Reglur um stjórnskipulag Heilbrigðis-, viðskipta og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri

Nr. 820/2022

SAMÞYKKTAR Í HÁSKÓLARÁÐI 23.06.2022

vefútgáfa síðast uppfærð 11.08.2022

Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
 og í PDF skjali gildir PDF skjalið

EFNISYFIRLIT

 1. Hlutverk, stefna og starfsfólk
 2. Fræðasviðsfundur
 3. Stjórn fræðasviðs
 4. Forseti fræðasviðs
 5. Skrifstofa fræðasviðs
 6. Deildir
 7. Deildarfundir
 8. Deildarráð
 9. Deildarforsetar
 10. Brautarstjórar og kennarafundir
 11. Valnefndir
 12. Náms- og matsnefndir
 13. Sértækir málaflokkar
 14. Auðlindadeild
 15. Framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum
 16. Hjúkrunarfræðideild
 17. Iðjuþjálfunarfræðideild
 18. Viðskiptadeild
 19. Stofnanir sviðsins
 20. Gildistaka og endurskoðun

1. gr. Hlutverk, stefna og starfsfólk

Hlutverk fræðasviðsins er að bjóða upp á háskólanám og standa fyrir rannsóknum í heilbrigðisvísindum, viðskiptafræði og raunvísindum. Fræðasviðið mótar sér stefnu til nokkurra ára í senn í samræmi við hlutverk sitt og stefnu Háskólans á Akureyri. Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið starfar á grundvelli laga nr. 63/2006 um háskóla, laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 694/2022.

Á Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviði starfa prófessorar, dósentar, lektorar, aðjúnktar, doktorsnemar, sérfræðingar, stundakennarar, gestakennarar og starfsfólk við stjórnsýslu og stoðþjónustu fræðasviðsins.

 Háskólaráð getur ákveðið að láta fara fram sérstakt mat á starfsemi fræðasviða, deilda, stofnana eða annarra skipulagseininga innan háskólans, sbr. m.a. 13. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri.

Um doktorsnám gilda reglur um doktorsnám og doktorspróf við Háskólann á Akureyri.

2. gr. Fræðasviðsfundur

Fræðasviðsfundur Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs er samráðsvettvangur þar sem fram fer umræða um innri málefni sviðsins. Forseti fræðasviðs boðar fræðasviðsfundi og stýrir fundi eða felur öðrum stjórn hans. Háskólaráð getur leitað umsagnar sviðsfundar um hvaðeina sem varðar starfsemi á viðkomandi fræðasviði. Nánar er kveðið á um fræðasviðsfund í 17. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri.

Á fræðasviðsfundum eiga sæti og atkvæðisrétt forseti fræðasviðs, deildarforsetar eða staðgenglar þeirra, brautarstjórar og einn fulltrúi hverrar stofnunar sem heyrir til fræðasviðsins eða deilda. Þar sitja jafnframt akademískir starfsmenn, háskólakennarar, doktorsnemar, tveir fulltrúar stúdenta, tilnefndir til eins árs í senn af Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri, og starfsfólk við stjórnsýslu og stoðþjónustu fræðasviðsins.

Fundurinn er ályktunarbær um þau málefni sem talin eru varða hag fræðasviðsins ef 50% atkvæðisbærra fulltrúa sitja fundinn og skulu þær ályktanir kynntar þeim er þær kunna að varða.

Fræðasviðsfundur kýs fulltrúa fræðasviðsins á háskólafund, sbr. 8. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri. Heimilt er að kjósa fulltrúa á háskólafund með rafrænni atkvæðagreiðslu.

Fræðasviðsfund skal halda minnst einu sinni á misseri.

3. gr. Stjórn fræðasviðs

Forseti fræðasviðs, deildarforsetar og skrifstofustjóri fræðasviðs mynda stjórn fræðasviðs. Í stjórn fræðasviðs eiga einnig sæti tveir fulltrúar stúdenta sem tilnefndir eru af aðildarfélögum Stúdentafélags Háskólans á Akureyri á fræðasviðinu til eins árs í senn. Varafulltrúar í stjórn fræðasviðs eru staðgenglar framangreindra aðalfulltrúa og varafulltrúar stúdenta eru tilnefndur af aðildarfélögum Stúdentafélagsins.

