Bogi Ágústsson verður heiðursgestur Háskólahátíðar 2025

Háskólahátíð — brautskráning kandídata frá Háskólanum á Akureyri 2025 fer fram dagana 13. og 14. júní
Bogi Ágústsson verður heiðursgestur Háskólahátíðar 2025

Háskólahátíð — brautskráning frá Háskólanum á Akureyri fer fram dagana 13. og 14. júní í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri. Athöfnunum verður einnig streymt á Facebook-síðu HA. Bogi Ágústsson verður heiðursgestur hátíðarinnar í ár og mun hann ávarpa kandídata sem brautskrást úr grunnnámi laugardaginn 14. júní.

Boga þarf vart að kynna fyrir fólki en hann hefur birst á sjónvarpsskjám landsmanna í tæpa hálfa öld. Bogi starfaði, með hléum, á ýmsum sviðum innan RÚV allt frá árinu 1977. Hann hefur fjallað um og sagt frá mörgum af helstu fréttaatburðum sem hafa átt sér stað á seinni hluta 20. aldar og fyrri hluta þeirrar 21. Í umfjöllun RÚV þar sem farið var yfir störf Boga segir meðal annars að hann hafi fjallað um fall Berlínarmúrsins, árásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 og morðið á Olof Palme, fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar. Þá er ekki hjá því komist að minnast á tvíeykið Boga og Ólaf Þ. Harðarson sem hafa ansi oft birst á skjám landsmanna síðustu misseri og ár sem skýrendur í kosningum hér á landi. Bogi var aðstoðarframkvæmdastjóri útvarps á árunum 1986–1987, blaðafulltrúi Flugleiða 1987-1988 þar til hann varð fréttastjóri Sjónvarps og sinnti því starfi allt til 2003. Þá var hann forstöðumaður Fréttasviðs RÚV 2003–2007 og svo frétta- og dagskrárgerðarmaður eftir það til ársins 2022. Síðan þá hefur hann sinnt fréttalestri og dagskrárgerð í útvarpi en hann las sinn síðasta fréttatíma þann 28. apríl síðastliðinn.

„Sú hefð hefur ríkt við Háskólann á Akureyri frá árinu 2014 að bjóða heiðursgesti að ávarpa kandídata á þessum merkisdegi. Það er mikilvægt að vanda valið og finna verðugan heiðursgest sem líka höfðar til kandídata. Nú bætist Bogi Ágústsson í hópinn sem varla þarf að kynna fyrir kandídötum og aðstandendum þeirra. Sem sjónvarpsmaður hefur hann fylgt kandídötum í gegnum lífið og fært landsmönnum góðar og slæmar fréttir af yfirvegun. Það er okkur mikill heiður að fá Boga á Háskólahátíð. Ég veit að hann mun veita kandídötum góð ráð út í lífið þegar þau fljúga á vit nýrra ævintýra,“ segir Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri.

Nánari upplýsingar um dagskrá og fyrirkomulag Háskólahátíðar má nálgast hér: