Hvað er ritstuldur? Áminning frá Siðanefnd Háskólans á Akureyri

Matlisti siðanefndar HA um algengustu tegundir ritstuldar
Háskólinn á Akureyri
Háskólinn á Akureyri

Eftirfarandi atriði eru algengustu tegundir ritstuldar sem siðanefnd háskólans fær inn á sitt borð.

Afritun (A): Stór hluti texta er óbreyttur úr einni heimild sem ekki er getið hvorki í málsgreinum né heimildaskrá
Blöndun (B): Texti er umorðaður og skeyttur saman úr mörgum áttum úr heimildum sem ekki er getið hvorki í málsgreinum né heimildaskrá
Endurómur (D): Þótt heimilda sé rétt getið, er samt farið of mikið eftir orðalagi og/eða uppbyggingu heimilda (þ.e. umorðun, e. „paraphrase“)
Endurvinnsla (E): Eldra eigið verk er frjálslega notað og heimilda eða afritana sem mynda meginhluta textans er ekki getið hvorki í málsgreinum né heimildaskrá
404 villa (F): Í hluta heimilda er rangt vitnað og/eða þær finnast ekki
Hræra (H): Texti er blanda af afritum úr ýmsum áttum og annað hvort er sumra heimilda ekki getið eða engra hvorki í málsgreinum né heimildaskrá
Klónun (K): Verki annars er skilað óbreyttu í eigin nafni þ.e. 90%-100% afrit án tilvísunar
Samsuða (S): Heimilda er rétt getið en ekkert eða lítið af textanum er eigið efni, einungis nokkur orð eða setningar hér og þar
Tvinnun (T): Í hluta heimilda er rétt vitnað en hluti er notaður sem eigið verk
Útskipting (Ú): Texti er efnislega eins og í heimildum sem ekki er getið en lykilorðum (t.d. titlum og aðalhugtökum) er breytt (t.d. með notkun samheita og/eða framsetningar með styttra eða lengra orðalagi)

Nýjar tegundir ritstuldar:

Gat (G): Hluti texta er tekinn óbreyttur úr heimildum sem einungis er getið í heimildaskrá, þ.e. án tilvitnunar (t.d. neðanmálsgreinar) í aðaltexta
Lægri klónun (L): 50,1%--89,9% textans er verk annars sem er skilað óbreyttu í eigin nafni þ.e. afrit án tilvísunar
Ómerking (Ó): Þótt heimilda sé rétt getið er efni úr þeim ekki merkt rétt, þ.e. án gæsalappa: ABC (Höfundur+ár) frekar en „ABC“ (Höfundur+ár)
Svindl í prófi (P): Sviksamleg hegðun í prófi (t.d. notkun síma, internet eða skilaboð á einstaklingsprófi)