Forseti fræðasviðs stýrir fundum stjórnar sem skulu haldnir einu sinni í mánuði eða oftar ef þurfa þykir og er forseta heimilt að tilnefna einn deildarforseta til að stýra fundi stjórnar. Í fjarveru deildarforseta skal staðgengill hans sitja fundi stjórnar.

Stjórn fræðasviðs fjallar um sameiginleg málefni sviðsins, þ.m.t. ákvarðanir deilda um námsframboð, fjárhag og rekstrarafkomu deilda og sviðsins, um tillögur deilda um námsframboð og fjöldatakmörkun fyrir hvert skólaár ef við á. Stjórn fræðasviðs gerir tillögur til háskólaráðs um breytingar á reglum eða nýjar reglur er varða skipulag og starfsemi fræðasviðsins, deilda þess og stofnana, veitingu heiðursdoktorsnafnbóta og um að bjóða vísindamanni akademískt starf án auglýsingar. Stjórn fræðasviðs tekur ákvarðanir um háskólastofnanir og rannsóknastofnanir sem settar eru á stofn. Við fræðasvið og deildir er heimilt að starfrækja sérstakar háskólastofnanir og rannsóknastofnanir, sem settar eru á stofn samkvæmt samþykkt stjórnar fræðasviðs. Enn fremur skal fjallað um mál eða koma í farveg málum einstakra stúdenta sem ekki verða leyst á vettvangi deilda.

Stjórn fræðasviðs er ekki ályktunarbær nema meirihluti atkvæðisbærra fulltrúa sæki fund. Ef fastur fulltrúi getur ekki sótt fund skal boða varafulltrúa hans til setu á fundinum. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði sviðsforseta úr eða þess er gegnir fundarstjórn í fjarveru sviðsforseta. Rita skal fundargerð þar sem ákvarðanir stjórnar fræðasviðs eru skrásettar. Forseti fræðasviðs skipar stjórninni ritara.

Stjórn fræðasviðs setur fræðasviðinu nánari reglur og ákveður skipulag þess frekar og gerir tillögu til háskólaráðs um deildaskipan og námsframboð. Á vettvangi stjórnar fræðasviðs skal m.a. ræða og kynna árlega fjárhagsáætlun fræðasviðsins. Rektor og háskólaráð geta falið stjórn fræðasviðs framkvæmd annarra verkefna eftir því sem við á.

4. gr. Forseti fræðasviðs

Forseti Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs er yfirmaður fræðasviðsins, stýrir daglegri starfsemi og er akademískur leiðtogi þess og talsmaður innan háskólans og utan. Forseti er ráðinn af rektor til fimm ára samkvæmt verklagsreglum sem háskólaráð setur. Forseti annast fundarboð til fulltrúa á fræðasviðsfundi og fundastjórnun á þeim. Hann er jafnframt formaður stjórnar fræðasviðs. Um hlutverk, verkefni, ábyrgð og ráðningu forseta er nánar fjallað í 15. og 16. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri og í erindisbréfi sem rektor setur honum.

5. gr. Skrifstofa fræðasviðs

Skrifstofa fræðasviðs starfar undir stjórn skrifstofustjóra sem ber ábyrgð gagnvart forseta fræðasviðs, sem er yfirmaður hans. Skrifstofustjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri sviðsskrifstofu og er nánar kveðið á um ábyrgð, hlutverk og verkefni skrifstofustjóra í starfslýsingu. Skrifstofan er stoðþjónustu- og stjórnsýslukjarni sem sinnir ýmsum verkefnum fyrir fræðasviðið, deildir þess og stofnanir. Skrifstofan sinnir almennri þjónustu við stúdenta  og kennara og annast ýmis sérhæfð mál s.s. kennsluskrárgerð, stundaskrárgerð, innritun, brautskráningu, starfsmannamál, rekstur o.fl. Skrifstofan hefur náið samstarf og samráð við háskólaskrifstofu og skrifstofu rektors um miðlæga og sameiginlega stoðþjónustu og stjórnsýslu.

6. gr. Deildir

Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið skiptist í fimm deildir: auðlindadeild, hjúkrunarfræðideild, iðjuþjálfunarfræðideild, viðskiptadeild og framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum.

