Afnýlenduvæðing norrænna skjalasafna

Rachael hlýtur styrk frá Nordforsk til að halda tvær rannsóknarvinnustofur
Afnýlenduvæðing norrænna skjalasafna

Rachael Lorna Johnstone prófessor og deildarforseti Lagadeildar Háskólans á Akureyri hefur hlotið styrk frá Nordforsk til þess að halda tvær rannsóknarvinnustofur um Afnýlenduvæðingu norrænna skjalasafna (e. Decolonising Nordic Archives). Á nýlendutímanum voru skjöl fjarlægð frá upprunastöðum sínum, þeim týnt, stolið eða þau flutt til á annan óréttmætan hátt og gætir áhrifa þess enn í norrænum samfélögum.

80 árum eftir að Íslendingar hlutu sjálfstæði er mikið af íslenskum skjölum enn í vörslu danskra stjórnvalda í Kaupmannahöfn. Grænlendingar hafa ekki vald yfir sínum eigin sögulegu heimildum heldur eru þær geymdar á víð og dreif um Kaupmannahöfn. Samar í Samalandi (landsvæði Sama í norður-Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi) og frumbyggjar Kanada berjast fyrir því að fá aðgang að skrásettum gögnum um sína eigin sögu, meðal annars um heimavistarskóla þangað sem börn frumbyggja voru send til að aðlagast samfélögum landnema en mörg sneru aldrei aftur heim.

Vinnustofurnar munu leiða saman sérfræðinga í alþjóðalögum, skjalfræði, sagnfræði og kenningum um afnýlenduvæðingu frá Norðurlöndunum, Kanada, Bretlandi og Bandaríkjunum til þess að svara þremur meginspurningum: 

  • Í norrænu samhengi, hvað eru „skjöl sem tekin hafa verið frá upprunastöðum sínum?“
  • Hver er staða og iðkun núgildandi laga um skjalavörslu á Norðurlöndum?
  • Hvaða meginreglur alþjóðalaga eiga við um skjöl sem tekin hafa verið frá upprunastöðum sínum og hvernig eiga þær við í norrænu samhengi?

Þrátt fyrir að sagnfræðingar og skjalfæðingar hafi lengi unnið að vandamálum sem varða skjalasöfn sem á óréttmætan eða umdeildan hátt hafa verið flutt frá sínum upprunalegu stöðum hafa alþjóðalögfræðingar lítið unnið að þessu viðfangsefni síðan snemma á níunda áratugnum. Á sama tíma hafa lög um sjálfsákvörðunarétt þróast mikið og ríki hafa viðurkennt rétt þjóða sem urðu fyrir nýlenduvæðingu til þess að öðlast aftur stjórn yfir sínum eigin málum.

„Það er mér mikil ánægja að taka við þessum styrk sem gerir mér kleift að sameina framúrskarandi fræðafólk á Norðurslóðum til þess að skoða þessi viðfangsefni. Hvernig fer það saman að þjóðir hafi rétt til þess að ráða sínum eigin málefnum og auðlindum sjálfar, án þess að hafa réttinn til þess að ráða yfir eigin skrásettum heimildum og gögnum? Við vonumst til þess að koma með nýlega þróun og framvindu alþjóðalaga hvað varðar afnýlenduvæðingu og sjálfsákvörðunarrétt inn í þennan mikilvæga málaflokk og skoða hagnýtar lausnir,“ útskýrir Rachael.

Meðumsækjendur Rachael eru Inge Seiding hjá Ilisimatusarfik, Háskólanum á Grænlandi og Astrid Nonbo Andersen hjá Danish Institute for International Studies í Kaupmannahöfn. Aðstoðarmaður við rannsóknir er Helga Númadóttir, meistaranemi í Heimskautarétti við Háskólann á Akureyri. Þátttakendur vinnustofanna koma frá Samalandi í Noregi, Inuit Nunaat (Grænlandi og Kanada), Íslandi, Finnlandi, Svíþjóð og Bandaríkjunum. Rachael er önnur aðeins tveggja íslenskra umsækjanda sem hlutu styrk í þessari úthlutun.

Fyrsta vinnustofan verður haldin á Þjóðskjalasafni Íslands í Reykjavík í mars 2023. Seinni vinnustofan fer fram vorið 2024 í Danish Institute for International Studies í Kaupmannahöfn.

Áhugasöm geta nálgast nánari upplýsingar um verkefnið með því að hafa samband við Rachael eða Helgu (hgn1@unak.is).