Vísindaskóli unga fólksins

Eliza Reid sló í gegn sem heiðursgestur
Vísindaskóli unga fólksins

Á dögunum var Vísindaskóli unga fólksins haldinn í sjöunda skipti í Háskólanum á Akureyri. Skólinn er opinn öllum á aldrinum 11- 13 ára. Alls voru 80 nemendur skráðir í skólann og voru drengir í meirihluta í fyrst sinn frá upphafi.  

Á hverju ári eru ný viðfangsefni tekin fyrir þannig að nemendur geta komið þrjú ár í röð í skólann – og læra alltaf eitthvað nýtt. Í ár voru efnistökin lýðræði, störf Alþingis, jarðfræði, orkumál, heilbrigði, björgunarsveitarstörf og náttúrufræði. 

Nemendur

Vísindaskóla unga fólksins var að vanda slitið með hátíðlegri athöfn í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri. Ásamt Eyjólfi Guðmundssyni rektor stýrði Sigrún Stefánsdóttir skólastjóri Vísindaskólans athöfninni og Eliza Reid forsetafrú flutti heiðursávarp. Segja má að Eliza hafi heldur betur slegið í gegn með ræðu sinni þar sem hún hvatti nemendur Vísindaskólans til að nota röddina sína til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. Einnig ráðlagði hún nemendum að nýta fjölbreytt tækifæri í lífinu og vera óhrædd við að gera mistök – annars lærum við aldrei neitt af reynslunni. Í ávarpi sínu þakkaði rektor nemendum fyrir að hafa fært líf og fjör í háskólann seinustu daga. Einnig hvatti hann nemendur til að halda áfram að fræðast og spyrja spurninga. 

Vísindaskóli útskrift
Eliza Reid svaraði spurningum frá nemendum

Þær Sigrún Stefánsdóttir, skólastjóri Vísindaskólans, og Dana Rán Jónsdóttir, verkefnastjóri RHA, bera hitan og þungan af skipulagi og framkvæmd skólans sem nýtur styrkja frá fjölmörgum fyrirtækjum, félögum og Akureyrarbæ.  

Vísindaskóli útskrift
Frá vinstri: Eyjólfur Guðmundsson, Sigrún Stefánsdóttir, Eliza Reid og Dana Rán Jónsdóttir