439. fundur Háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS

Fundur var haldinn fimmtudaginn 18.8.2022 í fundarherbergi R262, Borgum.

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:30.

Mætt voru auk hans:

Bjarni S. Jónasson varafulltrúi háskólaráðs
Guðmundur Ævar Oddsson fulltrúi háskólasamfélagsins, í fjarfundi, kom inn á fund kl. 14
Hulda Dröfn Sveinbjarnardóttir fulltrúi stúdenta
Karl Frímannsson varafulltrúi ráðherra
Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Sigríður Margrét Sigurðardóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Forföll:

Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Kristrún Lind Birgisdóttir fulltrúi ráðherra

Einnig mætt:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu

Gestir:

Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu

Rektor kynnti dagskrá.

1. Starfsáætlun háskólaráðs

2208030

Drög að starfsáætlun háskólaráðs lögð fram til kynningar með fyrirvara um breytingar.

2. Fjármál og rekstur

2201085

Framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu, Hólmar Erlu Svansson, kynnti rekstraryfirlit janúar til júlí. Rekstrarstaða háskólans í heild er neikvæð um 39,3 milljónir, sem er umfram það sem áætlun gerði ráð fyrir. Halda þarf vel á rekstrinum svo ekki verði umframkeyrsla við árslok. Ljóst er að samkvæmt fjármálaáætlun stjórnvalda er ekki gert ráð fyrir viðbótum í háskólakerfið árin 2023 til 2025 og því mikilvægt að gæta aðhalds svo rekstur skólans haldist áfram í jafnvægi.

Umræður sköpuðust í tengslum við ábyrgð á fjármálum og ábyrgð á áætlanagerð á fræðasviðunum í kjölfar breytinga á reglum og skipulagi háskólans og skiptingu háskólans í tvo skóla. Mikilvægt er að halda vel utan um og styðja við fræðasviðin í því breytingaferli sem fram undan er.

3. Nemendafjöldi á haustmisseri – innritun nýnema

Lagt fram og kynnt yfirlitsskjal yfir nemendafjölda, bæði heildarfjölda og fjölda nýnema. Innritaðir nýnemar fyrir haustmisseri 2022 eru nú samtals 1094 og fjöldi nemenda samtals á haustmisseri er 2466. Þetta er sambærilegur fjöldi og síðustu tvö ár á undan og því ákveðinn stöðugleiki í nemendafjölda miðað við síðustu ár.

Kynjaskipting nemendahópanna var rædd en konur er enn sem áður í miklum meirihluta stúdenta við Háskólann á Akureyri.

Framkvæmdastjóri yfirgaf fundinn.

4. Stefnumótun og breytingaferli

2204037

Rektor fór yfir stöðu mála við vinnuna fram undan við stefnumótun og breytingaferli. Elín Díanna Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor, stýrir vinnunni við stefnumótun innan háskólans í samstarfi við stefnumótunarráðgjafa. Gert er ráð fyrir að halda tvo vinnufundi með háskólaráði vegna stefnumótunar á vormisseri en jafnframt mun Elín Díanna reglulega koma á fundi háskólaráðs í vetur til að gera grein fyrir stöðu mála í verkefninu.

Elín Díanna er jafnframt til aðstoðar og ráðgjafar vegna innleiðingar og breytinga á fræðasviðum háskólans í kjölfar nýrra reglna og skipulagsbreytinga sem þeim fylgja. Ekki hefur enn tekist að ráða forseta fyrir fræðasviðin og þurfti að auglýsa báðar stöðurnar aftur. Vonast er til að ráðningum forseta fræðasviða verði lokið fyrir áramót og nýir aðilar taki við í síðasta lagi um áramót. Fram að þeim tíma hefur rektor sett Birgi Guðmundsson prófessor sem forseta Hug- og félagsvísindasviðs. Unnið er að lausn við að setja tímabundinn fræðasviðsforseta með sama hætti við Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið.

Fulltrúi stúdenta kom á framfæri áherslum stúdenta varðandi stefnumótun og framtíðarsýn til næstu ára. Rektor hvatti fulltrúa stúdenta í háskólaráði og stúdentaráði til að óska eftir fundi með aðstoðarrektor til að koma þessum áhersluatriðum að inn í stefnumótunarvinnuna. En jafnframt er gert ráð fyrir að stúdentar verði virkir þátttakendur í þeirri vinnu sem fram undan er í stefnumótun í vetur.   

Skemmtilegar umræður sköpuðust um framtíðarsýnina fyrir Háskólann á Akureyri, samfélagið á Norðurlandi og íslenskt samfélag í alþjóðlegu samfélagi.

5. Bókfærð mál til samþykktar

  • Verklagsreglur um störf valnefnda deilda og fræðasviða við Háskólann á Akureyri (2208031)
  • Leiðrétting á reglum um gæðaráð (2007013)

Ofangreind mál eru samþykkt.         

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:30.