Reglur um Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri

NR. 202/2017

SAMÞYKKTAR 23.2.2017

Með breytingum nr. 251/2021

vefútgáfa síðast uppfærð 13.4.2021

Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
 og í PDF skjali gildir PDF skjalið

1. gr. Almennt

Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri (HHA) er vísindaleg rannsóknastofnun sem til var stofnað með rammasamningi um samstarf milli Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA) nú Sjúkrahússins á Akureyri [(SAk)]1 og Háskólans á Akureyri (HA) dagsettum 7. október 2002. Með samningi þessum vilja Sjúkrahúsið á Akureyri og HA efla kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindum með því að auka samstarf og gera þessa þætti í starfi stofnananna sýnilegri. Á ensku ber stofnunin heitið „Institute of Health Science Research, University of Akureyri“.

1) Breytt með reglum nr. 251/2021

2. gr. Hlutverk

Meginhlutverk stofnunarinnar eru eftirfarandi:

 1. að vera sameiginlegur vettvangur til rannsókna fyrir starfsmenn [Sak]1 og HA, svo og annarra heilbrigðisstofnana eftir nánara samkomulagi við þær,
 2. að efla tengsl rannsókna og kennslu og samhæfa rannsóknir í heilbrigðisvísindum sem unnar eru við HA, [Sak]2 og aðrar heilbrigðisstofnanir,
 3. að styðja kennslu og þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og veita nemendum í framhaldsnámi í heilbrigðisgreinum aðstoð við rannsóknastörf eftir því sem kostur er,
 4. að stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaaðila á sviði heilbrigðisvísinda og sterkum tengslum við atvinnu- og þjóðlíf,
 5. að sinna þjónustuverkefnum í rannsóknum á heilbrigðissviði,
 6. að gefa út og kynna niðurstöður rannsókna í heilbrigðisvísindum,
 7. að veita fræðslu og ráðgjöf varðandi málefni tengd heilbrigðisþjónustu,
 8. að standa fyrir og stuðla að því að haldin séu málþing og ráðstefnur á sviði heilbrigðisvísinda,
 9. að halda eða stuðla að því að haldin séu námskeið og fyrirlestrar.

Að öðru leyti mótar stjórn stofnunarinnar starfsemi hennar.

1) Breytt með reglum nr. 251/2021
2) Breytt með reglum nr. 251/2021

3. gr. Stjórn

[Stjórn HHA er skipuð sex fulltrúum, þremur fulltrúum Háskólans á Akureyri og þremur fulltrúum Sjúkrahússins á Akureyri. Þá skipar hvor stofnun einn varamann fyrir sig. Fyrir hönd SAk sitja framkvæmdastjóri lækninga, framkvæmdastjóri hjúkrunar og forstöðumaður deildar mennta- og vísinda. Fyrir hönd HA sitja forseti Heilbrigðisvísindasviðs HA ásamt tveimur akademískum starfsmönnum tilnefndir af HA til tveggja ára í senn. Stjórn skipar sér formann til eins árs úr hópi stjórnarmanna þar sem formennskan skiptist á milli stofnana. Forstöðumaður HHA situr fundi stjórnar.  

Forstöðumaður sér um daglegan rekstur stofnunarinnar og framfylgir stefnu og ákvörðunum stjórnar á hverjum tíma. Stjórnin mótar stefnu stofnunarinnar og setur reglur um þá þætti í starfsemi hennar sem þurfa þykir á hverjum tíma. Þá sker stjórnin úr vafaatriðum sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunarinnar.]1

1) Breytt með reglum nr. 251/2021 

4. gr. Stjórnarfundir

[Stjórn HHA skal reglulega halda sérstaka stjórnarfundi fyrir stofnunina þar sem málefni hennar skulu tekin á dagskrá. Stjórnarfundi skal að jafnaði halda eigi sjaldnar en tvisvar sinnum á misseri. Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Falli atkvæði jöfn á slíkum fundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstörfum. Stjórnin heldur fundargerðir þar sem ákvarðanir hennar skulu skráðar. Fundargerðir skulu staðfestar í lok fundar, en eigi síðar en á næsta fundi á eftir. ]1

1) Breytt með reglum nr. 251/2021

5. gr. Aðstaða

HA og Sjúkrahúsið á Akureyri láta stofnuninni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað í samræmi við ákvæði samstarfssamnings milli stofnananna.

6. gr. Ráðning starfsmanna

[Starfsmenn heilbrigðisstofnana sem gert hafa samkomulag við HHA og SAk, uppfylla hæfisskilyrði um stöðu háskólakennara, sbr. lög um opinbera háskóla nr. 85/2008, á vettvangi fræða sem annaðhvort eru kennd við Heilbrigðisvísindasvið HA eða tengjast viðfangsefnum þess, geta sótt um akademískar stöður við HHA. Stöðurnar  eru að lágmarki 20%  og eru rannsóknarstöður við Heilbrigðisvísindasvið HA.  Um umbun fyrir þetta vinnuframlag er samið sérstaklega við þá stofnun þar sem umsækjandi er í aðalstarfi. Akademískir starfsmenn HHA fá sérstaklega greitt fyrir kennslu við HA skv. kjarasamningum stundakennara. Stjórn ákveður hversu margar stöður eru heimilar við HHA á hverjum tíma. Stöðurnar veitast til þriggja ára í senn. Rektor ræður í stöður við HHA að fengnu áliti dómnefndar HA, Heilbrigðisvísindasviðs HA og stjórnar HHA. Stöðurnar eru auglýstar á innra neti viðkomandi stofnana.

