HA stýrir háskólaneti smáríkja

Sjötti ársfundur NUSCT (Network of Universities from Small Countries and Territories) haldinn af háskólanum í Gíbraltar
HA stýrir háskólaneti smáríkja

Sjötti ársfundur háskólanets smáríkja (Network of Universities of Small Countries and Territories) fór fram 22. apríl síðastliðinn í háskólanum í Gíbraltar. 

Háskólinn á Akureyri gekk inn í samstarfsnetið árið 2021 á covid tímum en tók þátt í fyrsta rektorsfundi á Grænlandi 2022. HA stýrir nú netinu eftir að hafa tekið við því af háskólanum í Andorra síðastliðið sumar. Rektor háskólans á Gíbraltar, Dr Catherine Bachleda bauð þátttakendur velkomna en fundurinn var síðan í höndum rektors HA. Markmið samstarfsnetsins eru meðal annars stúdenta- og starfsmannaskipti, samstarf í gæðamálum, auk þess að ræða stefnur og strauma í háskólamálum almennt.

Meðal mikilvægustu ákvarðana sem teknar voru samhljóða á fundinum ber sérstaklega að nefna eftirfarandi:

  • NUSCT setur sér markmið um að allir meðlimir netsins hafi beint aðgengi að Erasmus+ áætluninni sem myndi styðja frekar við starfsmanna- og nemendaskipti á milli allra háskóla. Í dag eru 6 af 12 meðlimum fullgildir aðilar að Erasmus+ . Einnig var rætt um sameiginlega sjóði sem meðlimir gætu sótt um til rannsóknarsamstarfs.
  • Háskólinn í Færeyjum mun standa fyrir málþingi fyrir NUSCT-meðlimi í júní 2025 ásamt því að hýsa næsta ársfund netsins. Efni málstofunnar er „Hlutverk háskóla í samfélögum smáríkja í sögulegu samhengi“.
  • Fulltrúar stúdenta frá aðildarháskólum verða skipaðir af hverjum háskóla þar sem stefnt er að því að hafa fulltrúa sem beiti sér fyrir hagsmunum stúdenta. Niðurstöður netfunda verða kynntar á næsta ársfundi.
  • Háskólinn í Liechtenstein mun leggja drög að nýrri stefnutillögu fyrir netið um gervigreind og notkun hennar. 
  • NUSCT mun leggja drög að samstarfssamningi við United Nation University for Peace sem hefur óskað eftir samstarfi við NUSCT og meðlimum þess.
  • Meirihluti NUSCT hefur þegar lýst því yfir að þeir muni sækja um aðild að CoARA og deila reynslu sinni af því ferli að efla rannsóknarmat sitt.

Áhugasöm geta nálgast vefsíðu NUSCT hér.