436. fundur Háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Fundur var haldinn fimmtudaginn 28.4.2022. Fundarherbergi R262, Borgir.

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:34.

Mætt voru auk hans:

Bjarni S. Jónasson varafulltrúi háskólaráðs
Guðmundur Ævar Oddsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Hulda Dröfn Sveinbjarnardóttir fulltrúi stúdenta
Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Kristrún Lind Birgisdóttir fulltrúi ráðherra, í fjarfundi
Sigríður Margrét Sigurðardóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Forföll:

Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi háskólaráðs

Einnig mætt:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu, sem ritar fundargerð

Rektor kynnti dagskrá.

1. Fjármál og rekstur

2201085
Rektor kynnti stöðu háskólans í heild fyrstu þrjá mánuði ársins. Staðan í heild í jafnvægi og innan ramma áætlunar.
Rætt um fjármögnun skólans til næstu ára. Samkvæmt fjármálaáætlun stjórnvalda er fjármögnun tryggð næstu tvö árin miðað við núverandi rekstur en ástæða er til að fylgjast vel með og taka þátt í umræðu um endurskoðun reiknilíkans háskólanna í ráðuneytinu svo hægt sé að gera áætlanir lengra fram í tímann og tryggja rekstur til lengri tíma.

2. Mál til upplýsinga og kynningar

 • Ársfundur Háskólans á Akureyri
  • Ársfundur háskólans verður haldinn þann 25. maí n.k. kl. 15:00 Vegna ársfundar mun fundur háskólaráðs þann dag hefjast kl. 12 í stað 13:30.
 • Fyrirkomulag brautskráningar 2022
  • Rektor kynnti fyrirkomulag brautskráningar 2022. Ákveðið hefur verið að viðhafa sambærilegt fyrirkomulag og 2021, þ.e. 3 athafnir, ein fyrir brautskráningu framhaldsnema og tvær fyrir brautskráningar úr grunnnámi. Ástæðan fyrir 3 athöfnum er m.a. að einfalda athöfnina, nýta húsnæðið betur og gefa rými fyrir gesti brautskráningarkandídata. Streymt verður frá athöfnunum.
 • Norðanátt
  • Samstarfsverkefni aðila á Norðurlandi og Norðurlandi-vestra um nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi. Eimur heldur utan um verkefnið og hefur rektor átt viðræður við Eim um þátttöku og aðkomu Háskólans á Akureyri og eru þær viðræður enn í gangi. Stefnt er að því að gerður verði samstarfssamningur við Eim sem verði þá farvegur fyrir ráðgjöf og utanumhald í málum sem varða nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, t.d. þátttöku HA í gullegginu, nýsköpunarvikuna o.fl.
 • Samstarf við Háskólann í Reykjavík um nám í tæknifræði
  • Viðræður eru í gangi við Háskólann í Reykjavík um nám í tæknifræði á Akureyri með sambærilegu fyrirkomulagi og tölvunarfræði. Þrýstingur er frá fyrirtækjum á svæðinu vegna mikillar vöntunar á hæfu starfsfólki á þessu sviði og því er málið í skoðun hvað fjármögnun varðar. Háskólinn í Reykjavík er tilbúinn til að taka inn nemendur í þetta nám strax í haust fáist til þess fjármagn.
 • Staða í fjölda umsókna um nám fyrir haustmisseri 2022
  • Rektor fór yfir stöðuna í fjölda umsókna fyrir næsta skólaár.
 • Verklagsreglur um ráðningu forseta fræðasviðs
  • Lagðar fram til kynningar drög að verklagsreglum um ráðningu forseta fræðasviða.


3. Bókfærð mál til samþykktar

 • Breytingar á reglum um samkeppnispróf í hjúkrunarfræði
  • Frestur nemenda sem komast í gegnum samkeppnisprófi til að staðfesta námspláss á vormisseri 1. námsárs færður til upphafs misseris. Samþykkt.
 • Upplýsingaöryggisstefna HA
  • Lagt fram minnisblað frá verkefnastjóra tæknimála um endurnýjun upplýsingaöryggisstefnu. Gildandi stefna hefur verið rýnd og ekki talin þörf á endurskoðun. Stefnan því lögð fram í háskólaráði, endurnýjuð óbreytt. Endurnýjun stefnunnar samþykkt.

4. Stefnumótun HA

2204037
Rektor fór stuttlega yfir stöðu mála út frá núgildandi stefnu HA sem gildir út árið 2023 og rakti stuttlega áætlanir um vinnu við næstu stefnu HA sem taka á gildi í upphafi ársins 2024, en undirbúningur er nú þegar hafinn. Lagt er upp með að mestur þungi vinnunnar verði næsta skólaár og markmiðið að drög að nýrri stefnu verði tilbúin á haustmisseri 2023. Gert er ráð fyrir að ráðinn verði ytri ráðgjafi til að vinna með stýrihópi stefnumótunar innan háskólans sem leiðir og heldur utan um vinnuna þvert á háskólann.

Líflegar umræður sköpuðust um stefnuna, eðli háskóla og hugsanlega framtíðarþróun, bæði íslenska háskólakerfisins og Háskólans á Akureyri innan þess.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:05.