Innviðasjóður styrkir rannsóknaruppbyggingu í sálfræði

Stjórn Innviðasjóðs Rannís hefur úthlutað styrkjum úr sjóðnum fyrir árið 2018.
Innviðasjóður styrkir rannsóknaruppbyggingu í sálfræði

Árni Gunnar Ásgeirsson, lektor við Háskólann á Akureyri, hefur fengið styrk að upphæð 2.666.000 kr. til kaupa á heilalínuritunarbúnaði, nánar tiltekið BrainAmp EEG 32-channel system. Meðumsækjendur voru Yvonne Höller (HA), Peter Shepherdson (HA) og Heiða María Sigurðardóttir (HÍ). Hug- og félagsvísindasvið HA veitir 25% mótframlag.

Búnaðurinn verður notaður til rannsókna á taugalífeðlisfræði mannsheilans og meðal annars til rannsókna á minni og athygli. Þá verður hann notaður við kennslu og þjálfun nemenda í sálfræði. Búnaðurinn verður staðsettur á Akureyri og aðgengilegur samstarfsaðilum Rannsóknarmiðstöðvar um sjónskynjun (Icelandic Vision Lab).

Alls bárust sjóðnum 67 umsóknir þar sem samtals var sótt um 679 milljónir króna.

Í boði voru fjórar styrktegundir:

  • Aðgengisstyrkur
  • Tækjakaupastyrkur
  • Uppbyggingarstyrkur
  • Uppfærslu/rekstrarstyrkur

Í ár hlutu 27 verkefni styrk upp á samtals rúmar 295 milljónir króna.

Nánar má lesa um úthlutunina á vef Rannís.