Deildirnar hafa með sér náið samráð til að nýta sem best mannafla, fjármuni, aðstöðu, tæki og búnað í þágu fjölbreyttrar menntunar og rannsókna. Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið og deildir þess skulu jafnframt stuðla að nánu samstarfi við háskólaskrifstofu og rektorsskrifstofu, önnur fræðasvið háskólans og deildir.

Deildir eru sjálfstæðar um eigin málefni innan þeirra marka sem sameiginlegar reglur háskólans setja og bera faglega ábyrgð á kennslu og námi og veitingu prófgráða við námslok.

Hver deild fer með málefni kennslugreina sinna, ákveður námsefni og tilhögun kennslu og prófa og fjallar um nauðsynlegar fjárveitingar og ný störf. Deildarforseti, í samráði við deild eða námsbraut, undirbýr ráðningu stundakennara og gerir tillögu til forseta fræðasviðsins um ráðninguna. Stjórn deildar er í höndum deildarfunda og deildarforseta. Deildarfundur fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum deildar í samræmi við reglur þessar og reglur fyrir Háskólann á Akureyri. Deild ber ábyrgð á skipulagi og þróun þess náms sem fræðasviðið hefur samþykkt að fari fram innan deildarinnar ásamt innritun og brautskráningu í umboði forseta.  Innan hverrar deildar er boðið upp á minnst eina námsbraut,  en með því er átt við skilgreinda samsetningu námskeiða sem nemandinn þarf að ljúka til að hljóta tiltekna námsgráðu. Í tilteknum málum eða málaflokkum er deild heimilt að framselja ákvörðunarvald til deildarráðs eða deildarforseta.

Við skipulag alls náms á fræðasviðinu er tekið mið af Viðmiðum um æðri menntun og prófgráður (auglýsing nr. 530/2011).

7. gr. Deildarfundir

Deildarfundur fer með æðsta ákvörðunarvald er varðar kennslu og rannsóknir innan hverrar deildar.  Kveðið er á um skipulag, verkefni og hlutverk deildarfundar í 20. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri. Deildarfundur setur reglur um innra skipulag deildar og skulu þær fjalla  m.a. um hlutverk deildar- og námsbrautarfunda. Afl meirihluta atkvæða ræður úrslitum mála. Nú eru atkvæði jöfn og sker þá atkvæði deildarforseta úr.

Samkvæmt 21. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri eiga eftirtaldir fulltrúar rétt til setu og til að fara með atkvæðisrétt:

a) Deildarforseti, prófessorar, dósentar, lektorar og aðjúnktar ráðnir til starfa hjá viðkomandi deild, í 49% starfshlutfalli eða meira.
b) Aðrir þeir sem deild ákveður.
c) Einn fulltrúi stundakennara innan deildarinnar, tilnefndur úr þeirra hópi til eins árs í senn.
d) Að minnsta kosti einn fulltrúi stúdenta, tilnefndur af viðkomandi aðildarfélagi Stúdentafélagsins til eins árs í senn.

Jafnframt situr fulltrúi skrifstofu fræðasviðs deildarfundi með tillögurétt en án atkvæðisréttar.

Deild setur nánari reglur um tilhögun á vali fulltrúa skv. liðum c og d.

8. gr. Deildarráð

Samkvæmt 22. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri er deild heimilt að mynda stjórnarnefnd, deildarráð. Í deildarráði skulu eiga sæti deildarforseti, brautarstjórar og tveir fulltrúar stúdenta kjörnir af félagasamtökum þeirra til eins árs í senn úr hópi fulltrúa stúdenta á deildarfundum. Deildir setja sér nánari reglur um fjölda fulltrúa á deildarráðsfundum.

9. gr. Deildarforsetar

Deildarforseti og deildarfundir bera ábyrgð á kennslu, kennslufyrirkomulagi og þróun náms. Forseti deildar er æðsti fulltrúi deildar gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan. Deildarforseti ber ábyrgð gagnvart forseta fræðasviðs, sem er yfirmaður hans. Forseti deildar er faglegur forystumaður deildar og ber ábyrgð á mótun stefnu fyrir deild, skipulagi náms og gæðum kennslu og rannsókna, tengslum við samstarfsaðila og á því að starfsemi deildar og starfseininga hennar sé í samræmi við fjárhagsáætlun fræðasviðsins.

