Laust starf: Sérfræðingur við rannsóknir

RHA - Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri auglýsir laust til umsóknar 100% starf sérfræðings við rannsóknir.

Helstu verkefni og ábyrgð

Auglýst er eftir sérfræðingi til rannsókna- og ráðgjafastarfa. Starfið felur í sér vinnu við gagnaöflun, tölfræði- og þemagreiningar, framsetningu gagna, skýrsluskrif og ráðgjöf. Starfið er laust frá 1. september 2024.

RHA er sjálfstæð eining innan Háskólans á Akureyri sem aflar sér einkum tekna með rannsóknaverkefnum og ráðgjöf fyrir ýmsa aðila innanlands sem utan. Hlutverk RHA er að efla rannsóknastarfsemi við Háskólann á Akureyri og styrkja tengsl hans við atvinnulífið. Einnig að vinna að þróun nýrra verkefna innan háskólans og koma þeim í réttan farveg. Hjá RHA starfa níu manns. Næsti yfirmaður er forstöðumaður RHA. Vinnustaður er á Borgum á háskólasvæðinu. Mikilvægt er að umsækjendur taki virkan þátt í daglegu samfélagi háskólans. Frekari upplýsingar um starfsemi RHA má finna á heimasíðu miðstöðvarinnar, www.rha.is.

Hæfniskröfur

 • Meistaragráða í félagsvísindum eða öðrum greinum sem nýtist í starfi er skilyrði.
 • Góð þekking á megindlegri aðferðafræði og reynsla af tölfræðigreiningum, framkvæmd kannana og skýrsluskrifum er skilyrði.
 • Reynsla af þátttöku í innlendum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum er kostur.
 • Góð almenn tölvukunnátta og þekking á tölfræðiforritinu R er skilyrði. Þekking á öðrum tölfræðiforritum er kostur.
 • Reynsla eða þekking á verkefnastjórnun er kostur.
 • Jákvæðni og framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum.
 • Mjög gott vald á íslensku og ensku í ræðu og riti er skilyrði, gott vald á einu norðurlandamáli er kostur.
 • Góðir skipulagshæfileikar, nákvæmni í vinnubrögðum ásamt getu til að vinna sjálfstætt og í teymi.
 • Við mat á umsóknum er tekið mið af hversu vel viðkomandi uppfyllir þarfir RHA.

Umsókn skal fylgja

 • Greinargóð skýrsla um náms- og starfsferil.
 • Staðfest afrit af viðeigandi prófskírteinum á íslensku eða ensku.
 • Kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni umsækjanda í starfið.
 • Tilnefna skal a.m.k. tvo meðmælendur og er æskilegt að annar þeirra sé næsti yfirmaður í núverandi eða fyrra starfi umsækjanda.

Umsóknarfrestur er til og með 18. júní 2024

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólakennara á Akureyri hafa gert.

Ófullnægjandi umsóknir eru ekki teknar til greina. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Umsókn getur gilt í sex mánuði eftir að umsóknarfresti lýkur, sbr. 2. gr. reglna nr. 464/1996. RHA áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Háskólinn á Akureyri stuðlar að jafnrétti kynjanna og hvetur öll kyn til að sækja um laus störf.

Starfshlutfall er 100%.

Nánari upplýsingar veitir

Arnar Þór Jóhannesson, arnar@unak.is og sími 460-8901.

Sækja um starf