Eins manns rusl er annars gull - athugið breyttur tími!

Virðisaukning á lífrænum úrgangi

Matarúrgangur er dæmi um vannýttan, orkumiklan lífmassa sem hægt væri að endurnýta í meira mæli með hjálp líftækninnar. Orkunotkun eykst á heimsvísu frá ári til árs og er aðallega háð jarðefnaeldsneyti sem er óendurnýjanleg auðlind. Nýta má rafsegulgeislun til niðurbrots á endurnýjanlegum lífmassa á borð við lífrænt sorp með það að markmiði að losa um einsykrur sem síðan má gerja með hjálp dreif- og/eða heilkjörnunga í nytsamleg efni á borð við lífeldsneyti (etanól). Í þessu verkefni voru fjölsykrurnar pektín og sterkja úr ofþroskuðum eplum vatnsrofnar með hjálp rafsegulgeislunar við súrar aðstæður. Eftirfarandi þættir voru bestaðir: geislunartími, sýrustyrkur og magn hvarfefnis. Í framhaldi var vatnsrofsefnið gerjað með gersveppnum S. cerevisiae. Hámarks etanólframleiðsla sem fékkst úr 50 g/L af frostþurrkuðum eplum var tæplega 380 mM af etanóli. Þetta samsvarar um 96 g af etanóli úr 1 kg af ofþroskuðum eplum. Þessar niðurstöður gefa tilefni til frekari rannsókna, enda styður virðisaukning úrgangs af þessu tagi við hringrásarhagkerfið á Íslandi.

Garðar K. Garðarsson, líftækninemi við Auðlindadeild HA, skoðaði möguleikann á því að nýta lífrænan úrgang til framleiðslu á lífetanóli. Hann vann verkefnið undir handleiðslu Sean M. Scully og Evu M. Ingvadóttur aðjúnkta við Auðlindadeild HA.

Öll velkomin!

Hér má nálgast streymishlekk!