Umhverfis- og samgöngustefna

Háskólinn á Akureyri (Mynd: Auðunn Níelsson)

Háskólinn á Akureyri er fyrsti háskóli landsins til að hljóta Grænfánann. Fáninn er veittur fyrir góða umhverfisvitund.

Umhverfis- og samgöngustefna háskólans var samþykkt í háskólaráði 2. nóvember 2017.

Umhverfis- og samgöngustefna 2018-2022

 

Inngangur

Umhverfisráð hefur starfað við Háskólann á Akureyri frá upphafi árs 2008. Á upphafsárum ráðsins var áherslan lögð á að fá vottun um Grænfána frá Landvernd og markvisst var unnið að bættri umgengni, úrgangsmálum og vitundarvakningu um umhverfismál innan skólans. Haustið 2013 hlaut svo skólinn, fyrstur háskóla á Íslandi, Grænfána Landverndar fyrir ötult starf að umhverfismálum. Í desember 2016 skrifaði skólinn undir Loftslagsyfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Festu og skuldbatt sig þar með til að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka myndun úrgangs og mæla árangurinn. Að þessu hefur verið unnið markvisst nú á síðari árum.

Þessi umhverfis- og samgöngustefna er lögð fram sem liður í að fylgja eftir því góða og mikilvæga starfi sem unnið hefur verið að í umhverfismálum á undanförnum árum við HA. Í stefnunni er horft til framtíðar, farið yfir markmið, leiðir að markmiðum og því velt upp hvaða áhrif stefnan kemur til með að hafa.

Umhverfis- og samgöngustefnan er stefnumótandi og lýsir því hvernig Háskólinn á Akureyri sér fyrir sér framtíð umhverfis- og samgöngumála við stofnunina. Henni er ekki ætlað að vera bindandi er kemur að þeim framkvæmdum sem taldar eru nauðsynlegar og hefur ekki að geyma skuldbindingu gagnvart tímaáætlunum sem settar eru fram. Þær eru til leiðbeiningar og mun umhverfisráð fylgja eftir því sem væntingar eru um að gera hverju sinni í samvinnu við framkvæmdastjórn.

Markmið

Í allri starfsemi sinni mun HA leitast við að stuðla að sjálfbærni á öllum sviðum umhverfismála. Unnið verður af stöðugri framsækni og metnaði í bæði umhverfis- og samgöngumálum og sífellt skal stefnt að betri árangri í daglegum rekstri skólans. Ennfremur setur skólinn sér það markmið að verða kolefnishlutlaus stofnun árið 2020.

Háskólinn á Akureyri setur sér að fylgja, samkvæmt bestu vitund, innlendum og alþjóðlegum samþykktum er varða umhverfisvernd. Leiðarljós fyrir alla starfsemi Háskólans á Akureyri er Umhverfis- og samgöngustefna Akureyrarbæjar (pdf), enda starfar skólinn innan bæjarmarka Akureyrarkaupstaðar. Þannig mun HA taka tillit til umhverfis og náttúru við alla ákvarðanatöku er varða kennslu/menntun, rannsóknir, stjórnun og rekstur. Háskólinn mun stefna að því að vera til eftirbreytni fyrir einstaklinga og stofnanir í samfélaginu og vill verða leiðandi í umhverfismálum.

 1. HA leggur áherslu á umhverfisfræðslu og að auka umhverfisvitund hvers nemanda sem útskrifast frá skólanum. Sömuleiðis leggur HA áherslu á að allt starfsfólk fái upplýsingar um stefnu skólans í umhverfismálum og verði gert að fylgja þeirri umhverfisstefnu sem er í verki á hverjum tíma.
 2. Starfsfólk og nemendur við skólann eru hvattir til virkni við gagnaöflun og þróun nýrra leiða til verndar náttúru og umhverfi ásamt því að koma upplýsingum til almennings og stjórnvalda.
 3. Umhverfisstefna HA þarf að ná til stjórnenda, annars starfsfólks og nemendafélaga og verða hluti af daglegu lífi allra, nemenda og starfsfólks. Aðgerðaáætlunina, sem hér fylgir þarf að endurskoða árlega.

Vörður – leiðir að markmiðum

1. Fræðsla

Fræðsla er einn mikilvægasti þátturinn í umhverfis- og samgöngustefnu HA. Upplýsingagjöf og fræðsla er undirstaða þess að ná árangri í umhverfismálum. Gott og stöðugt upplýsingaflæði eykur líkur á því að starfsfólk og nemendur tileinki sér umhverfisvænan lífsstíl. Áhersla verður lögð á að koma hvatningu og upplýsingagjöf til bæði nemenda og starfsfólks í gegnum fjölbreyttar leiðir. Notaðar verða heimasíður, upplýsingaskjáir, umhverfisábendingar, fyrirlestrar og fleiri leiðir. Markmiðið er að hvetja til bættrar nýtingar, minni sóunar, aukinnar flokkunar og betri umhverfisvitundar.

