Doktorsvörn Valgerðar S. Bjarnadóttur

Valgerður S. Bjarnadóttir varði doktorsritgerð sína á menntavísindasviði.
Doktorsvörn Valgerðar S. Bjarnadóttur

Þriðjudaginn 4. juní varði Valgerður S. Bjarnadóttir, nýdoktor í verkefninu Háskólar og lýðræði við Háskólann á Akureyri, doktorsritgerð sína á menntavísindasviði við deild menntunar og margbreytileika, Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: The Complexities of Student Influence in Upper Secondary Schools in Iceland: Pedagogic Practice and Subject Hierarchies.

Dr. Gestur Guðmundsson, prófessor og formaður doktorsnámsnefndar, stjórnaði athöfninni. Andmælendur voru dr. Lynn Davies, prófessor emeritus við University of Birmingham, og dr. Michele Schweisfurth, prófessor við University of Glasgow. Leiðbeinandi var dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor á Menntavísindasviði, og meðleiðbeinandi dr. Elisabet Öhrn, prófessor við Gautaborgarháskóla. Auk þeirra sat í doktorsnefnd Guðrún Geirsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, og Monica Johansson, dósent við Gautaborgarháskóla. 

Ágrip af rannsókn

Í núgildandi aðalnámskrá framhaldsskóla er skýrari áhersla á nemendaáhrif og lýðræðismenntun en í fyrri námskrám. Hefðbundin valdakerfi innan framhaldsskólans virðast þó styðja takmarkað við aukin nemendaáhrif í daglegu starfi. Sum þessara kerfa hafa skýr tengsl við hefðbundna virðingarröð námsgreina, sem endurspeglar jafnframt stigveldi þeirra. Rannsókn þessi gefur innsýn í viðhorf nemenda og kennara og margslungin einkenni nemendaáhrifa í íslenskum framhaldsskólum. Leitað var til kenninga Bernsteins um félagsfræði menntunar til að greina og lýsa kennsluháttum í tengslum við áhrif nemenda og valdastöðu.

Rannsóknin varpar ljósi á nemendaáhrif út frá ólíkum sjónarhornum og aðferðum, með greiningu á gögnum úr fjórum sjálfstæðum gagnasettum úr þremur rannsóknarverkefnum. Gögnin eru viðtöl við nemendur og kennara í rannsókn á starfsháttum í níu framhaldsskólum og tvær sjálfstæðar tilviksathuganir þar sem notaðar voru annars vegar etnógrafískar aðferðir og hins vegar viðtöl við nemendur.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að nemendur hafi upplifað formlegar leiðir til áhrifa sem gagnslausar. Af þeim sökum voru tækifæri nemenda til að taka þátt í ákvörðunum í skólastarfinu tilviljanakenndar og byggðar á einstaklingsframtaki þeirra. Jafnframt endurspegluðu ólík tækifæri nemenda til áhrifa stigveldi brauta og námsgreina, þar sem stærðfræði á náttúrufræðibrautum var efst í stigveldinu. Stífur rammi um stærðfræði á náttúrufræðibrautum, sérstaklega í rótgrónum bóknámsskólum, olli því að greinin gegndi hlutverki hliðvarðar þegar kom að frekara námsvali nemenda. Niðurstöður sýna einnig dæmi um hvernig nemendaáhrif geta verið ógn við sett námsmarkmið. Fram kemur að áhrif nemenda séu margslungin og þau geti bæði ógnað og viðhaldið ríkjandi valdastöðu innan skólavettvangsins. Fer það meðal annars eftir samhengi á hvað nemendur reyna að hafa áhrif og hvernig þeim tekst til.