434. fundur Háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Fundur var haldinn daginn 2.3.2022 gegnum fjarfundarbúnað á Teams.

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:30.

Mætt voru auk hans:

Bjarni S. Jónasson varafulltrúi háskólaráðs
Guðmundur Ævar Oddsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Hulda Dröfn Sveinbjörnsdóttir fulltrúi stúdenta
Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Sigríður Margrét Sigurðardóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Sunna Hlín Jóhannesdóttir varafulltrúi ráðherra


Fjarverandi/forföll:

Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Karl Frímannsson fulltrúi ráðherra

Einnig mætt:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu sem ritar fundargerð

Gestir:

Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála og greiningar
Jón Torfi Jónasson, formaður stjórnar vísindasjóðs HA

Fundurinn var upphaflega áætlaður þann 26. febrúar 2022 en af óviðráðanlegum orsökum þurfti að fresta honum. Rektor kynnti dagskrá fundarins og óskaði eftir að bæta við dagskránna umræðu um málefni Úkraínu, Rússlands og norðurslóða. Samþykkt.


Rektor bauð nýjan fulltrúa stúdenta í háskólaráði Huldu Dröfn Sveinbjörnsdóttur, velkomna, og þakkaði á sama tíma Nökkva Alexander Rounak Jónssyni, fráfarandi fulltrúa stúdenta, fyrir mjög gott samstarf í háskólaráði undanfarin tvö ár.

1. Fjármál og rekstur

Framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu og forstöðumaður fjármála og greininga sátu þennan lið fundarins.

 • Fjárhagsáætlun 2022
  Framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu fór yfir fjárhagsáætlun 2022. Áætlunin var ítarlega kynnt á síðasta fundi háskólaráðs og er nú lögð fram til formlegrar samþykktar háskólaráðs. Áætlunin er samþykkt.
  Í tengslum við fjárhagsáætlunina vilja fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráði bóka eftirfarandi:
  „Fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráði lýsa yfir vonbrigðum með að ekki sé áætluð hærri upphæð í vinnumatssjóð háskólans í fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 og telja að framlagið eigi að standa nær því að vera 12,5% af dagvinnulaunum akademískra starfsmanna í 50% starfi eða meira.“
  Í ljósi bókunar fulltrúa háskólasamfélagsins leggur rektor fram eftirfarandi bókun:
  „Málefni vinnumatssjóðs eru í ferli hjá samstarfsnefnd háskólans og Félags Háskólakennara á Akureyri. Það er ljóst að í stofnanasamningi er ekkert nefnt um 12,5% af tiltekinni upphæð og því telur rektor ekki æskilegt að fulltrúar í háskólaráði lýsi yfir slíkri afstöðu áður en samstarfsnefndin hefur lokið meðferð sinni á málinu og skilað niðurstöðu til háskólaráðs.“
 • Þriggja ára áætlun og stefnuskjal ríkisaðila 2022-2024
  Áætlun til þriggja ára lögð fram. Áætlunin er sett fram í samræmi við fjármálaáætlun stjórnvalda. Þriggja ára áætlun er endurskoðuð ár hvert í samræmi við endurskoðaða fjármálaáætlun stjórnvalda. Rektor kynnti einnig stefnuskjal ríkisaðila til þriggja ára, sem skilað er ár hvert til ráðuneytisins. Þessi aðferðarfræði er í þróun hjá hinu opinbera en skjalið er góður grunnur að samtali við ráðuneytið um málefni Háskólans á Akureyri.
 • Rekstraryfirlit 2021
  Framkvæmdastjóri fór yfir rekstraryfirlit og rekstrarniðurstöðu ársins 2021. Afgangur af rekstri er um 113 milljónir, sem skýrist að mestu af viðbótarframlagi vegna fjölgunar nemenda sem barst eftir að fjárhagsárinu lauk. Hér er um einskiptis greiðslu að ræða sem dreifist á fjárhagsáætlun skólans næstu þrjú árin. Mikilvægt verður að tryggja áframhaldandi fjármögnun á nemendaígildum frá og með skólaárinu 2023/2024.
  Framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu og forstöðumaður fjármála og greininga yfirgáfu fundinn.

2. Úthlutun úr rannsóknarsjóði og umræða um úthlutunarreglur

2201122


Jón Torfi Jónasson formaður stjórnar vísindasjóðs kom inn á fundinn.