Deildarforseti situr í stjórn fræðasviðs. Á milli deildarfunda eða funda stjórnar fræðasviðs fer deildarforseti í umboði þeirra með ákvörðunarvald um málefni deildar. Deildarforseti stýrir deildarfundum og fundum deildarráðs, þar sem það á við, og fylgir samþykktum fundanna eftir. Nánar er kveðið á um ábyrgð, hlutverk og verkefni deildarforseta í 23. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri og í starfslýsingu sem forseti fræðasviðs setur í samráði við rektor.

Forseti fræðasviðs skipar deildarforseta til tveggja ára í senn samkvæmt tilnefningu deildarfundar. Deildarforseti skal kosinn af deildarfundi úr hópi fastráðinna lektora, dósenta og prófessora í fullu starfi við deildina. Einnig skal deildarfundur tilnefna staðgengil deildar­forseta til sama tíma. Kosningu skal lokið fyrir 1. mars á því ári sem kjörtímabil sitjandi deildarforseta rennur út og miðast upphaf kjörtímabils við 1. júlí og lok við 30. júní að tveimur árum liðnum.

Deildarforseti skal vera prófessor, dósent eða lektor í fullu starfi við deildina og hafa umtalsverða reynslu af kennslu og rannsóknum, stjórnun og góða innsýn í skipulag og tilhögun náms.

10. gr. Brautarstjórar og kennarafundir

Deildum er heimilt að velja sérstaka brautarstjóra til að hafa umsjón með einni eða fleiri námsbrautum innan deildarinnar, að uppfylltum almennum skilyrðum háskólans um lágmarksfjölda stúdenta og námseininga brautar. Brautarstjórar eru kosnir á deildarfundi til tveggja ára í senn. Kosningu skal lokið fyrir 1. mars á því ári sem kjörtímabil sitjandi brautarstjóra rennur út og miðast upphaf kjörtímabils við 1. júlí og lok við 30. júní að tveimur árum liðnum. Brautarstjórn felur í sér samskipti við stúdenta og forystu um kennslu- og námsþróun. Kennarafundir námsbrautar eru samráðsvettvangur og boðar brautarstjóri til slíkra funda eftir þörfum. Á kennarafund má kalla fastráðna kennara, stundakennara og hverja þá aðra sem koma að kennslu innan námsbrautar hverju sinni. Nánar er kveðið á um ábyrgð og verkefni brautarstjóra í sérstakri starfslýsingu.

11. gr. Valnefndir

Valnefndir starfa innan hverrar deildar Heilbrigðis-, viðskipta og raunvísindasviðs í samræmi við 38. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri. Hlutverk valnefndar er að fara yfir umsóknir um akademísk störf við deildina þegar dómnefnd hefur lokið umfjöllun sinni og mati á hæfi umsækjenda og veita forseta fræðasviðs, eða eftir atvikum rektor ef um er að ræða ótímabundna ráðningu, umsögn um umsækjendur áður en tekin er ákvörðun um ráðningu. Í valnefnd sitja deildarforseti, sem er formaður nefndarinnar, einn fulltrúi tilnefndur af deild til þriggja ára og einn fulltrúi sem deildarráð eða deildarforseti tilnefna í hverju máli og skal viðkomandi  vera sérfræðingur á fræðasviði starfsins.  Rektor skipar valnefndum starfsmann sem m.a. heldur utan um ráðningarferlið og gætir þess að störf nefndarinnar séu í samræmi við lög og reglur og góða stjórnsýsluhætti. Nánar er kveðið á um skipun, hlutverk og málsmeðferð valnefndar í 38. og 39. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri og sérstökum verklagsreglum valnefnda sem háskólaráð setur.

Valnefndarálit skal sent til deildarfundar sem tekur afstöðu til álitsins og sendir niðurstöðu sína til forseta fræðasviðs, sem tekur ákvörðun um ráðningu.

