ábyrgð: Jafnréttisráð í samráði við námsráðgjafa og gæðastjóra.

6.3. Samræming einkalífs og vinnuábyrgðar

Þegar nám og starf í HA er skipulagt skal gæta þess að hafa ákveðinn sveigjanleika til að bæði nemendur og starfsfólk geti samræmt starf og einkalíf (sjá starfsmannastefnu og aðgerð 2.2. kynjasamþætting - gátlisti)

Tími: Á þetta skal minnt í upphafi hvers skólaárs, sérstaklega við það starfsfólk sem kemur að stuðningi við nemendur.
Ábyrgð: Gæðastjóri, forstöðumenn á háskólaskrifstofu og forsetar fræðasviða.

III. Aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna meðal nemenda

7. Staða nemenda

 

Staða

Nemendur í HA eru að miklum meirihluta konur, allt að þrír fjórðu (http://www.unak.is/um-ha/lykiltolur). Kynjahallinn er sérlega áberandi á heilbrigðisvísindasviði öllu, en einnig í kennaradeild. Þá virðist sums staðar pottur brotinn varðandi kynjajafnvægi við skipan FSHA í nefndir og ráð og þátttöku í félagsstarfi nemenda, s.s. stjórnum sumra nemendafélaga.

Markmið

Í öllu starfi Háskólans á Akureyri skal reynt með öllum tiltækum ráðum að jafna stöðu og möguleika kvenna og karla sem stunda nám eða hafa hug á að stunda nám við skólann.
Þá skal einnig leggja grunn að jöfnum möguleikum þeirra á vinnumarkaði og í framhaldsnámi eftir að þau ljúka námi við HA.
Í samvinnu við FSHA skal tryggja umfjöllun um jafnrétti kynjanna í kynningarefni, nemendahandbókum o.fl. og hvetja til jafnrar virkni og áhrifa kvenna og karla í stjórnunarstörfum meðal nemenda.

Aðgerðir

7.1. Jafnari staða kynja á vinnumarkaði eftir nám

Háskólar sinna mikilvægu hlutverki í að tryggja jafnari stöðu á vinnumarkaði með því að veita nemendum ráðgjöf bæði hvað varðar jafna möguleika kynjanna á framhaldsnámi og möguleika á vinnumarkaði.

Tími: Þessi áhersla skal kynnt nemendum, kennurum og ráðgjöfum ár hvert.
Ábyrgð: Kennslusvið og námsráðgjafi.

7.2. Jöfn virkni kvenna og karla í félagsstarfi – hvatning

Markvisst skal hvetja konur jafnt sem karla til virkni í félagsstarfi nemenda, og tryggja að bæði konur og karlar séu tilnefnd í trúnaðar- og stjórnunarstörf innan FSHA og sem fulltrúar í stjórnir og ráð háskólans (sbr. 15.gr. jafnréttislaga).

Tími: Í byrjun hvers skólaárs skal minna á að kynjahlutfall nemenda í ráðum og stjórnum sé jafnt.
Ábyrgð: Jafnréttisráð, forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs, kennarar og ráðgjafar.

8. Kynjasamþætting í náminu

 

Staða

Kynjasamþætting í náminu er víða í góðu lagi við HA, fjöldi kennara er mjög vel meðvitaður um mikilvægi þess og lögð er áhersla á umræðu um kynjasamþættingu, t.d.á fundum kennara. Þó má betur ef duga skal. Kynjafræði er hluti af námsskrá í Hug- og félagsvísindasviðs, en ekki í boði fyrir nemendur annarra sviða.

Markmið

Kynjafræði skal fá aukið vægi í námsframboði skólans og kynjasjónarhornið samþætt öllum námsþáttum sem við á. Einnig skal hugað að því að bjóða upp á námskeið sem taka á afmörkuðum þáttum kynjafræði.

Aðgerðir

8.1. Kynjafræði

Stefna skal að því að bjóða upp á kynjafræði fyrir nemendur í öllum deildum skólans, eftir því sem við á. Fræðasviðin ákveða nánar um framkvæmd og setja fram áætlun.

Tími: Hugmyndin skal kynnt og rædd á deildafundum fræðasviða haustið 2017.
Ábyrgð: Forsetar fræðasviða

8.2. Kynjasamþætting í námsgreinum

Skoða skal alla námsþætti m.t.t. þess hvort kyn getur verið breyta í viðkomandi námsþætti. Ef svo er skal kynjasjónarhornið fléttað inn í kennsluna og skal það koma fram í náms- og kennsluskrám og/eða námsmarkmiðum (learning outcomes), sbr. 23. gr. jafnréttislaga.
Annað hvert ár skal bjóða upp á námskeið/vinnudag þar sem bæði fastráðnir og stundakennarar fá leiðsögn í því að flétta kynjasjónarhorn inn í náms- og kennsluskrár.

Tími: Starfsdagur eða kennaradagar skólaárið 2017- 2018 og síðan annað hvert ár.
Ábyrgð: Jafnréttisráð, gæðastjóri og forsetar fræðasviða.

8.3. Árlegt jafnréttisátak

Ár hvert skal jafnréttisráð í samvinnu við fræðasvið skólans standa fyrir jafnréttisátaki þar sem vakin er athygli á jafnrétti. s.s. í formi málþinga, torga, erinda, námskeiða, listviðburða, hópastarfs o.fl. sem snýr að jafnrétti kynjanna. Tryggja skal þátttöku nemenda og starfsfólks í sem flestum viðburðum, en einnig skulu einhverjir viðburðir opnir fyrir almenning.

Tími: Jafnréttisdagar sem eru á haustmisseri ár hvert.
Ábyrgð: Jafnréttisfulltrúar og forsetar fræðasviða.