Reglur um viðurkenningu HA á akademísku hæfi starfsmanna MSL og veitingu akademískrar nafnbótar við RLHA

NR. 1631/2022

SAMÞYKKTAR Í HÁSKÓLARÁÐI 15.12.2022

vefútgáfa síðast uppfærð 18.1.2022

Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
og í PDF skjali gildir PDF skjalið

EFNISYFIRLIT

  1. Veiting akademískrar nafnbótar
  2. Akademísk nafnbót
  3. Umsókn um viðurkenningu á akademísku hæfi
  4. Málsmeðferð
  5. Samningur um akademíska nafnbót
  6. Gildistaka og endurskoðun

1. gr. Veiting akademískrar nafnbótar

Markmið með veitingu akademískrar nafnbótar er að styrkja og dýpka samstarf Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu (MSL), og eftir atvikum annarra löggæslustofnana á landinu, og Háskólans á Akureyri (HA) á sviði rannsókna og kennslu með því að gefa háskólamenntuðu starfsfólki MSL færi á að sinna akademískum verkefnum í samstarfi við HA, samkvæmt samningi á milli nafnbótarhafa og Rannsóknaseturs í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri (RLHA), sem stuðlað geta að aukinni rannsóknavirkni í þágu háskólans og lögreglunnar og birtingu vísindaniðurstaðna í nafni HA og MSL.

Háskólamenntuðu starfsfólki MSL, með aðalstarf hjá MSL, er heimilt að sækja um viðurkenningu HA á akademísku hæfi sínu, sbr. 3. gr., enda sé það ekki þegar ráðið til HA í starf háskólakennara eða sérfræðings þar sem hæfisdóms er krafist. Rektor HA veitir akademískar nafnbætur við RLHA að fenginni tillögu forseta Hug- og félagsvísindasviðs og áliti dómnefndar HA. Nafnbót er veitt til fimm ára en fellur niður láti starfsmaður af störfum við MSL eða er ekki í aðalstarfi þar.

Viðurkenning á akademísku hæfi veitir akademíska nafnbót eftir því sem mælt er fyrir um í reglum þessum. Akademískri nafnbót verður ekki jafnað til ráðningar í starf háskólakennara eða sérfræðings við HA, sbr. 17. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, og 6. gr. samstarfssamnings ríkislögreglustjóra og Háskólans á Akureyri. Nafnbótin veitir ekki önnur réttindi en þau sem kveðið er á um í reglum þessum og samstarfssamningi HA og ríkislögreglustjóra (RLS) frá 30. desember 2021.

Þeir sem ráðnir eru við HA og hafa hlotið hæfisdóm geta ekki sótt um viðurkenningu á akademísku hæfi sínu samkvæmt þessum reglum.

2. gr. Akademísk nafnbót

Akademísk nafnbót er veitt í tengslum við RLHA. Nafnbótin er veitt á grundvelli mats dómnefndar HA og tillögu til rektors frá forseta Hug- og félagsvísindasviðs í kjölfar dómnefndarálits. Háskólamenntað starfsfólk MSL, sem hefur öðlast viðurkenningu á akademísku hæfi og telst ótvírætt uppfylla skilyrði til að gegna lektors-, dósents- eða prófessorsstöðu, má kalla sig lektor, dósent eða prófessor.

Heimilt er að veita starfsmönnum löggæslustofnana, annarra en MSL, akademískar nafnbætur, sbr. 1. mgr., enda sé gert ráð fyrir því í samstarfssamningi sem HA hefur gert við RLS.

3. gr. Umsókn um viðurkenningu á akademísku hæfi

Stjórn Hug- og félagsvísindasviðs og HA tilkynna reglulega að unnt sé að sækja um akademíska nafnbót. Í tilkynningunum skal koma fram að tekið sé við umsóknum á skrifstofu rektors HA og hvaða reglur gildi um meðferð þeirra, m.a. að umsækjendur skuli gera grein fyrir samstarfi eða fyrirhuguðu samstarfi við HA og eftir atvikum við aðra háskóla, tiltaka samstarfsaðila, samstarfsverkefni og helstu markmið þeirra. Umsókn skal uppfylla sömu skilyrði og hverju sinni eru í gildi varðandi umsóknir um laus störf og framgang, sbr. reglur nr. 258/2016 um störf dómnefndar og ráðningar akademískra starfsmanna við Háskólann á Akureyri og reglur nr. 1010/2016 um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskólann á Akureyri.