12. gr. Náms- og matsnefndir

Innan hverrar deildar Heilbrigðis-, viðskipta og raunvísindasviðs starfa náms- og matsnefndir. Hlutverk námsnefndar er að fjalla um og gera tillögur um kennsluskrá og námsskipan og námsgreinar fyrir tilteknar deildir eða námsbrautir.  Hlutverk matsnefndar er að gera tillögur um mat á fyrra námi og fyrirhuguðu skiptinámi stúdenta í viðkomandi deild eða á námsbraut. Einstökum deildum innan fræðasviðs er heimilt að sameinast um náms- og matsnefndir. Deild er heimilt að sameina námsnefnd og matsnefnd í eina náms- og matsnefnd. Náms- og matsnefnd skal skipuð minnst þremur fulltrúum kennara (prófessora, dósenta, lektora eða aðjúnkta), sem valdir skulu til tveggja ára í senn af viðkomandi deildarfundi, og einum fulltrúa stúdenta sem valinn er af félagssamtökum þeirra til eins árs í senn. Jafnframt skal deildarforseti starfa með nefndinni auk starfsfólks úr stjórnsýslu og stoðþjónustu fræðasviðsins. Nefndin skiptir sjálf með sér verkum. Nánar er kveðið á um skipan, hlutverk og verkferla náms- og matsnefnda í sérstökum samþykktum.

Námsnefndir á Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviði skulu hafa formlegt samráð sín á milli með það fyrir augum að koma á framfæri upplýsingum og sem mestri samvinnu um nám og námsframboð á fræðasviðinu.

13. gr. Sértækir málaflokkar

Heimilt er að skipa nefndir eða umsjónarmenn sem bera sérstaka ábyrgð á tilteknum málaflokkum innan fræðasviðs eða deildar. Málaflokkar sem geta haft slíkar nefndir eða umsjónarmenn eru til dæmis rannsóknir, alþjóðasamskipti, gæðamál, kynningarmál og frágangur kennsluskrár. Nefndirnar eða umsjónarmenn málaflokka eru kosin á fræðasviðsfundi eða eftir atvikum deildarfundi, til tveggja ára í senn.

14. gr. Auðlindadeild

Auðlindadeild er fagleg grunneining sem stendur fyrir og ber ábyrgð á kennslu og rannsóknum á sviði líftækni og sjávarútvegsfræði og veitingu prófgráða á sínum fagsviðum við námslok. Við deildina eru þrjár námsbrautir: sjávarútvegsfræði, viðskipta- og sjávarútvegsfræði auk líftækni sem skiptist í tvö kjörsvið, auðlindalíftækni og heilbrigðislíftækni. Jafnframt býður deildin upp á framhaldsnám á meistarastigi. Deildin, undir forystu deildarforseta, ber ábyrgð á þróun náms, tilhögun kennslu og prófa og stendur fyrir rannsóknum á sínu fagsviði.

Deildarfundur fer með æðsta ákvörðunarvald í málefnum auðlindadeildar, sbr. 7. gr. reglna þessara.

Deildarforseti leiðir starf deildarinnar í umboði deildarfundar og er ábyrgur gagnvart deildinni, akademískum starfsmönnum hennar og fræðasviðinu sbr. 9. gr. reglna þessara. 

Auðlindadeild veitir kennslu til eftirtalinna prófgráða:

BS-prófs í líftækni

BS-prófs í sjávarútvegsfræði

MS-prófs í auðlindafræði

MS-prófs í sjávarútvegsfræði

MRM-prófs í haf- og strandsvæðastjórnun

Auk þess býður Háskólinn á Akureyri upp á nám til doktorsgráðu í líftækni og í sjávarútvegsfræði.

Auðlindadeild setur nánari reglur um námið og skulu þær koma fram í kennsluskrá.

15. gr. Framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum

Framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum stendur fyrir og ber ábyrgð á kennslu og rannsóknum í þverfaglegum heilbrigðisvísindum á mismunandi kjörsviðum og veitingu prófgráða við námslok. Undir deildina heyrir einnig fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða, grunndiplóma, sem starfar undir stjórn brautarstjóra í umboði deildarfundar.

Deildarfundur fer með æðsta ákvörðunarvald í málefnum deildarinnar, sbr. 7.gr., og skulu deildarfundir haldnir mánaðarlega að jafnaði. Auk þeirra sem tilgreindir eru í 7. gr. eiga akademískir starfsmenn, sem ekki tilheyra framhaldsnámsdeild en hafa umsjón með námskeiðum í deildinni, setu- og tillögurétt á deildarfundum auk doktorsnema, sbr. b-lið 7.gr. 

