Umhverfisstefna

Háskólinn á Akureyri er fyrsti háskóli landsins til að hljóta Grænfánann. Fáninn er veittur fyrir góða umhverfisvitund.

Unnið var eftir umhverfisstefnu sem samþykkt var í háskólaráði 31. maí 2012 til þess að hljóta þessa viðurkenningu.

Inngangur

Umhverfisráð hefur starfað við Háskólann á Akureyri frá upphafi árs 2008. Frá þeim tíma hefur áherslan verið á að fá vottun um Grænfána frá Landvernd og unnið hefur verið að bættri umgengni, sorphirðu og vitundarvakningu um umhverfismál innan skólans.

Þessi umhverfisstefna er lögð fram af umhverfisráði samhliða samgöngustefnu sem lið í að öðlast vottun Landverndar fyrst háskóla hér á landi.

Í þessari stefnu verður farið yfir markmið hennar, leiðir að því, hvaða áhrif stefnan kemur til með að hafa og hvað þarf til að hún gangi.

Umhverfisstefnan er stefnumótandi og lýsir því hvernig Háskólinn á Akureyri sér fyrir sér framtíð umhverfismála við stofnunina. Henni er ekki ætlað að vera bindandi er kemur að þeim framkvæmdum sem taldar eru nauðsynlegar og hefur ekki að geyma skuldbindingu gagnvart tímaáætlunum sem settar eru fram.

Þær eru til leiðbeiningar og mun umhverfisráð fylgja eftir því sem væntingar eru um að gera hverju sinni í samvinnu við framkvæmdastjórn.

Markmið

Í allri starfsemi sinni mun HA leitast við sýna vistvernd í verki, að valda umhverfinu sem minnstu tjóni og stefna sífellt að betri árangri í umhverfisvernd í daglegum rekstri skólans. Háskólinn á Akureyri setur sér að fylgja, samkvæmt bestu vitund, innlendum og alþjóðlegum samþykktum er varða umhverfisvernd. Leiðarljós fyrir alla starfsemi Háskólans á Akureyri er Staðardagskrá 21, eins og hún er sett fram í stefnu Akureyrarkaupstaðar. Þannig mun HA taka tillit til umhverfis og náttúru við alla ákvarðanatöku er varða kennslu/menntun, rannsóknir, stjórnun og rekstur. Háskólinn mun stefna að því að vera til eftirbreytni fyrir einstaklinga og stofnanir í samfélaginu.

 1. HA leggur áherslu á að umhverfisfræðsla og umhverfisvernd verði hluti af fagvitund hvers nemanda sem útskrifast frá skólanum. Sömuleiðis leggur HA áherslu á að allt starfsfólk fái upplýsingar um stefnu skólans í umhverfismálum og verði gert að fylgja þeirri vistvernd sem er í verki á hverjum tíma
 2. Fræðafólk og nemendur við skólann eru hvattir til virkni við gagnaöflun og þróun nýrra leiða til verndar náttúru og umhverfi jafnframt því að koma upplýsingum til almennings og stjórnvalda
 3. Umhverfisstefna HA þarf að ná til stjórnenda, annars starfsfólks og nemendafélaga og verða hluti af daglegu lífi allra, nemenda og starfsfólks. Aðgerðaáætlun sem hér fylgir þarf að endurskoða árlega

Vörður – leiðir að markmiði

Til að ná skilgreindu markmiði verða farnar tvennskonar leiðir. Annarsvegar með áherslu á hvatningu og upplýsingagjöf sem beint verður til alls starfsfólks og nemenda skólans. Hinsvegar með innleiðingu starfshátta við skólann.

Hvað varðar hvatningu og upplýsingagjöf verður áherslan á:

 • Miðlun ábendinga til starfsfólks og nemenda um hvað betur má fara í umhverfismálum við skólann
 • Miðlun upplýsinga um umhverfismál gegnum tölvur skólans og upplýsingaskjái, t.d. skjáhvílur
 • Sýnileika umhverfismála með upplýsingum um flokkun og endurvinnslu
 • Sýnileika umhverfisvænna samgöngumáta, t.d. með upplýsingagjöf um leiðir Strætisvagna Akureyrar
 • Hvatningu til betri nýtingar á vörum skólans og hagkvæmari innkaupa með því að innleiða verkferla í innkaupum sem taka mið af umhverfi
 • Aukinni kennslu á tæki skólans og búnað til að minnka sóun sem verður vegna mistaka eða misskilnings

Áhersla verður lögð á að koma hvatningu og upplýsingagjöf að gegnum heimasíðu, tölvur (skjáhvílur) og upplýsingaskjái skólans, gegnum umhverfisábendingar sem sendar eru starfsfólki og nemendum rafrænt og gegnum Ruslpóstinn, blað FSHA, sem og Landpóst blað fjölmiðlafræðinema við HA. Einnig má hvetja til stofnunar göngu- hjóla- eða heilsueflingarhópa sem hafa að markmiði að gera hreyfingu hluta af daglegu lífi og hvetja nemendur til þátttöku í þeim heilsueflingarátökum sem eru árviss hjá vinnustöðum.