 • Auka sýnileika umhverfismála innan skólans
 • Í upphafi hvers skólaárs (að hausti) fá allir nýnemar ítarlega kynningu á umhverfisstefnu skólans. Þeim er kennt á endurvinnslukerfi skólans og fá ítarlegar ábendingar um þær leiðir sem hægt er nýta til að draga úr notkun einkabílsins til og frá skólanum
 • Þróuð verða sérstök námsverkefni tengd umhverfismálum sem allir nýnemar við HA þurfa að fara í gegnum
 • Miðlun ábendinga til starfsfólks og nemenda um hvað betur má fara í umhverfismálum við skólann
 • Miðlun upplýsinga um umhverfismál gegnum tölvur skólans og upplýsingaskjái, t.d. skjáhvílur

2. Loftslags og loftgæðamál

Styrkur koltvísýrings fer vaxandi í andrúmsloftinu og hefur neikvæð áhrif á hlýnun jarðar. Með því að skrifa undir Loftslagsyfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Festu hefur HA skuldbundið sig til að vinna að minnkun gróðurhúsalofttegunda. Samgöngur eru sá þáttur innan starfsemi HA sem helst má vinna með í þessu sambandi. Unnið verður að því að auka hlutadeild umhverfisvænna samgöngumáta bæði hjá starfsfólki og nemendum. Frá og með árinu 2018 verður starfsmönnum skólans boðið upp á að undirrita samgöngusamning, en í honum felst skuldbinding þess efnis að koma sér til og frá vinnu á umhverfisvænan máta að meðaltali þrisvar sinnum í viku. Áhersla verður lögð á að minnka notkun á einkabílum til og frá skólanum, draga úr flugferðum á vegnum skólans eins og hægt er og markvisst unnið að því að efla skógrækt á eignarjörð háskólans, Végeirsstöðum í Fnjóskadal. Þessar aðgerðir, þ.e. að draga og úr losun og auka bindingu eiga að hjálpa til við að uppfylla það markmið sem skólinn hefur sett sér að verða kolefnishlutlaus stofnun árið 2020.

 • Teknir verði upp samgöngusamningar við starfsfólk skólans árið 2018
 • Starfsmenn og nemendur skólans verða hvattir til að nýta sér umhverfisvæna samgöngumáta á daglegum leiðum sínum til og frá skóla. Í þessu felst m.a. að auka þarf sýnileika umhverfisvænna samgöngumáta:
  • Starfsmenn og nemendur skólans verða hvattir til að nýta sér ókeypis strætisvagnaþjónustu Akureyrarbæjar
  • Starfsmenn og nemendur verða hvattir til að koma gangandi eða hjólandi til og frá skólanum
  • Starfsmenn og nemendur verða hvattir til að samnýta bíla, bæði í styttri og lengri ferðir
  • Bílaleigubílar: frá og með 1. febrúar árið 2016 er starfsfólk skólans skyldugt til að leigja rafbíl ef daglegur akstur er innan við 100 km og um er að ræða akstur í þéttbýli
 • Starfsmenn og nemendur verða hvattir til að nýta sér græn stæði og hleðslustöðvar fyrir rafbíla við HA
 • Markvisst verður unnið að því að auka hlut skógræktar í landi Végeirsstaða í Fnjóskadal og starfsfólk hvatt til að taka þátt í því samfélagsverkefni
 • Í upphafi nýs árs verður kolefnisbókhald fyrra árs opinberað og gert sýnilegt bæði starfsfólki og nemendum
 • Í kolefnisbókhaldi hvers árs skulu koma fram mælanleg markmið fyrir næsta ár. Umhverfisráð heldur utan um kolefnisbókhaldið og sér um að setja raunhæf markmið

3. Úrgangsmál

Úrgangsmál innan HA hafa verið í góðum farvegi frá árinu 2013 þegar skólinn hlaut Grænfána Landverndar. Á árunum 2010-2013 var unnið að innleiðingu á skilvirku endurvinnslukerfi sem hefur nú sannað gildi sitt og í dag fer einungis um 40% af öllum úrgangi frá HA í almennt sorp. Afgangurinn er flokkaður og fer í réttan endurvinnslufarveg. Unnið verður að því á næstu árum að viðhalda þessum góða árangri og bæta hann enn frekar með því að minnka enn meira hlutdeild almenns úrgangs.

 • Markvisst verður unnið að því að auka enn frekar flokkun og endurvinnslu við HA.

4. Ýmis önnur mál

Unnið verður markvisst að ýmsum öðrum umhverfismálum sem, á einn eða anna hátt, stuðla að sjálfbærara samfélagi í Háskólanum á Akureyri. Hér er verið að vísa í þætti eins og vistvæn innkaup á efnum til þrifa, grænt ríkisbókhald, matarsóun o.fl. Fara þarf yfir alla verkferla við innkaup sem og ferla vegna tækjanotkunar og skoða hvort bæta megi árangur á því sviði.