Stjórn vísindasjóðs hefur lokið úthlutun úr rannsóknasjóði fyrir árið 2022. Sótt var um rúmlega 50 milljónir en 20 milljónir voru til úthlutunar. Umsóknir voru flestar í háum gæðaflokki og telur stjórnin að tilefni hafi verið til úthlutunar mun hærri fjárhæðar. Stjórnin telur afar brýnt að efla rannsóknasjóðinn, sem og aðra sjóði sem undir vísindasjóðinn heyra og skýra og samræma reglur. Stjórnin telur mikilvægt að fara í nokkrar nauðsynlegar breytingar og uppfærslur á reglum þessara sjóða og fór Jón Torfi yfir helstu atriðin.
Háskólaráð felur rektor að setja málið í farveg til að koma nauðsynlegum breytingum inn í reglur um vísindasjóð ásamt því að skoða þær hugmyndir sem fram hafa komið um breytingar á úthlutunarreglum rannsóknasjóðs, m.a.. frá stjórn sjóðsins, formanni stjórnarinnar og sem komu fram í niðurstöðu fýsileikaskýrslu sem skilað var árið 2020 um mögulegar breytingar á úthlutunarreglum rannsóknasjóðs og fyrirkomulagi úthlutunar á rannsóknafé til rannsakenda innan háskólans. Rektor fái aðkomu vísindaráðs, stjórnar vísindasjóðs og forstöðumanns Miðstöðvar doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna að þessari vinnu. Stefnt er að því að tillögur að breytingum liggi fyrir við lok þessa skólaárs svo hægt sé að taka þær til umræðu og afgreiðslu á fyrri hluta komandi haustmisseris. Þannig verði hægt að taka tillit til breytinganna við gerð fjárhagsáætlunar 2023 og úthlutað samkvæmt nýju fyrirkomulagið árið 2023.


Háskólaráð þakkaði Jóni Torfa fyrir komuna og hans framlag til þessara mála undanfarin ár.


Jón Torfi yfirgaf fundinn.

3. Skýrsla um jafnrétti og háskólastöður

Skýrsla um jafnrétti og háskólastöður tekin til umræðu en um er að ræða skýrslu sem unnin var fyrir menntamálaráðuneytið um stöðu jafnréttismála þegar kemur að akademískum framgangi í íslenskum háskólum.
Umræða skapaðist um niðurstöður skýrslunnar og stöðu jafnréttismála innan íslenskra háskóla og Háskólans á Akureyri sérstaklega.
Háskólaráð fagnar skýrslunni og felur rektor að ræða við formann jafnréttisráðs um kynningu á niðurstöðum skýrslunnar innan skólans. Jafnréttisráði verði jafnframt falið að fjalla um hvort og hvaða aðgerðir og viðbrögð þarf hugsanlega að grípa til innan HA í ljósi þessara niðurstaða og hvernig þær tengjast aðgerðum í jafnréttisáætlun.

4. Endurskoðun á reglum HA - staða mála

2103084


Rektor fór yfir stöðu mála í innleiðingu á endurskoðuðum reglum fyrir HA. Málin í farvegi en mikilvægt er að koma á framfæri við starfsfólk reglubundnum upplýsingum um stöðu breytingarferilsins og helstu aðgerðir.

5. Bókfærð mál til samþykktar

 • Innkaupastefna Háskólans á Akureyri. Samþykkt.
 • Nám- og kennsluskrá 2022-2023. Samþykkt.

6. Til kynningar

 • Leiðarvísir vegna innritunar samkvæmt raunfærnimati í félagsvísindadeild HA (2112024)
  • Gögn lögð fram til kynningar. Málið verður ítarlega kynnt og lagt fram til samþykktar á næsta fundi háskólaráðs.

7. Málefni Úkraínu, Rússlands og norðurslóða

Rektor upplýsti um það samtal sem á sér staða innan háskólans og innan íslenskra háskóla um ástandið í Úkraínu. Sem hluti af því sendi samstarfsnefnd háskólastigsins á Íslandi, sem mynduð er af rektorum allra íslensku háskólanna, frá sér yfirlýsingu í gær þar sem lýst var yfir samstöðu með nemendum og starfsfólki úkraínskra háskóla sem og öllum íbúum Úkraínu.
Háskólaráð tekur undir yfirlýsingu samstarfsnefndar háskólastigsins og lýsir yfir miklum áhyggjum af ástandinu. Háskólinn á Akureyri lýsir yfir samstöðu með íbúum Úkraínu og er reiðubúinn til þátttöku í þeim mannúðaraðgerðum sem stjórnvöld óska eftir af hálfu háskólanna.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:54.