Reglur um rannsóknamisseri kennara við Háskólann á Akureyri

NR. 355/2012

SAMÞYKKTAR Í HÁSKÓLARÁÐI 30.3.2012

Með breytingum nr. 636/2013 og nr. 853/2020

vefútgáfa síðast uppfærð 10.9.2020

Prentgerð (pdf)

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
 og í PDF skjali gildir PDF skjalið

 

Inngangur

Háskólinn á Akureyri er samkvæmt lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 sjálfstæð vísindaleg mennta- og rannsóknastofnun. Hlutverk hans er að sinna kennslu, rannsóknum, þekkingarleit og sköpun á sviði vísinda, fræða, tækniþróunar eða lista. Samkvæmt 15 gr. ofannefndra laga setur háskólaráð reglur um starfsskyldur þeirra sem eru ráðnir í akademísk störf, sem og um leyfi þeirra frá störfum. Í [21. gr.]1 reglna nr. 387/2009 fyrir Háskólann á Akureyri er tilgreind heimild háskólaráðs til að veita fastráðnum kennurum við háskólann rannsóknamisseri eftir nánari reglum sem háskólaráð setur. Háskóli er miðstöð þekkingar og hluti af alþjóðlegu mennta- og vísindasamfélagi. Rannsóknamisserum er ætlað að gagnast bæði kennurum og viðkomandi sviði/deild Háskólans á Akureyri. Kennarar sinna eingöngu rannsóknum á meðan á rannsóknamisseri stendur.

1) Breytt með reglum nr. 853/2020.

I. Rannsóknamisseri

1. gr.

a. [Háskólakennarar, þ.e. prófessorar, dósentar, lektorar og aðjúnktar við Háskólann á Akureyri geta sótt um rannsóknamisseri að uppfylltum þeim skilyrðum sem tilgreind eru í liðum b.-g. hér á eftir. Heimild til rannsóknamisseris er ekki veitt nema viðkomandi kennari hafi sinnt fullri kennslu- og stjórnunarskyldu næstliðin sex eða tólf misseri þegar veitt rannsóknarmisseri hefst og fer það eftir því hvort sótt er um eitt eða tvö samfelld rannsóknamisseri. Réttur til rannsóknarmissera safnast ekki upp á ráðningartíma starfsmanns heldur hefst nýtt tímabil að loknu hverju rannsóknarmisseri.]1

b. Þeir einir eiga kost á rannsóknamisseri sem sýnt geta fram á að samanlögð stig vegna rannsókna nemi að minnsta kosti 10 stigum á ári að meðaltali, á síðustu 3-5 árum, eftir því hvort er hagstæðara fyrir viðkomandi umsækjanda. [Frá og með 15. september 2014 þurfa umsækjendur að hafa uppfyllt a.m.k. 10 rannsóknastig (aflstig) að meðaltali á ári úr neðangreindum flokkum Matskerfis opinberra háskóla:]2

i. A2 (bækur), þó ekki A 2.4 og A 2.5

ii. A3 (bókakaflar), þó ekki A 3.4

iii. A4 (tímaritsgreinar), að undanskildum flokki A 4.4

iiii. A5.1 (greinar í alþjóðlegum ráðstefnuritum)

c. [Háskólakennarar]3 sem gegna a.m.k. 50% stöðu skulu eiga rétt á að sækja um rannsóknamisseri á sama hátt og kennarar í fullu starfi. Þegar um skert starfshlutfall er að ræða þá skulu ofangreind viðmiðunarmörk metin með hliðsjón af starfshlutfalli samkvæmt ráðningarsamningi.

d. Sviðsforsetar, deildarformenn og brautarstjórar ávinna sér rétt til að sækja um rannsóknamisseri eins og þeir hafi gegnt almennri kennslustöðu. Einungis þeir sem uppfylla ofangreint lágmark um stig vegna birtinga á ritrýndu efni geta sótt um rannsóknamisseri.

e. [Háskólakennarar]4 verða að hafa starfað að lágmarki sex misseri (3 ár) til að geta sótt um eitt rannsóknamisseri eða tólf misseri (6 ár) til að geta sótt um tvö rannsóknamisseri.

f. Kennari sem  sækir um  rannsóknamisseri skal skila tillögu til sviðsforseta/deildarformanns um hver sinni kennslu hans meðan á rannsóknamisseri stendur þannig að tryggt verði að kennsla fari fram með eðlilegum hætti í þeim námskeiðum sem hann ber ábyrgð á eða tekur þátt í.

g. Hafi kennari af óviðráðanlegum ástæðum ekki uppfyllt kennsluskyldu sína við Háskólann á Akureyri, t.d. vegna veikinda eða barnsburðarleyfis, hefur það ekki áhrif á rétt hans til rannsóknamisseris. Yfirvinna kennara eykur ekki rétt hans til rannsóknamisseris, né hefur áhrif á laun hans í rannsóknamisserinu.

1) Breytt með reglum nr. 853/2020.
2) Breytt með reglum nr. 636/2013.
3) Breytt með reglum nr. 853/2020.
4) Breytt með reglum nr. 853/2020.

