451. fundur Háskólaráðs

Fundargerð háskólaráðs

Fundur var haldinn fimmtudaginn 31. ágúst 2023 á Borgum, R262.
 
Starfandi rektor Elín Díanna Gunnardóttir setti fund kl. 13:34.
 
Mætt voru auk hans:
Bjarni S. Jónasson fulltrúi háskólaráðs
Guðmundur Kr. Óskarsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Hulda Dröfn Sveinbjörnsdóttir fulltrúi stúdenta
Katrín Björg Ríkarðsdóttir varafulltrúi háskólaráðs
Kristrún Lind Birgisdóttir fulltrúi ráðherra
Sigríður Margrét Sigurðardóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
 
Einnig mætt:
Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu, sem ritar fundargerð
 
Gestir:
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála og greiningar
Helga María Pétursdóttir verkefnastjóri gagnagreiningar og fjárhags
 
Rektor kynnti dagskrá.
 

1. Fjármál og rekstur

2302002
Harpa Halldórsdóttir og Helga María Pétursdóttir komu inn á fundinn.
Harpa Halldórsdóttir, forstöðumaður fjármála fór yfir rekstraryfirlit janúar til júlí. Staðan neikvæð en ekki er um mikið frávik frá áætlun að ræða sem ekki hefur áður verið fjallað um, s.s. ófyrirséður kostnaður vegna öryggisbrests í upphafi árs, en reksturinn þó í járnum og fylgjast þarf vel með rekstrinum á seinni hluta ársins.
Harpa og Helga yfirgáfu fundinn.

2. Fundarskipulag og starfsáætlun háskólaráðs 2023-2024

2308049
Starfsáætlun lögð fram til kynningar með fyrirvara um nauðsynlegar breytingar á hverjum tíma.

3. Innritun nýnema og heildarnemendafjöldi

2308050
Rektor kynnti málið. Heildarfjöldi nemenda 2590 þar af eru 1228 nýnemar. Heildarfjöldi nemenda og nýnema hefur verið nokkuð stöðugur undanfarin ár.

4. Stjórnunar- og aðstöðugjöld af rannsóknastyrkjum

2308051
Rektor kynnti drög að hugmyndum að fyrirkomulagi og framsetningu á reglum um stjórnunar- og aðstöðugjöld af rannsóknastyrkjum eftir vinnu sem átt hefur sér stað innan háskólans núna í nokkur misseri. Tillögurnar samþykktar og gert ráð fyrir að rektor leggi fram reglur til samþykktar á fundi háskólaráðs í september á grundvelli þessara tillagna. Gert verði ráð fyrir að reglurnar verði endurskoðaðar í síðasta lagi eftir tvö ár í ljósi reynslunnar.

5. Stefnumótun og nýsköpun

2204037
Rektor fór yfir stöðuna í stefnumótunarvinnu. Kynningar eru hafnar á sviðum og stjórnsýslueiningum á þeim drögum sem nú liggja fyrir og vinnustofur verið haldnar og eru framundan þar sem einingar og svið ræða drögin út frá stöðu sinna eininga og hlutverki innan stefnunnar með það m.a. að markmiði greina verkefni sem þarf að forgangsraða til að hægt sé að ná takmörkum stefnunnar.
Vinna við uppbyggingu á nýsköpun hefur verið í gangi á nokkrum stöðum innan háskólans undanfarin misseri og sem hluti af því fór fram síðasta vetur samstarfsverkefni Norðanáttar og HA um stöðu nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi innan háskólans og liggur fyrir greinagerð um það verkefni.
Starfandi rektor leggur til að nýsköpun verði þverlægur grunnur í stefnunni og sett fram sem skilgreint verkefni og aðgerðir sem fjármagnaðar verða innan stefnunnar og þannig verði haldið áfram að vinna með þróun á stöðu og fyrirkomulagi uppbyggingar stuðnings við nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi innan háskólans, sem áframhald þeirrar vinnu sem átt hefur sér stað innan háskólans í þessum málum sl. misseri. Samþykkt.

6. Samstarf háskóla – beiðni frá Háskólanum á Bifröst

2308052
Rektor Háskólans á Bifröst hefur óskað eftir samtali við Háskólann á Akureyri um að láta gera fýsileikakönnun um mögulegt samstarf eða jafnvel sameiningu háskólanna tveggja.
Háskólaráð samþykkir að fela rektor að hefja samtal við Háskólann á Bifröst og láta gera frumathugun um mögulegt samstarf eða sameiningu þessara skóla, án allra skuldbindinga. Gert er ráð fyrir að rektor upplýsi háskólaráð um öll skref sem tekin verði í málinu.

7. Ráðning rektors

2308053
Skipunartími rektors HA rennur út þann 30. júní 2024. Samkvæmt 23. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ber að tilkynna embættismönnum eigi síðar en 6 mánuðum áður en skipunartími rennur út hvort embættið verður auglýst laust til umsóknar. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og 10. gr. reglna nr. 694/2022 fyrir Háskólann á Akureyri skipar ráðherra rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs og háskólaráð tekur ákvörðun um hvort auglýsa skuli stöðuna þegar skipunartími rennur út. Samkvæmt reglum nr. 694/2022 fyrir Háskólann á Akureyri, sem samþykktar voru og tóku gildi árið 2022, skal embættið auglýst án undantekninga ef sitjandi rektor hefur gegnt embættinu í tvö tímabil og auglýsing birt á haustmisseri þess skólaárs sem skipunartími rennur út.
Í ljósi þess að Eyjólfur Guðmundsson rektor er þann 30. júní 2024 að ljúka öðru tímabili sínu sem rektor HA samþykkir háskólaráð hér með að staðan skuli auglýst í samræmi við ofangreind lög og reglur fyrir Háskólann á Akureyri. Skrifstofustjóra rektorsskrifstofu er falið að annast framkvæmd á auglýsingu á embætti rektors, en drög að auglýsingu liggja fyrir fundinum til kynningar.

8. Bókfært til samþykktar

Breyting á stjórn Végeirsstaðasjóðs (2209050)
  • Þorsteinn Gunnarsson, fyrrverandi rektor HA er skipaður í stjórn Végeirstaðasjóðs í stað Guðrúnar Maríu Kristinsdóttir sem óskaði eftir að láta af störfum í stjórninni sl. vor.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:04.