Deildarforseti leiðir starf deildarinnar í umboði deildarfundar og er ábyrgur gagnvart deildinni, akademískum starfsmönnum hennar og fræðasviðinu, sbr. 9. gr.  

Framhaldsnámsdeild veitir kennslu til eftirtalinna prófgráða:

Fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða - grunndiplóma

Viðbótardiplómu í heilbrigðisvísindum

MS-prófs í heilbrigðisvísindum

Auk þess býður Háskólinn á Akureyri upp á nám til doktorsgráðu í heilbrigðisvísindum.

Við skipulagningu framhaldsnáms í heilbrigðisvísindum er tekið mið af lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn, lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, lögum nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga og lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. Jafnframt er tekið mið af því að hver nemandi geti fengið nám sitt metið til sérfræðiviðurkenningar, sjá meðal annars reglugerð nr. 512/2013 um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi, reglugerð nr. 467/2015  um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, reglugerð nr. 1127/2012 um menntun, réttindi og skyldur sjúkraþjálfara og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi og reglugerð nr. 1088/2012 um menntun, réttindi og skyldur félagsráðgjafa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi.

Framhaldsnámsdeild setur nánari reglur um námið og skulu þær koma fram í kennsluskrá.

16. gr. Hjúkrunarfræðideild

Hjúkrunarfræðideild er fagleg grunneining sem stendur fyrir og ber ábyrgð á kennslu og rannsóknum á sviði hjúkrunarfræði og veitingu prófgráða við námslok.

Deildarfundur fer með æðsta ákvörðunarvald í málefnum hjúkrunarfræðideildar, sbr. 7. gr. reglna þessara og skulu deildarfundir haldnir mánaðarlega að jafnaði. Auk þeirra sem tilgreindir eru í 7. gr. hafa stundakennarar, sem fara með umsjón námskeiða, setu- og atkvæðisrétt á deildarfundum og einnig akademískt starfsfólk deildarinnar sem ekki heyrir undir a-lið 7. gr. auk verkefnastjóra deildarinnar.

Deildarforseti leiðir starf deildarinnar í umboði deildarfundar og er ábyrgur gagnvart deildinni, starfsfólki  hennar og fræðasviðinu, sbr. 9. gr.

Við deildina starfar deildarráð, sbr. 8. gr. Í deildarráði situr deildarforseti eða staðgengill hans í fjarveru deildarforseta, formaður námsnefndar, einn fulltrúi fastráðinna kennara sem kosinn er á deildarfundi, verkefnastjóri klínísks náms og einn fulltrúi stúdenta, tilnefndur af aðildarfélagi Stúdentafélags Háskólans á Akureyri til eins árs í senn. Jafnframt situr fulltrúi sviðsskrifstofu fundi með tillögurétt en án atkvæðisréttar. Falli atkvæði fundar jafnt ræður atkvæði deildarforseta.

Hjúkrunarfræðideild veitir kennslu til BS-prófs í hjúkrunarfræði. 

Við skipulagningu náms í hjúkrunarfræði er tekið mið af lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012, lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007, lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 og lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008. Jafnframt er tekið mið af reglugerð nr. 512/2013 um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi.

Hjúkrunarfræðideild setur nánari reglur um námið og skulu þær koma fram í kennsluskrá.

17. gr. Iðjuþjálfunarfræðideild

Iðjuþjálfunarfræðideild er fagleg grunneining sem stendur fyrir og ber ábyrgð á kennslu og rannsóknum á sviði iðjuþjálfunarfræði og iðjuþjálfun og veitingu prófgráða við námslok. Innan iðjuþjálfunarfræðideildar eru tvær námsbrautir: iðjuþjálfunarfræði á grunnstigi og iðjuþjálfun, starfsréttindanám á meistarastigi.  