II. Umsóknir

2. gr.

a. Umsóknir um rannsóknamisseri fyrir næsta skólaár skulu berast á þar til gerðum eyðublöðum til stjórnsýslu rannsókna Háskólans á Akureyri í síðasta lagi 15. september ár hvert.

b. Í umsókn skulu gefnar greinargóðar upplýsingar varðandi áform umsækjanda um nýtingu rannsóknamisseris, t.d. um markmið, tengingu við vísindastofnanir jafnt erlendis sem innanlands, áætlaðan afrakstur, birtingu niðurstaðna og kynningar á þeim. Skal miða við að greinargerðin sé 500-1000 orð. Heimilt er að skila fylgiskjölum með umsókninni.

c. Til þess að koma til álita varðandi veitingu rannsóknamisseris þurfa umsækjendur að hafa skilað árlega stigamatsskýrslum fyrir a.m.k. sl. þrjú ár. Skýrsla um síðasta rannsóknamisseri er skilyrði fyrir því að ný umsókn sé tekin til umfjöllunar (sjá nánar í 5. grein).

III. Meðferð umsókna

3. gr.

a. Rektor skipar þriggja manna rannsóknamisseranefnd til þriggja ára  í senn. Hún vinnur úr umsóknum og skilar tillögum til rektors um hverjir fái úthlutað rannsóknamisseri. Nefndin er skipuð á eftirfarandi hátt: Tveir fulltrúar skipaðir af rektor og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Rektor skipar einn varamann fyrir þá. Félag háskólakennara á Akureyri tilnefnir einn fulltrúa og starfandi prófessorar við Háskólann á Akureyri einn fulltrúa. Skal annar þeirra vera skipaður fulltrúi í nefndinni en hinn varamaður.

b. Stjórnsýsla rannsókna kannar hvort þeim gögnum sem um getur í 2. gr. c. hafi verið skilað og telst umsókn því einungis gild að þau gögn liggi fyrir. Rannsóknamisseranefnd yfirfer umsóknir og sker úr um hvort þær standast kröfur sem gerðar eru um heimild til rannsóknamisseris.

c. [Sé ekki hægt að verða við öllum gildum umsóknum um rannsóknamisseri er umsóknum raðað eftir fjölda rannsóknastiga sem viðkomandi hefur aflað sér frá því að hann var síðast í rannsóknamisseri, eða frá þeim tíma sem hann hóf störf, að hámarki 10 ár aftur í tímann].1 Komi upp sú staða að tveir eða fleiri umsækjendur standi jafnir að rannsóknastigum og aðeins einn getur fengið úthlutað rannsóknamisseri raðar nefndin umsóknum samkvæmt þeim tíma sem liðinn er frá því að umsækjendur fengu síðast úthlutað rannsóknamisseri.

1) Breytt með reglum nr. 636/2013.

IV. Afgreiðsla umsókna um rannsóknamisseri

4. gr.

Rektor veitir kennurum rannsóknamisseri að fengnu samþykki háskólaráðs. Rektor getur í undantekningartilvikum og vegna sérstakra aðstæðna veitt rannsóknamisseri utan þess umsóknarferlis sem hér er gert grein fyrir.

V. Skýrslugerð

5. gr.

Tveimur mánuðum eftir að rannsóknamisseri lýkur skal kennari skila skýrslu um misserið til stjórnsýslu rannsókna. Þar komi fram í hverju rannsóknavinnan fólst og hvaða árangur hún hefur borið. Æskilegt er að eftirfarandi atriði séu m.a. höfð til hliðsjónar við skýrslugerðina:

  1. Að hvaða verkum var unnið á meðan á rannsóknamisseri stóð?
  2. Hvernig er líklegt að þessi vinna skili sér í birtum rannsóknaverkefnum?
  3. Þátttaka í ráðstefnum, flutt erindi?
  4. Voru rannsóknirnar hluti af langtímarannsóknum?
  5. Var lokið við ákveðin rannsókna- eða þróunarverkefni?
  6. Að hve miklu leyti var lagður grunnur að rannsóknum næstu ára í rannsóknamisserinu?
  7. Byggðist rannsóknavinnan á samstarfi við erlenda eða innlenda aðila? Var efnt til nýrrar samvinnu?
  8. Nýting tækja og aðstöðu (rannsóknastofa, bókasafna) á rannsóknamisserinu?
  9. Dvalartími (hvar, hversu lengi og annað sem máli skipti).

Rannsóknamisseranefnd yfirfer skýrslur og sendir afrit til sviðsforseta viðkomandi deildar.

VI. Laun, dagpeningar og fargjöld

6. gr.

a. Við útreikning launa kennara á meðan á rannsóknamisseri stendur er miðað við meðaltalsráðningarhlutfall síðustu 6 ára (12 missera) eða 3 ára (6 missera) eftir því sem við á.

b. Í umsókn skal áætla ferða- og dvalarkostnað vegna rannsóknamisseris ef við á. Heimilt er að greiða ferða- og dvalarkostnað að hluta eða að öllu leyti, þó að hámarki kr. 1.500.000 fyrir tvö samfelld rannsóknamisseri. Rannsóknamisseranefnd gerir tillögur um úthlutun en háskólaráð tekur endanlega ákvörðun um greiðslu ferða- og dvalarkostnaðar.

VII. Tryggingar

7. gr.

Kennarar sem dvelja erlendis vegna rannsóknamissera þurfa að huga sérstaklega að

tryggingum sínum. Um sjúkrakostnað vegna skyndilegra veikinda eða slysa gilda reglur almannatrygginga sem eru mismunandi milli landa.

VIII. Gildistaka

8. gr.

Reglur þessar eru settar á grundvelli [21. gr.]1 reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009 og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur um rannsóknamisseri kennara við Háskólann á Akureyri nr. 157/2008.

1) Breytt með reglum nr. 853/2020.

 

Reglur nr. 355/2012 samþykktar í háskólaráði 30. mars 2012.
Breytingar nr. 636/2013 samþykktar í háskólaráði 5. júlí 2013.
Breytingar nr. 853/2020 samþykktar í háskólaráði 27. ágúst 2020.