Til að ná skilgreindum markmiðum verða farnar tvennskonar leiðir. Annarsvegar með áherslu á hvatningu og upplýsingagjöf sem beint verður til alls starfsfólks og nemenda skólans. Hinsvegar með innleiðingu starfshátta við skólann.

Hvað varðar hvatningu og upplýsingagjöf verður áherslan á:

 • Almenna fræðslu um umhverfismál til nemenda og starfsfólks
 • Hvatningu til betri nýtingar á vörum skólans og hagkvæmari innkaupa með því að innleiða verkferla í innkaupum sem taka mið af umhverfi
 • Aukinni kennslu á tæki skólans og búnað til að minnka sóun sem verður vegna mistaka eða misskilnings

Hvað varðar starfshætti verður áherslan á:

 • Að viðhalda Grænfána viðurkenningu Landsverndar
 • Að minnka kolefnisfótspor skólans og uppfylla þau markmið sem skólinn setur sér á hverju ári í kolefnisbókhaldi sínu
 • Að draga úr notkun á einkabílum til og frá vinnu m.a. með því að taka upp samgöngusamninga við starfsfólk og halda uppi öflugri upplýsingagjöf bæði til starfsfólks og nemenda
 • Að viðhalda og minnka enn frekar þann úrgang sem fer til urðunar
 • Enn frekar verður horft til þróunar í umhverfisstefnu meðal annarra opinberra stofnana á Íslandi, annarra háskóla á Norðurlöndum og í Evrópu til að innleiða nýjar aðferðir og hugmyndir sem styðja við markmið þessarar stefnu

Jákvæð áhrif

Með formlegri umhverfisstefnu þar sem unnið er eftir þeim skilgreindu leiðum sem að ofan eru taldar nást fram jákvæð áhrif á nokkrum sviðum:

 • Ímynd skólans styrkist og skólinn verður leiðandi meðal æðri menntastofnana í landinu í umhverfismálum
 • Vitund um umhverfismál hefur jákvæð áhrif á rekstur skólans þar sem dregið er markvisst úr sóun
 • Aukin umhverfisvitund, bæði nemenda og starfsfólks, hvetur til snyrtimennsku og umhyggju fyrir sínu nánasta umhverfi, sem bætir ásýnd og yfirbragð skólans
 • Umhyggja fyrir nánasta umhverfi hvetur til meðvitundar og samvirkni við skólann og ætti þannig að efla starfsemi hans sem og orðspor
 • Eftirfylgni umhverfisstefnu bætir líðan og heilsu starfsfólks og nemenda og eflir starfsánægju

Hvatar

Hvati þess að markmið umhverfisstefnunnar nái fram að ganga er fyrst og fremst upplýsingagjöf sem hefur að einhverju leyti nú þegar leitt til viðhorfsbreytinga meðal nemenda og starfsfólks skólans gagnvart málefnum umhverfisins.

Skólinn getur auk þess lagt nokkuð af mörkum með:

 • Stuðningi við alla viðleitni til sýnileika umhverfismála, t.d. með því að hafa loftslagsmarkmið sýnileg á heimasíðu skólans
 • Því að fjölga enn frekar grænum stæðum og hleðslustöðvum við skólann og hvetja þannig til vistvæns ferðamáta
 • Bæta aðstöðu fyrir hjólreiðafólk
 • Því að taka málefni umhverfisráðs árlega fyrir á háskólafundi
 • Því að styðja við viðleitni til að fá fræðsluerindi og upplýsingar frá sérfræðingum um umhverfismál til skólans
 • Því að taka fyrir umhverfismálefni í árlegri nýnemakynningu
 • Því að halda hátíðlegan dag umhverfis við skólann á hverju hausti

Aðgerðaáætlun

Að neðan eru tilgreind þau verkefni sem ráðast þyrfti í, í tengslum við þessa umhverfisstefnu. Ábyrgð á framkvæmd ræðst af eðli verkefnis, en gera má ráð fyrir að rektor og/eða framkvæmdastjóri taki frumkvæði í að skipuleggja framkvæmd, á grunni stefnunnar.

Verkefni 201820192020202120222023
Viðhalda Grænfána viðurkenningu   x   x   x
Árlegur útreikningur á kolefnisbókhaldi HA x x x x x x
Innleiðing og viðhalda á samgöngusamningum x x x x x x
Bætt aðstaða fyrir hjólreiðafólk   x x      
Enn frekari uppbygging fyrir umhverfisvænar samgöngur   x x x x x
Árleg nýnemakynning x x x x x x
Umhverfisdagskrá á árlegum háskólafundi x x x x x x

Fyrir hönd umhverfisráðs
Brynhildur Bjarnadóttir, formaður