Opin kynning á ráðstefnu um alþjóðlegar hafsbotnsrannsóknir

Sverre Planke, prófessor við Oslóarháskóla og leiðangursstjóri heldur erindi

Öll velkomin á opna kynningu sem fram fer á ráðstefnu um alþjóðlegar hafbotnsrannsóknir við HA þriðjudaginn 18. júní.

Fyrirlesari er: Sverre Planke, prófessor við Oslóarháskóla og leiðangursstjóri

Undanfarin ár hefur hópur vísindafólks á sviðum hafsbotnsjarðfræði, eldfjallafræði, bergfræði, jarðefnafræði og fornloftslagsfræði unnið að rannsóknum sínum í „leiðangri 396“ innan alþjóðlega hafsbotnsrannsóknaverkefnisins IODP (International Ocean Discovery Program). Dagana 17. til 21. júní 2024 koma þau saman á Akureyri til að ræða helstu niðurstöður leiðangursins auk þess sem leitað verður tækifæra og samstarfsaðila í þær framhaldsrannsóknir sem eru á teikniborðinu.

Í leiðangri 396 tók hópurinn, sem samanstendur af rannsakendum frá 14 þjóðlöndum, borkjarna úr 21 rannsóknaborholu af sjávarbotni á Vøring-sléttunni á landgrunni Noregs, austur af Jan Mayen-hryggnum, með það að markmiði að varpa nýju ljósi á eldvirkni á plötuskilum og fá ítarlegri innsýn í jarðfræðimyndanir svæðisins, eldvirki og fornloftslag fyrir um það bil 56 milljónum ára. Einn megintilgangur leiðangursins var að skoða stórfelld áhrif aukinnar innskota- og eldvirkni á loftslag Jarðar á þessum tíma. Gögnin sem aflað var í leiðangrinum gefa nýja innsýn í bergfræði svæðisins og gera kleift að marka betur af þau jarðeðlisfræðilíkön sem skýra hraða myndun stórra storkubergsfleka og áhrif þeirra á aðlæg kerfi, sem og á hnattrænum skala. Samanburður á gögnunum undan hafsbotni við jarðfræði Íslands mun veita vísindamönnunum frekari innsýn í eldfjallasögu Noregssvæðisins. Rannsóknir sem þessar auka skilning okkar á áhrifum stórfelldra eldsumbrota á landmótun, loftslag og lífríki, og gefa grunn að hagnýtum rannsóknum s.s. varðandi kolefnisbindingu og jarðvarmanýtingu. 

Erindið fer fram á ensku í stofu M102 í Háskólanum á Akureyri og mun Sverre Planke kynna helstu niðurstöður og ræða samstarfsmöguleika við íslenskt vísindafólk, en á hafsbotninum úti fyrir Norðurlandi er víða að finna stórfengleg ummerki um eldsumbrot og jarðskorpuhreyfingar og úr þeim mætti margt lesa, til dæmis um áhrif þeirra á loftslag og vistkerfi.
Hægt er að taka þátt á zoom, smellið hér. 

Skipuleggjendur ráðstefnunnar eru Anett Blischke, jarðfræðingur hjá ÍSOR og stundakennari við HA, Árni Hjartarson, jarðfræðingur hjá ÍSOR, og Oddur Þ. Vilhelmsson prófessor við Auðlindadeild HA.