Laust starf: Verkefnastjóri í lögreglufræði

Háskólinn á Akureyri

Háskólinn á Akureyri auglýsir lausa 100% stöðu verkefnastjóra í lögreglufræði við hug- og félagsvísindasvið. 

Leitað er eftir verkefnastjóra við skrifstofu hug- og félagsvísindasviðs sem starfa mun með námsbraut í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri.

Við námsbraut í lögreglufræði er boðið upp á þriggja ára nám til BA prófs í lögreglu- og löggæslufræði og tveggja ára diplómanám til starfsréttinda lögreglu. Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu annast starfsnám lögreglunema í samvinnu við Háskólann á Akureyri.

Verkefnastjóri sinnir daglegri umsýslu námsbrautar í lögreglufræði, stjórnsýslulegum samskiptum við Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu og aðra samstarfsaðila námsbrautarinnar ásamt öðrum tilfallandi verkefnum sem námsbrautinni tengjast. Starfið felst í miklum samskiptum, samvinnu og þjónustu við starfsmenn og nemendur námsbrautar í lögreglufræði og Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu. Verkefnastjóri fylgist með gæðum námsins og vinnur að úrbótum í samráði við brautarstjóra og námsnefnd ásamt því að skipuleggja það sem snýr að starfsnámi lögreglunema í samvinnu við kennara brautar. Einnig ber verkefnastjórinn ábyrgð á skráningu upplýsinga er varða nám lögreglufræðinema og er tengiliður við lögregluembætti landsins. Næsti yfirmaður er skrifstofustjóri hug- og félagsvísindasviðs.

Menntunar- og hæfniskröfur

  • Umsækjandi skal hafa háskólapróf í félagsvísindum eða lögfræði og/eða starfsréttindi sem lögreglumaður
  • Skipulögð, sjálfstæð og vönduð vinnubrögð, frjó hugsun, rík þjónustulund, jákvæðni og lipurð í mannlegum samskiptum, ásamt ábyrgðarkennd
  • Æskilegt er að viðkomandi hafi reynslu af verkefnastjórnun og þekkingu á opinberri stjórnsýslu. Starfsreynsla úr lögreglunni er kostur sem og reynsla af starfi í háskóla
  • Góð færni í íslensku og ensku er nauðsynleg. Færni í einu skandinavísku tungumáli er kostur

Um fullt starf er að ræða og er æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst og eigi síðar en 15. september 2018. Starfsstöð verkefnastjóra í lögreglufræði er á háskólasvæðinu á Akureyri.

Umsókn skal fylgja

  • Ítarleg náms- og starfsferilskrá
  • Staðfest afrit af öllum viðeigandi prófskírteinum
  • Kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni umsækjanda í starfið
  • Tilnefna skal þrjá meðmælendur, æskilegt er að einn þeirra sé næsti yfirmaður í núverandi starfi eða fyrra starfi umsækjanda

Umsóknarfrestur er til 1. ágúst 2018

Umsóknir ásamt fylgigögnum skal senda rafrænt á skrifstofu rektors Háskólans á Akureyri á netfangið starfsumsokn@unak.is. Ekki er notað staðlað umsóknareyðublað. Ófullnægjandi umsóknir eru ekki teknar til greina. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Umsóknin getur gilt í sex mánuði eftir að umsóknarfresti lýkur, sbr. 2. gr. reglna nr. 464/1996. Háskólinn á Akureyri áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Um launakjör fer samkvæmt kjarasamningi Félags háskólakennara á Akureyri og fjármálaráðherra.

Nánari upplýsingar

Edward Huijbens, formaður félagsvísinda- og lagadeildar, 460 8619, edward@unak.is.

 

Háskólinn á Akureyri stuðlar að jafnrétti kynjanna og hvetur konur jafnt sem karla til að sækja um laus störf.