4. gr. Málsmeðferð

Skrifstofa rektors felur stjórnsýslu rannsókna Háskólans á Akureyri að annast meðferð umsókna og að eiga samskipti við umsækjendur og dómnefnd. Stjórnsýsla rannsókna HA sannreynir hvort umsækjandi uppfyllir skilyrði samkvæmt reglum þessum. Ef fyrir liggur að umsækjandi uppfyllir ekki akademísk hæfisskilyrði er rektor heimilt að hafna umsókninni. Að öðrum kosti vísar stjórnsýsla rannsókna HA umsókninni til meðferðar hjá dómnefnd HA.

Um mat á hæfi umsækjenda og meðferð dómnefndar og stjórnsýslu rannsókna HA á málinu að öðru leyti gilda eftir því sem við á:

a) Reglur nr. 694/2022 fyrir Háskólann á Akureyri.
b) Reglur nr. 258/2016 um störf dómnefndar og ráðningar akademískra starfsmanna við Háskólann á Akureyri.
c) Reglur nr. 1010/2016 um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskólann á Akureyri.

Þegar álit dómnefndar liggur fyrir skal forseti Hug- og félagsvísindasviðs gera tillögu til rektors um hvort gefa skuli út viðurkenningu á hæfi umsækjanda og þá hvaða akademísku nafnbót skuli veita. Með tillögunni skulu í öllum tilvikum fylgja drög að samningi milli umsækjanda og forseta Hug- og félagsvísindasviðs í samráði við stjórn RLHA þar sem fram koma markmið samstarfs og réttindi og skyldur sem við geta átt, sbr. 1. og 5. gr. þessara reglna.

Viðurkenning á akademísku hæfi gildir í fimm ár frá veitingu nafnbótar, en fellur niður láti viðkomandi af störfum við MSL, er þar ekki í aðalstarfi eða ef nafnbótarhafi tekur við akademísku starfi við HA. Hið sama á við um aðra nafnbótarhafa hjá öðrum löggæslustofnunum sem HA hefur gert samstarfssamning við. Nafnbótarþegi getur óskað eftir framlengingu á nafnbót á fimm ára fresti með staðfestingu stjórnsýslu rannsókna við HA á að skýrslu og stigamati hafi verið skilað árlega skv. 5. gr. ásamt endurnýjuðum samningi umsækjanda og forseta Hug- og félagsvísindasviðs í samráði við stjórn RLHA. Umsóknir um framgang úr lektorsnafnbót í dósentsnafnbót eða dósentsnafnbót í prófessorsnafnbót skulu teknar til umfjöllunar með sama hætti og ef um væri að ræða nýja umsókn.

5. gr. Samningur um akademíska nafnbót

Þegar fyrir liggur viðurkenning rektors á akademísku hæfi umsækjanda gengur forseti Hug- og félagsvísindasviðs HA, að höfðu samráði við stjórn fræðasviðsins, frá samningi við viðkomandi starfsfólk MSL um þau akademísku réttindi og skyldur sem nafnbótinni fylgja, svo sem um þátttöku í kennslu og rannsóknum. Þar skal koma fram að hvaða verkefnum skuli unnið, hverjir séu samstarfsaðilar og hver markmiðin séu með samstarfinu, að birting vísindagreina sé í nafni viðkomandi starfsmanns auk beggja stofnana og eftir atvikum önnur atriði, svo sem upplýsingar um kennslu, verkefnastjórnun, aðstöðu og aðgang að gögnum og tækjum. Nafnbótarhafa er meðal annars skylt að skila árlegri skýrslu um störf sín ásamt stigamati fyrir 1. febrúar til stjórnsýslu rannsókna Háskólans á Akureyri.

Samningurinn er til fimm ára í senn og fylgir nafnbótinni sem veitt hefur verið. Í desember ár hvert skal stjórnsýsla rannsókna HA kynna fyrir RLHA og háskólaráði hverjum hefur verið veitt akademísk nafnbót á liðnu ári og árangur samstarfsins.

Akademískri nafnbót fylgir ekki réttur til þess að sækja um framlög úr vísindasjóðum HA sem aðalumsækjandi en nafnbótarhafar geta verið meðumsækjendur í slíkri umsókn. Deild innan Hug- og félagsvísindasviðs getur heimilað styrki úr sérstökum sjóðum í vörslu deildar samkvæmt skipulagsskrá viðkomandi sjóðs. Um seturétt á fundum og önnur slík atriði fer eftir reglum nr. 821/2022 um stjórnskipulag Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri.

6. gr. Gildistaka og endurskoðun

Reglur þessar, sem samþykktar voru í háskólaráði 15. desember 2022, eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og samstarfssamnings, dags. 30. desember 2021, milli HA og RLS. Reglurnar öðlast þegar gildi. Reglurnar skulu endurskoðaðar fyrir lok árs 2023 í samráði við stjórn Hug- og félagsvísindasviðs.

 

Háskólanum á Akureyri, 15. desember 2022.

Eyjólfur Guðmundsson rektor.