Hvað varðar starfshætti verður áherslan á:

 • Innleiðingu Grænfána og vottun þar um frá Landvernd
 • Uppsetningu og innleiðingu endurvinnslukerfis
 • Samþættingu við samgöngustefnu þar sem markmiðið er að draga úr notkun einkabíla á skólalóð
 • Að draga úr pappírsnotkun með því að koma upp tveimur skjáum fyrir sem flest starfsfólk og kenna á notkun þeirra við yfirferð gagna og verkefna
 • Að greina vistspor* af starfsemi skólans

Enn frekar verður horft til þróunar í umhverfisstefnu meðal annarra opinberra stofana á Íslandi, annarra háskóla á Norðurlöndum og í Evrópu til að innleiða nýjar aðferðir og hugmyndir sem styðja við markmið þessarar stefnu.

Gegnum þessar vörður er markmiðið að fá Grænfánavottun Landverndar og viðhalda henni hvert ár. Innan vottunarkerfisins eru mælanleg markmið um alla þá þætti starfseminnar sem vottunin tekur á, s.s. aðfanganýtingu, sorpflokkun og tegundir efna sem nota skal við þrif.

(*„... Vistspor (Ecological Footprint). Vistsporið reynir að meta ágang manna á jörðina með því að mæla neyslu þeirra á frumframleiðni og bera saman við frumframleiðnigetu jarðar. Með þessu er sporið fundið og því meiri sem neyslan er því stærra er það. Ef Vistsporið er minna en frumframleiðsla jarðar er viðkomandi samfélag innan marka sjálfbærni.“ (Sigurður Eyberg Jóhannesson, 2010, bls. 1).

Jákvæð áhrif

Með formlegri umhverfisstefnu þar sem unnið er eftir þeim skilgreindu leiðum sem að ofan eru taldar nást fram jákvæð áhrif á nokkrum sviðum:

 • Ímynd skólans styrkist og skólinn verður leiðandi meðal æðri menntastofnana í landinu í umhverfismálum
 • Vitund um umhverfismál getur haft jákvæð áhrif á rekstur þar sem dregið er markvisst úr sóun
 • Umhverfisábendingar hvetja til snyrtimennsku og umhyggju fyrir sínu nánasta umhverfi, sem bætir ásýnd og yfirbragð skólans
 • Umhyggja fyrir nánasta umhverfi hvetur til meðvitundar og samvirkni við skólann og ætti þannig að efla starfsemi hans sem og orðspor
 • Eftirfylgni umhverfisstefnu bætir líðan og heilsu starfsfólks og nemenda og eflir starfsánægju

Innviðir

Þegar kemur að innviðum skólans þarf að auðvelda fólki að vera meðvitað um umhverfismál. Þannig þarf að hanna:

 • Vel útfærð kerfi til flokkunar úrgangs, sem mætir bæði þörfum nemenda og starfsfólks
 • Samgöngukerfi sem hugar að aðgengi gangandi vegfarenda og annarri samþættingu við samgöngustefnu
 • Sýnileika umhverfismála
 • Leiðbeiningar um verkferla við innkaup og varðandi tækjanotkun

Hvatar

Hvati þess að markmið umhverfisstefnunnar nái fram að ganga er fyrst og fremst upplýsingagjöf, sem með tímanum mun leiða til viðhorfsbreytingar meðal nemenda og starfsfólks skólans gagnvart málefnum umhverfisins.

Skólinn getur auk þess lagt nokkuð af mörkum með:

 • Stuðningi við alla viðleitni til sýnileika umhverfismála, t.d. kaup á endurvinnslu og innleiðingu skilaboða í upplýsingakerfi skólans
 • Því að taka málefni umhverfisráðs árlega fyrir á háskólafundi
 • Því að styðja við viðleitni til að fá fræðsluerindi og upplýsingar frá sérfræðingum um umhverfismál til skólans
 • Því að veita málefnum umhverfis og verkefnum umhverfisráðs rými í árlegri nýnemakynningu
 • Því að halda hátíðlegan Dag umhverfis við skólann á hverju hausti
 • Því að kynna starfsemi ráðsins á aðalfundi FSHA, samhliða kosningu fulltrúa nemenda í ráðið

Samþætting

Umhverfisstefna Háskólans á Akureyri horfir til samþættingar við samgönguáætlun skólans og markmiða Akureyrarkaupstaðar sem birtast í Staðardagskrá 21.

Aðgerðaráætlun

Að neðan eru tilgreind þau verkefni sem ráðast þyrfti í í tengslum við þessa umhverfisstefnu. Ábyrgð á framkvæmd ræðst af eðli verkefnis, en gera má ráð fyrir að rektor og/eða framkvæmdastjóri taki frumkvæði í að skipuleggja framkvæmd, á grunni stefnunnar.

Verkefni 2012 2013 2014 2015 2016 2017
Innleiðing endurvinnslukerfis x          
Upplýsingar á tölvum og skjám skólans x          
Uppsetning leiðbeininga við tæki x x        
Tveir skjáir á starfsfólk   x x      
Grænfánavottun   x   x   x
Greining á vistspori starfsemi skólans   x x x    
Uppbygging fyrir umhverfisvænar samgöngur   x x x    
Endurnýjun upplýsinga um leiðakerfi SVAK   x x x x x
Árleg nýnemakynnning x x x x x x
Aðalfundarkynning hjá FSHA x x x x x x
Dagur umhverfis haldinn hátíðlegur x x x x x x
Umhverfisdagskrá á árlegum háskólafundi x x x x x x