Reglur um innritun nýrra stúdenta á 3. eða 4. námsár í hjúkrunarfræði

NR. 140/2021

SAMÞYKKTAR 21.1.2021

vefútgáfa síðast uppfærð 14.4.2021

Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
og í PDF skjali gildir PDF skjalið

1. gr.

Um innritun í nám í hjúkrunarfræði til BS prófs á fyrsta námsári gilda almennar reglur Háskólans á Akureyri nr. 387/2009 um inntöku stúdenta og takmörkun á fjölda nemenda í einstaka námsgreinar, með áorðnum breytingum. Einungis er tekið við umsóknum nýrra stúdenta sem hafa lokið a.m.k. 4 misserum í hjúkrunarfræði við aðra háskólastofnun. Aðeins er unnt að hefja nám að hausti.

Nú hefur stúdent lokið hluta náms í hjúkrunarfræði við aðra viðurkennda háskólastofnun og óskar eftir innritun á 3. eða 4. námsár í hjúkrunarfræði til BS prófs við Háskólann á Akureyri. Innritun er þá háð mati á fyrra námi stúdents skv. almennum reglum HA og sértækum reglum hjúkrunarfræðideildar um mat á fyrra námi, reglum hjúkrunarfræðideildar um námsframvindu og takmörkun á fjölda nemenda skv. ákvörðun háskólaráðs hverju sinni. 

2. gr.

Við mat á umsóknum þeirra sem sækja um innritun á skv. 1. gr. 2. mgr. þarf eftirfarandi skilyrðum að vera fullnægt:

  1. Skráðir nemendur á tiltekin námsár eru færri en takmörkun stúdenta gerir ráð fyrir skv. ákvörðun háskólaráðs
  2. Stúdent skal hafa lokið sambærilegum námskeiðum við viðurkennda háskólastofnun og sett eru fram í þeirri kennsluskrá sem er í gildi er stúdent sækir um innritun til náms. Stúdent skilar inn gögnum þar að lútandi ásamt rökstuðningi til matsnefndar hjúkrunarfræðideildar. Fylgja skal bæði almennum reglum Háskólans á Akureyri nr. 387/2009 sem og reglum hjúkrunarfræðideildar, m.a. um lágmarkseinkunn og hámarkstíma frá því að námskeiði lauk.
  3. Stúdent óskar eftir innritun innan þeirra tímamarka sem reglur Háskólans á Akureyri nr. 387/2009 segja til um. Ekki er tekið við umsóknum utan þess tíma. Aðeins er unnt að hefja nám að hausti.

3. gr.

Séu umsóknir um innritun stúdenta sem lokið hafa námi við aðra viðurkennda háskólastofnun og sækja um að hefja nám við Háskólann á Akureyri fleiri en unnt er að veita inngöngu mun val stúdenta byggjast á eftirtöldum þáttum:

  1. Einkunnum úr fyrri námskeiðum í hjúkrunarfræði
  2. Mat á hæfni, þekkingu og færni í klínísku námi
  3. Viðtölum ef þurfa þykir

4. gr.

Nú hlýtur nemandi skólavist í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Skv. úrskurði matsnefndar um mat á fyrra námi skal nemandi innritaður á tiltekið námsár og skal það gert með tilliti til reglna um forkröfur áfanga og námsframvindu: Tekið skal fram að nemandi þarf að ljúka námskeiðum samkvæmt námskrá fyrsta og annars námsárs, áður en hann hefur nám á þriðja námsári.

5. gr.

Reglur þessar, sem staðfestar voru á deildarfundi hjúkrunarfræðideildar í október 2018, með breytingum samþykktum 28. Apríl 2020, samþykktar í háskólaráði 21. Janúar 2021, eru settar á grundvelli 3. mgr. 19. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Reglurnar gilda frá og með háskólaárinu 2020-2021.

 

Háskólinn á Akureyri, 21. janúar 2021
Eyjólfur Guðmundsson, rektor