Doktorsvörn Verenu Karlsdóttur

Varði doktorsritgerð við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands
Doktorsvörn Verenu Karlsdóttur

Þann 29. september síðastliðinn varði Verena Karlsdóttir, aðjúnkt við Viðskiptadeild Háskólans á Akureyri doktorsritgerð sína Endurmat á hlutverki háskólastigsins: Greining á þriðja hlutverki háskóla á Íslandi (e. Redefining the Role of Higher Education: The case of Third Mission practices of Icelandic universities).

Leiðbeinandi hennar var dr. Ingi Rúnar Eðvarðsson, prófessor. Þessi rannsókn fjallar um þriðja hlutverk háskóla á Íslandi og þá þætti sem hafa áhrif á slíkt hlutverk í litlu hagkerfi. Líta má á þriðja hlutverkið sem frumkvöðlastarfsemi háskóla, þegar fyrsta hlutverkið er kennsla og annað hlutverk eru rannsóknir.

Um rannsóknina

Í rannsókninni er samstarfsmynstur háskóla, fyrirtækja og stofnana greint sem og félagsleg og efnahagsleg þátttaka háskólakennara. Stuðst er við hálfstöðluð viðtöl, spurningalistakönnun og fræðilegt yfirlit.

Niðurstöður eru notaðar til að veita háskólum ráð til að efla og styðja við þriðja hlutverkið. Niðurstöður sýna almennt að þriðja hlutverk háskóla er mjög takmarkað meðal háskóla á Íslandi og stafar það af tímaskorti, lítilli hvatningu, takmörkuðu tengslaneti og skorti á fjármagni. Mjög lítill munur er á milli háskóla í þeim efnum, en nokkur munur er á milli fræðigreina, starfsheita í háskóla og persónuleikaeinkenna.

Á grundvelli þessara niðurstaðna eru mótaðar tillögur til háskóla um að efla þriðja hlutverkið sem svo aftur hefur möguleika á að efla samfélagsleg áhrif háskóla til lengri tíma litið. Að auki ættu háskólar að taka upp viðeigandi mats- og hvatakerfi til að styðja við þriðja hlutverkið, breyta ráðningarreglum til að ráða starfsfólk með ólíka hæfileika, koma á þverfaglegu tengslaneti og tengja þriðja hlutverkið við rannsóknir og kennslu. Til að svo megi verða þarf meira fjármagn til háskóla.

Að lokum er í doktorsritgerðinni lögð áhersla á mikilvægi virkrar félagslegrar og efnahagslegrar þátttöku fræðimanna á öllum fræðasviðum. Þáttur í því er að gera þriðja hlutverkið sýnilegra innan og utan háskóla og taka tillit til slíkrar starfsemi í hvata- og matskerfi háskóla. Með því vekur rannsóknin athygli á mikilvægi þess að háskólar ræki frumkvöðlahlutverk sitt.