Aflýst: Skólar og borgarar í lýðræðissamfélagi

Málstofan fellur niður.

Þriðjudaginn 24. apríl kl. 12.00-12.50 mun Guðmundur Heiðar Frímannsson, heimspekingur og prófessor við hug- og félagsvísindasvið HA, fjalla um skóla og borgara í lýðræðissamfélagi og eiga samtal við áheyrendur um efnið.

Lýðræði er ríkjandi stjórnskipun í nútímanum. Grunnhugmyndin í lýðræði er að allt pólitískt vald komi frá borgurunum, ekki frá kennivaldi þekkingar, Guði eða fjármagni, einungis frá sameiginlegum vilja borgaranna. Lýðræði getur tekið á sig ýmsar myndir, t.d. fulltrúalýðræði, beint lýðræði, ígrundað lýðræði og þær gera ólíkar kröfur til borgaranna um þátttöku, skoðanamyndun, þekkingu og færni.

Almennt gildir að skólakerfið á að vinna gegn fáfræði og þröngsýni, tryggja að borgararnir séu menntaðir og upplýstir. Þar á meðal eiga þeir að vera upplýstir um eigin samfélagsskipun. En þeir þurfa einnig að læra hvernig maður starfar í lýðræði, hvernig maður getur unnið með öðrum, haft áhrif á skoðanir annarra og leitast við að finna niðurstöðu sem er ákjósanleg fyrir alla. Skólar geta náð sumum af þessum markmiðum með því að mennta alla nemendur í hefðbundnum greinum. En þeir þurfa að gera meira. Þeir þurfa að gefa nemendum kost á að vinna með samnemendum sínum bæði í náminu sjálfu, í íþróttum og í félagslífi svo að þeir nái tökum á þeirri færni sem lýðræðið krefst.

Í þessum fyrirlestri kynnir Guðmundur hugmyndir úr væntanlegri bók sinni, Skólar og lýðræði. Um borgaramenntun.

Lögfræðitorgið verður í stofu M102 og er opið almenningi án endurgjalds.