Rafræn miðlun kennsluefnis á tímum Covid

Svo miklu meira en að taka upp fyrirlestra
Rafræn miðlun kennsluefnis á tímum Covid

Háskólinn á Akureyri hefur í tuttugu ár þróað nám með rafrænum hætti. Í dag kallast þetta námsfyrirkomulag sveigjanlegt nám en það felur meðal annars í sér að allt námsefni er rafrænt en ætlast er til að nemendur komi á svæðið í námslotur nokkrum sinnum á misseri. Á tímum Covid og í ljósi samkomutakmarkana þurfti hins vegar að færa námslotur í rafrænt form. Í ljósi reynslu HA af rafrænum kennsluháttum var þetta ekki ýkja flókið en hefur þó falið í sér nokkrar áskoranir, sér í lagi hvað varðar uppbyggingu samfélags og hvatningu nemenda til virkrar þátttöku í námskeiðum. Þetta á sérstaklega við um nýnema sem eru sumir hverjir ekki vanir rafrænum kennsluháttum. Allt kapp er lagt á það að viðhalda gæðum námsins og virkni nemenda.

„Allir kennarar háskólans hafa unnið með sveigjanlegt námsform undanfarin ár. Það sem er öðruvísi núna er að lotur eru einnig rafrænar og það takmarkar ákveðna þætti í kennslu,“ segir Helena Sigurðardóttir kennsluráðgjafi hjá Kennslumiðstöð Háskólans á Akureyri (KHA). Til þess að styðja við kennara heldur KHA reglulega námskeið sem eru opin öllum kennurum háskólans auk þess sem haldin eru sérnámskeið fyrir ákveðnar deildir um þá þætti sem óskað er eftir hverju sinni. Dæmi um námskeið eru byrjenda- og framhaldsnámskeið á kennslukerfið Canvas, örnámskeið í notkun Zoom í kennslu og stuðningur við stundakennara. „Meira álag er á kennurum en áður þar sem færa þarf allt yfir í rafrænt form, það er að segja allt sem fer fram í bæði námskeiðum og lotum. Kennarar háskólans eru þó afar jákvæðir, vilja að þetta gangi upp og eru virkilega að reyna sitt besta,“ bætir Helena við.

Helena Sigurðardóttir
Helena Sigurðardóttir kennsluráðgjafi hjá Kennslumiðstöð Háskólans á Akureyri 

Samskipti við nemendur eru lykilatriði í rafrænu námsfyrirkomulagi

Að mörgu er að hyggja þegar kemur að rafrænu námsfyrirkomulagi. „Ég hef fengið ráð frá KHA sérstaklega því ég vil að nemendur mínir séu virkir á netinu, en ekki passífir hlustendur. Rafræn kennsla er svo miklu meira en að taka upp fyrirlestra. Stærsta áskorunin er að virkja nemendur og ég hef nýtt mér fjölbreyttar kennsluaðferðir, tæki og tól til þess síðustu ár. Sem dæmi má nefna umræðuþræði, Voicethread, Padlet og margt annað. Samskipti eru lykilatriði, bæði til þess að halda nemendum upplýstum, til þess að geta útskýrt námsefnið betur og síðast en ekki síst til þess að hvetja nemendur áfram. Það er til dæmis mjög mikilvægt að hittast á Zoom augliti til auglits, ég hef gert það og nemendur eru mjög ánægðir með það,“ segir Hafdís Björg Hjálmarsdóttir, lektor í viðskiptafræðideild.

Hafdís Björg Hjálmarsdóttir
Hafdís Björg Hjálmarsdóttir, lektor í viðskiptafræðideild

Helena tekur í sama streng og segir að þegar kemur að rafrænni kennslu líkt og í HA sé lykilatriði að eiga samskipti við nemendur. Framsetning efnis þurfi að vera skýr og nemendur þurfi að vita nákvæmlega til hvers sé ætlast af þeim í hverju námskeiði. Þá sé einnig mikilvægt að hugsa um fjölbreytileika og skapandi skil verkefna. „Möguleikarnir sem tæknin færir okkur eru óþrjótandi og því er tilvalið að nýta það. Við sjáum ótrúlega fjölbreytt verkefni, til dæmis hlaðvörp, vefsíður, myndbönd og rafrænar fagmöppur, svo dæmi séu tekin,“ segir Helena.

Hafdís Björg kennir markaðsfræðinámskeið við viðskiptafræðideild. Hún segir að ýmis tækifæri séu til staðar þegar kemur að rafrænni kennslu. „Tækifærin liggja meðal annars í því að nýta sér öll þau tæki og tól sem við höfum úr að moða til þess að ná fram markmiðum námskeiðs og það skiptir máli að vera óhrædd við að prófa nýjar aðferðir. Ég prófaði til dæmis að gefa nemendum alveg frjálsar hendur varðandi kynningu á hópverkefnum. Þau mættu til dæmis kynna í Zoom, senda inn þulaðar glærur eða útbúa myndbönd, svo dæmi séu tekin. Þegar ég gaf þetta svona frjálst þá fékk ég frábærar og metnaðarfullar kynningar sem mikið var lagt í.“

Zoom-fundur með nemendum

Hafdís Björg segir einnig að mikilvægt sé að passa sérstaklega upp á nýnema, sem eru margir hverjir ókunnugir þessu rafræna kennslufyrirkomulagi: „Ég mun bjóða þeim að hitta mig í Zoom þar sem ég hef opinn fund. Einnig mun ég útbúa litlar upptökur, þar sem ég dreg saman helstu atriðin þegar við erum komin áleiðis í námskeiðinu. Markmiðið og tilgangurinn með því er fyrst og fremst að aðstoða nemendur og halda þeim við efnið. Almennt séð tel ég vera mikilvægast af öllu að vera í góðum samskiptum við nemendur, senda þeim tilkynningar, hvetja þá til þess að hafa samskipti sín á milli og að hafa samband við mig ef eitthvað er.“

Ráðgjöf um rafræna kennslu á netinu – aðgengilegt öllum

Allir kennarar háskólans geta óskað eftir ráðgjöf hjá KHA, sem vinnur í samvinnu með kennurum að því að þróa og bæta námskeið. Þess má geta að allir kennarar sem skrifuðu undir ráðningarsamning eftir 2016 skulu taka þátt í 10 ECTS eininga námskeiði á meistarastigi (Háskólanám og háskólakennsla) sem KHA hefur umsjón með. „Undanfarin ár höfum við séð afar jákvæðar breytingar hjá þeim kennurum sem setið hafa námskeiðið. Við förum í gegnum bæði kennslufræði og notkun tækni sem stuðning við kennslu,“ segir Helena. Þar að auki eru opnir tímar á Zoom alla virka daga milli 11 og 12 þar sem kennarar geta fengið leiðsögn.

Þá heldur KHA einnig úti Wiki-hjálparsíðu sem er opin öllum. Þar má finna leiðbeiningar um allt sem tengist þeim kerfum sem KHA hefur umsjón með. Wiki-síðan er stuðningur við starfsfólk skólans og getur skólafólk sem er að takast á við rafræna kennsluhætti sótt sér innblástur og stuðning í gegnum síðuna. Síðan er í stöðugri þróun og er stanslaust verið að bæta inn nýju efni.

Wiki-hjálparsíða KHA