Christina Goethel Fulbright prófessor við HA

Stundar rannsóknir um borð í rannsóknarskipum
Christina Goethel Fulbright prófessor við HA

Christina Goethel ólst upp á Solomons-eyju í Maryland í Bandaríkjunum. Hún varði doktorsritgerð sína í vistfræði sjávarbotndýra í fyrra við University of Maryland Center for Environmental Science in Marine and Estuarine Environmental Science og hefur undanfarin 8 ár unnið við rannsóknir tengdar áhrifum umhverfisþátta (s.s. ísþekju, sjávarhita og sýrustigs sjávar) á stofnstærð og -dreifingu samlokuskelja í norðanverðu Kyrrahafi, þ.e. undan ströndum Alaska.

Christina hefur stundað rannsóknir sínar um borð á rannsóknaskipum og hefur beitt aðferðum sem byggjast bæði á athugunarlíkönum og á tilraunum. Hún hefur tekið þátt í fjölda alþjóðlegra rannsóknaleiðangra í tengslum við rannsóknir sínar og mun miðla af þeirri reynslu við kennslu sína við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri þar sem hún ver nú misseri í boði Fulbright stofnunarinnar.

„Ég hlakka til samstarfsins og að læra eins mikið og ég get um íslenska menningu, vistkerfi og skólakerfi á meðan ég er hér,” segir Christina Goethel, nýr Fulbright prófessor við Háskólann á Akureyri.