Deildarfundur fer með æðsta ákvörðunarvald í málefnum iðjuþjálfunarfæðideildar, sbr. 7. gr., og skulu deildarfundir haldnir mánaðarlega að jafnaði. Auk þeirra sem tilgreindir eru í 7. gr. hafa verkefnastjórar vettvangsnáms setu- og atkvæðisrétt á deildarfundum. Annað starfsfólk sem ráðið er til starfa hjá deildinni, en fellur ekki undir a-lið 7. gr., hefur setu- og tillögurétt á deildarfundum án atkvæðisréttar, sbr. b-lið 7. gr.

Deildarforseti leiðir starf deildarinnar í umboði deildarfundar og er ábyrgur gagnvart deildinni, starfsfólki hennar og fræðasviðinu, sbr. 9. gr.

Iðjuþjálfunarfræðideild veitir kennslu til eftirtalinna prófgráða:

BS-prófs í iðjuþjálfunarfæði

Viðbótardiplómu til starfsréttinda í iðjuþjálfun

Við skipulagningu náms við deildina tekið mið af lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012, lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007, lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 og lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008. Jafnframt er tekið mið af reglugerð nr. 1221/2012 um menntun, réttindi og skyldur iðjuþjálfa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi, ásamt síðari breytingum. 

Iðjuþjálfunarfræðideild setur nánari reglur um námið og skulu þær koma fram í kennsluskrá.

18. gr. Viðskiptadeild

Viðskiptadeild er fagleg grunneining sem stendur fyrir og ber ábyrgð á kennslu og rannsóknum á sviði viðskiptafræði og veitingu prófgráða við námslok.

Deildarfundur fer með æðsta ákvörðunarvald í málefnum viðskiptadeildar, sbr. 7. gr. reglna þessara.

Deildarforseti leiðir starf deildarinnar í umboði deildarfundar og er ábyrgur gagnvart deildinni, starfsmönnum hennar og fræðasviðinu, sbr. 9. gr.  

Viðskiptadeild veitir kennslu til eftirtalinna prófgráða:

BS-prófs í viðskiptafræði

MS-prófs í viðskiptafræði

Auk þess býður Háskólinn á Akureyri upp á nám til doktorsgráðu í viðskiptafræði.

Viðskiptadeild setur nánari reglur um námið og skulu þær koma fram í kennsluskrá.

19. gr. Stofnanir sviðsins

Eftirfarandi stofnanir og/eða miðstöðvar heyra undir Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið. Nánar er fjallað um starfsemi þeirra í sérreglum viðkomandi stofnunar.

Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri er vísindaleg rannsóknastofnun um samstarf Sjúkrahússins á Akureyri og Háskólans á Akureyri. Markmið samstarfsins er að efla kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindum með því að auka samstarf og gera þessa þætti í starfi stofnananna sýnilegri. Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri starfar samkvæmt reglum nr. 202/2017.

Rannsóknamiðstöð gegn ofbeldi. Tilgangur miðstöðvarinnar  er að efla rannsóknir og auka þekkingu á birtingarmyndum ofbeldis, afleiðingum þess og leiðum til að útrýma því. Unnið er í samvinnu við stofnanir og félög á Íslandi og erlendis auk þess að standa fyrir fræðslu á ráðstefnum og málþingum um áhrif ofbeldis og til að breiða út þekkingu á afleiðingum ofbeldis.

Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri  er ætlað að efla tengsl háskólans við atvinnulífið. Markmið Sjávarútvegsmiðstöðvar er að styrkja forystuhlutverk Háskólans á Akureyri á sviði menntunar og rannsókna í sjávarútvegi, efla samstarf háskólans við atvinnugreinina, stuðla að bættri ímynd sjávarútvegs og efla nám í sjávarútvegsfræðum.  

20. gr. Gildistaka og endurskoðun

Reglur þessar sem samþykktar voru í háskólaráði 23. júní 2022 eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og reglna nr. 694/2022 fyrir Háskólann á Akureyri. Reglurnar öðlast þegar gildi. Um leið falla úr gildi reglur nr. 864/2009 um stjórnskipulag Viðskipta- og raunvísindasviðs og reglur nr. 812/2013 um stjórnskipulag Heilbrigðisvísindasviðs. Reglur þessar skal endurskoða reglulega og skal þá taka mið af fenginni reynslu.  

 

Háskólanum á Akureyri, 23. júní 2022.

Eyjólfur Guðmundsson rektor