Mín eigin lög - kynning á bók um málsmeðferðarreglur á Alþingi

Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur, kynnir bókina sína

Velkomin á opinn viðburð á vegum Félagsvísindadeildar HA og AkureyrarAkademíunnar þar sem Haukur Arnþórsson mun kynna bókina sína Mín eigin lög.

Viðburðurinn fer fram í stofu M101 og verður einnig streymt frá honum hér.

Bókin „Mín eigin lög“ fjallar um þau ákvæði stjórnarskrár sem segja fyrir um málsmeðferð frumvarpa á Alþingi. Í bókinni er rakin forsaga og forsendur ákvæðanna sem mótuðust á stjórnlagaþinginu í Danmörku 1848-1849 og á hinu eiginlega stjórnlagaþingi á Alþingi 1867. Þá er í kafla um mælingar þingstarfa brugðið upp raunmyndum af starfsháttum Alþingis og Folketinget. Í umræðukafla er framkvæmd Alþingis á gæðakröfunni síðan borin að ljósi forsendna ákvæðisins og stjórnskipunarinnar. Málið er skoðað á stjórnsýslufræðilegan hátt - með þverfaglegri rannsókn á málsmeðferð stjórnvalds (varðar einnig sagnfræði, stjórnmálafræði og lögfræði) – sem gefur okkur ópólitíska nálgun á annars stórpólitísku málefni.

Bókin fjallar um þau ákvæði stjórnarskrár sem segja fyrir um störf Alþingis og danska þingsins við setningu löggjafar. Þau ákvæði eiga að tryggja gæði lagasetningar, eru eins fyrir bæði þingin og hafa verið óbreytt frá upphafi. Fram kemur að bæði þingin fara í stórum dráttum eftir ákvæðunum, en framkvæmd Alþingis er þó í sumu tilliti veik gagnvart kröfum þeirra. Bókin skiptist í tvo hluta: Sagan og nútíminn.

Haukur Arnþórsson, Ph.D., starfar við ReykjavíkurAkademíuna og sinnir rannsóknum. Hann hefur m.a. unnið fyrir nokkrar af æðstu stofnunum ríkisins og tekið þátt í Evrópusambandsverkefnum. Hann hefur jöfnun höndum ritað um fræðileg efni og almenn og kynnt niðurstöður sínar opinberlega. Haukur var yfirmaður upplýsinga- og tölvumála hjá Alþingi í 16 ár – á mótunartíma tölvukerfa stofnunarinnar og hefur skrifað fræðigreinar og bækur um störf þingsins.

Öll velkomin!