Dómnefnd HA metur hæfi umsækjenda um stöður við HHA samkvæmt þeim reglum sem gilda um ráðningu í stöður við HA. Dómnefndin ákveður hæfi umsækjenda til þess að gegna stöðu lektors, dósents eða prófessors. Sá sem hlýtur slíkan hæfisdóm skal njóta sambærilegra réttinda og gegna sambærilegum skyldum og lektorar, dósentar og prófessorar eftir því sem við á, þótt þeir séu ráðnir í aðalstarf við aðra stofnun, enda sé slíkt í samræmi við lög, reglugerðir og kjarasamninga skv. reglum sem gilda um ráðningu. Um framgang gilda sömu reglur fyrir þessar stöður og gilda um akademíska starfsmenn HA. Að öðru leyti taka réttindi og skyldur mið af gildandi kjarasamningi viðkomandi starfsmanns og reglna Háskólans á Akureyri.]1


1) Breytt með reglum nr. 251/2021

7. gr. Reglur um akademískar nafnbætur

Starfsmenn Sjúkrahússins á Akureyri með aðalstarf á sjúkrahúsinu og sem sinna kennslu og rannsóknum eiga rétt á að sækja um mat á hæfi til að hljóta akademíska nafnbót við HHA í samræmi við gildandi reglur HA. Viðurkenning á akademísku hæfi veitir viðkomandi starfsmanni heimild til að bera þá akademísku nafnbót sem hann er metinn hæfur til í stöðu klínísks lektors, dósents eða prófessors. Í því felst einnig að starfsmaðurinn birtir verk sín sameiginlega í nafni sjúkrahússins og Heilbrigðisvísindasviðs HA. Til þess að formfesta þetta hlutverk gera nafnbótarhafi og HHA formlegan samning sín á milli um þátttöku í starfi sviðsins og það akademíska starf (réttindi og skyldur) sem nafnbótin veitir. Rektor veitir nafnbætur að fengnu áliti dómnefndar, nafnbót er veitt til 5 ára en fellur niður leggi starfsmaður niður störf við sjúkrahúsið.

8. gr. Rannsóknir við Heilbrigðisvísindastofnun

[Rannsóknir við HHA eru vistaðar við Heilbrigðisvísindasvið HA. Birting vísindagreina eða annars afraksturs rannsóknanna, s.s. kynningar rannsóknaverkefna og útdrátta á ráðstefnum eða í fjölmiðlum, skal, auk þess að vera í nafni viðkomandi vísindamanns, einnig vera í nafni HA og SAk. HHA heldur árlega kynningu á rannsóknaverkefnum sem unnin eru við stofnunina. Í upphafi hvers árs skulu þeir sem ráðnir eru eða hafa akademíska nafnbót við HHA gera stjórnsýslu rannsókna við HA grein fyrir áætlunum sínum varðandi rannsóknir og gefa skriflega skýrslu um rannsóknir liðins árs.]1

1) Breytt með reglum nr. 251/2021

9. gr. Fjármál, fjárhagsáætlun, reikningsár, ársreikningur o.fl.

Tekjur HHA geta verið eftirfarandi:

 1. styrkir til einstakra verkefna,
 2. greiðslur fyrir þjónustustarfsemi,
 3. tekjur af útgáfustarfsemi,
 4. aðrar tekjur, t.d. gjafir.

Við stofnunina er heimilt að starfrækja rannsóknasjóð. Um hann gilda reglur sem stjórn stofnunarinnar setur. Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi Háskólans á Akureyri. Stjórnin ber fjárhagslega ábyrgð á HHA og samþykkir rekstrar- og fjárhagsáætlun hvers árs fyrir upphaf nýs starfsárs. Samningar um þjónusturannsóknir þurfa samþykki stjórnar. Sé um að ræða útselda þjónustu, sem veitt er í samkeppni við einkaaðila, skal sú starfsemi fjárhagslega afmörkuð frá öðrum rekstri stofnunarinnar í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

10. gr. Gildistaka

Reglur þessar sem stefnunefnd hefur sett öðlast gildi með samþykkt háskólaráðs á grundvelli heimildar í 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Við gildistöku þessara reglna falla úr gildi reglur nr. 876/2003 um Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri. Þannig samþykkt af háskólaráði þann 23. febrúar 2017.

 

Háskólanum á Akureyri, 23. febrúar 2017.
Eyjólfur Guðmundsson rektor.

Breytt með reglum nr. 251/2021.